Hvað segja oddvitarnir um könnun RHA?
Sjálfstæðisflokkurinn mælist með mest fylgi í Norðausturkjördæmi, 23%, skv. nýrri könnun Rannsóknamiðstöðvar Háskólans á Akureyri, vegna alþingiskosninganna 25. september. Flokkurinn fengi þrjá menn kjörna yrði þetta niðurstaða kosninganna. Akureyri.net sagði frá könnuninni fyrir helgi og reiknað er með að hún verði kynnt nánar í vikunni.
Akureyri.net leitaði viðbragða við niðurstöðum könnunarinnar hjá oddvitum flokkanna og hafa flestir svarað.
- Sjálfstæðisflokkur 23,0% – 3 þingmenn – Mikil bjartsýni víða
„Þetta er ánægjuleg vísbending,“ segir Njáll Trausti Friðbertsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins. „Þetta kemur okkur ekki á óvart því við höfum fengið mjög góð viðbrögð í yfirferð okkar um kjördæmið. Fólk er jákvætt og það er mikil bjartsýni víða. Kjósendur vilja áframhaldandi stöðugleika og aukna verðmætasköpun til að tryggja sterka innviði.“
Njáll segir þá stefnu sem sjálfstæðismenn tala fyrir fá góðan hljómgrunn. „Auk sem við erum með sterkan framboðslista sem er skipaður öflugu ungu fólki í bland við reynslumikið fólk.“
- Framsóknarflokkur 18,2% – 2 þingmenn – Tökum öllu með fyrirvara
„Þetta er ein af mörgum skoðanakönnunum sem eru að birtast og við tökum þeim öllum með fyrirvara á þessum tímapunkti – en við finnum mikinn meðbyr,“ segir Ingibjörg Isaksen, oddviti Framsóknarflokksins. „Aðal verkefnið þessa dagana er að koma áherslumálum Framsóknar til kjósenda og treysta því að sem flestir skili sér á kjörstað þann 25. september, því það er niðurstaðan þann dag sem skiptir máli.“
- Vinstri hreyfingin – grænt framboð 14,2% – 1 þingmaður – Nokkuð ánægð
„Ég er nokkuð ánægð með ríflega 14% og held að það gæti skilað okkur tveimur mönnum á þing. Píratar eru með næstum því tvöfalt minna fylgi en líka með einn þingmann skv. þessari könnun og ég er því bara brött og hef enga ástæða til að ætla annað en okkur gangi vel,“ segir Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, oddviti VG. „Við erum mikið á ferðinni, erum búin að flengjast um allt kjördæmið undanfarið; vorum á Egilsstöðum, Vopnafirði, Raufarhöfn og Húsavík um helgina með forsætisráðherra með okkur og höldum áfram næstu daga. Við verðum með kosningabíl – hreyfanlega kosningaskrifstofu – til að ná til sem flestra.“
- Samfylkingin 10,9% – 1 þingmaður – Margir óákveðnir
„Það eru greinilega margir óákveðnir og margir vilja ekki svara,“ segir Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar og oddviti í Norðausturkjördæmi. „Kannanir ólíkra fyrirtækja hafa raunar sýnt mjög mismunandi niðurstöður og flestar sýnt okkur með mun meira fylgi eða tvo menn inni. Þessi er nokkuð úr takti við þær flestar.“
Logi segir Samfylkingarfólk finna fyrir „mikilli jákvæðni og við erum því bjartsýn á að í lok kjördags muni Samfylkingin uppskera ríkulega í þessu og öðrum kjördæmum. Það er til mikils að vinna því sterk útkoma flokksins er helsta tryggingin fyrir því að hér verði mynduð annars konar ríkisstjórn; stjórn sem setur fjölskyldur í forgang, ræðst í alvöru aðgerðir í loftlagsmálum og gerir stórátak í heilbrigðisþjónustu fyrir alla landsmenn.“
- Miðflokkurinn 9,7% – 1 þingmaður
- Píratar 7,9% – 1 þingmaður – Í samræmi við flestar kannanir
„Ég er að sjálfsögðu ánægður með þessa niðurstöðu. Hún er í samræmi við niðurstöður langflestra skoðanakannana sem birtar hafa verið undanfarnar vikur og mánuði,“ segir Einar Brynjólfsson, oddviti Pírata. „Við höfum verið á faraldsfæti um allt kjördæmið undanfarna tvo mánuði og fundið mikinn meðbyr. Auk þess hefur margt fólk lagt leið sína á kosningaskrifstofuna okkar við Ráðhústorg til skrafs og ráðagerða. Heilt yfir finnum við fyrir meiri jákvæðni gagnvart Pírötum nú en stundum áður, meira að segja á stöðum þar sem ríkir afkomuótti vegna ægivalds tiltekinna fyrirtækja.“
Einar telur að fólk „sé búið að átta sig á því að ef fólk vill breytingar verður það að kjósa breytingar. Við munum fyrst og fremst vera á ferð og flugi um kjördæmið þessar síðustu vikur fram að kosningum, til að ræða við fólk,“ segir hann.
- Sósíalistaflokkur Íslands 7,1% – Erum á flugi og munum sækja á
„Þetta er svolítið gömul könnun, nær allt aftur í ágúst. En prósentukeppnin er hnífjöfn eins og sést á tölunum. Við erum á flugi og munum sækja á. Hér er vösk sveit fólks sem leggur allt í sölurnar fram á síðustu mínutu. Svona könnun eflir okkur og alla okkar stuðningsmenn,“ segir Haraldur Ingi Haraldsson, oddviti Sósíalistaflokks Íslands í kjördæminu.
„Við höfum hljómgrunn hjá fólki vegna þess að við erum að boða góð tíðindi; raunverulega andstöðu við gróðaöflin og einkavæðingu ríkistjórnarflokkanna annarsvegar, og hins vegar uppbyggingarstefnu sem byggir á félagslegum lausnum þar sem almenningur nýtur gæðanna, ekki fjármagnseigendur og verktakar.“
Haraldur segir þetta allt aðra framtíðarsýn en þá stöðu sem er í samfélaginu í dag, „sem einkennist af ójöfnuði og ósanngirni. Þess vegna munum við sigra.“
- Viðreisn 4,6% – Kannanir misvísandi
„Ef niðurstöður kosninganna 25. september verða í samræmi við könnun RHA þá verða það mikil vonbrigði. Könnun RHA er ekki í samræmi við þau viðbrögð sem við fáum frá fólki,“ segir Eiríkur Björn Björgvinsson, oddviti Viðreisnar. „Kannanir eru reyndar mjög misvísandi þessa dagana en við mældumst með 9,5 % í könnun Maskínu fyrir fréttastofu Stöðvar 2, Vísis og Bylgjuna 7. september. Ég yrði sáttari með þá niðurstöðu. Við látum kannanir ekki hafa áhrif á okkar kosningabaráttu. Við erum stolt af þeim málum sem við tölum fyrir og treystum því að kjósendur eigi samleið með okkur. Hvert atkvæði á kjördag skiptir megin máli.“
- Flokkur fólksins 3,9%
- Frjálslyndi lýðræðisflokkurinn 0,4%