Fara í efni
Alþingiskosningar 2021

Draumastarf og búseta – hvernig fer það saman?

Viðreisn sér framtíð þar sem fólk getur sinnt draumastarfinu sínu á þeim stað á landinu sem það helst kýs. Að staðsetning starfa sé ekki meitluð í stein né heldur formið sem þjónustan eða starfið er innt af hendi, hvort sem um ræðir opinber störf eða í einkageiranum.

Störf og staðsetning

Ég starfa við ráðningar i kjördæminu okkar og sé sóknarfærin, hvað getur orðið ef við veljum oftar tækifæri og lausnir umfram venjur, kerfishöft og hræðsluhugarfar. Mannauðurinn er til staðar, fólk sem vill búa á landsbyggðunum upplifir fábreytni og fáa valkosti til atvinnu. Við í Viðreisn viljum breyta þessu, þrátt fyrir þá sturluðu staðreynd hvað margir spyrna fótum við breytingum og ákalli nútímans. Nýtum frelsið, val og völd yfir okkur sjálfum og lyftum fætinum af breytingabremsunni.

Hverju vildir þú geta breytt?

Það sem er brýnast að breytist er að störf þurfi ekki að eiga ákveðið póstnúmer, byggingu eða sæti, bara af því að þannig hefur það alltaf verið. Að þjónusta eða þekking sé meiri eða betri ef hún er keypt annars staðar frá og þá helst af höfuðborgarsvæðinu, jafnvel þó sambærileg þjónusta sé til staðar eða að forsendur séu til að bjóða hana utan þess svæðis. Viljum við ekki einmitt að samfélagið okkar sé eins sjálfbært og kostur er?

Val, völd og viðhorf

Lykilatriði í velsæld einstaklingsins er að upplifa val og völd í eigin lífi og hafa sem mest um það að segja hvernig okkur farnast í lífinu. Andstæða þessa er upplifunin að vera háður ákvörðunum annarra og ytra umhverfis. Flest höfum við þá reynslu að hlutirnir æxlast á annan veg en við vildum og vissulega tökumst við á við áskoranir sem við hefðum seint valið að hafa á verkefnalista lífsins. Við vitum líka að við getum valið okkur viðhorf og í því samhengi spyrja sumir hvort við sjáum glasið hálf fullt eða hálf tómt.

Hvað er mikið í glasinu?

Skoðum þetta með glasið. Hugsum um kjördæmið okkar, mannauðinn og atvinnutækifærin. Hvernig sérð þú glasið, er það hálf fullt eða hálf tómt? Sannarlega er eitt og annað í þessu glasi, en það er alltaf rými til að koma svo miklu meiru í glasið. Barmafylla það! Sjáið þið það ekki líka fyrir ykkur? Gera betur, skapa og grípa fleiri tækifæri og möguleika.

Keyrum okkur upp í næsta gír

Það verða reglulega byltingar og breytingar, iðnbylting númer fjögur er mætt á svæðið sem segir okkur að við höfum gert þetta áður. Jú og svo kom covid og við tókum stærri skref en við trúðum að við gætum til að aðlagast breyttum aðstæðum. Meðal annars voru mörg störf unnin í fjarvinnu og óháð staðsetningu, fyrirkomulag og skipulag starfa gat breyst. Þetta gátum við og þetta er að gerast. Einhverjum gæti fundist þetta vera komið en við í Viðreisn sjáum fyrir okkur að gera betur, meira og hraðar, því við getum það, og þannig þjónum við fólki og samfélögum betur.

Gefðu framtíðinni tækifæri – aukið val um atvinnu er réttlætismál.

Í sóknaráætlun Norðurlands eystra er stefnt að fjölgun opinberra starfa á svæðinu og í byggðaáætlun er krafa um að 10% auglýstra starfa skuli vera án staðsetningar fyrir árslok 2024. Viðreisn lítur á það sem lágmarksviðmið. Svæðið okkar er vel í stakk búið til að taka á móti fleiri opinberum störfum. Byggðastofnun hefur tilgreint 23 staði í kjördæminu þar sem hægt er að vinna störf án staðsetningar, störf sem eru ekki bundin starfsstöð og hægt að vinna hvar sem er á landinu.

Látum hugmyndafræði starfa án staðsetningar virka í raun til að efla störf á landsbyggðunum en ekki til að draga störf til höfuðborgarsvæðisins. Með öflugum innviðum er hver og ein landsbyggðanna vel í stakk búin til að taka við og byggja frá grunni störf sem ekki krefjast ákveðinnar staðsetningar. Þetta er réttlætismál og við í Viðreisn sjáum mikla möguleika til að efla landsbyggðirnar og gefa fólki aukið val um starf og búsetu, með opnara atvinnusvæði innan og utan landamæra.

Sigríður Ólafsdóttir skipar 2. sæti á lista Viðreisnar í Norðausturkjördæmi við alþingiskosningarnar á laugardaginn.