Algerlega ný nálgun í íslenskum stjórnmálum
Miðflokkurinn vill skila afgangi úr ríkissjóði til almennings og að hver ríkisborgari fái greitt auðlindagjald á fullveldisdaginn, 1. desember, ár hvert. Þetta er á meðal þess fram kom í ræðu Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, formanns flokksins, á fundi með fréttamönnum í Hörpu í dag, þar sem hann kynnti kosningaáherslur flokksins fyrir alþingiskosningar 25. september.
„Það sem ég kynni nú felur í sér algerlega nýja nálgun í íslenskum stjórnmálum. Þetta byggist að nokkru leyti á reynslu minni af því hvað þarf til til þess að breytingar nái fram að ganga. Því að breytingar, sérstaklega breytingar sem skipta máli mæta alltaf miklum hindrunum þannig það þarf að finna leiðir til að ryðjast í gegnum þær hindranir,“ segir Sigmundur. „Að nokkru leyti er þetta kannski spurning um að setja stjórnmálin og ríkið í þá stöðu að þurfa að standa sig.“
Kosningaáherslur Miðflokksins bera yfirskriftina 10 ný réttindi fyrir íslensku þjóðina, og skiptist í eftirfarandi hluta:
- Betri ríkisrekstur fyrir alla
- Auðlindagjald fyrir alla
- Heilbrigðisskimun fyrir alla
- Eignir fyrir alla
- Hlutdeild í fjármálakerfinu fyrir alla
- Jafnræði gagnvart ríkinu fyrir alla
- Jafnrétti óháð búsetu fyrir alla
- Jafn réttur óháð heilsu og aldri fyrir alla
- Jafnræði í rekstri fyrir alla
- Tjáningarfrelsi fyrir alla
Sigmundur sagði sumar áherslurnar snúa að því að endurheimta réttindi sem að einhverju leyti hafi glatast en í öllum tilvikum sé um að ræða nýja leið að því markmiði „tryggja það sem eiga að vera réttindi okkar allra Íslendinga,“ en feli um leið í sér „mjög jákvæða framþróun samfélagsins,“ eins og formaðurinn orðaði það.
Smellið hér til að sjá kosningaáherslur Miðflokksins.