Íshokkí og körfubolti á heimavöllum í kvöld

Annar leikur í úrslitaeinvígi Skautafélags Akureyrar og Fjölnis um Íslandsmeistaratitilinn í íshokkí kvenna verður í Skautahöllinni á Akureyri í kvöld, fimmtudagskvöld. Fyrsti leikurinn fór fram í Egilshöllinni í Reykjavík á þriðjudag og þá unnu Reykvíkingarnir stórsigur, 5:0. Vinna þarf þrjá leiki í seríunni til að hampa Íslandsmeistarabikarnum og leikurinn í kvöld er því gríðarlega mikilvægur; segja má að nú sé að duga eða drepast fyrir Stelpurnar okkar í liði SA.
- Íslandsmótið í íshokkí kvenna, úrslitaeinvígi
Skautahöllin á Akureyri kl. 19:30
SA - Fjölnir
- - -
Karlalið Þórs í körfuknattleik er í harðri baráttu um að halda 5. sætinu í 1. deildinni áður en kemur að umspili um laust sæti í efstu deild. Nú þegar er ljóst að Þórsarar enda annaðhvort í 5. eða 6. sæti deildarinnar og eiga þar í keppni við Fjölni. Það eru einmitt Fjölnismenn sem mæta til Akureyrar i kvöld.
- 1. deild karla í körfuknattleik
Íþróttahöllin á Akureyri kl. 19:15
Þór - Fjölnir
Með sigri tryggja Þórsarar sér heimavallarréttinni fyrstu umferð umspilsins, þar sem þeir munu einmitt mæta Fjölni. Þór vann fyrri leik liðanna í deildinni í vetur með 18 stiga mun í Grafarvoginum. Fari Fjölnir með sigur af hólmi þurfa Þórsarar að vinna Ármann á útivelli í lokaumferðinni og treysta á að Fjölnir tapi heima gegn Skallagrími.
Efsta lið 1. deildar fer beint upp í Bónusdeildina og það sæti hafa Skagamenn tryggt sér nú þegar undir stjórn fyrrverandi þjálfara Þórs, Óskars Þórs Þorsteinssonar. Næst fyrir ofan Þór og Fjölni er Sindri með 13 sigra, Þór og Fjölnir hafa unnið 11 leiki, en þar fyrir neðan eru Breiðablik og Snæfell sem hafa unnið átta leiki.