Fara í efni
Akureyri.net

„Akureyri.net er opinn gluggi heim!“

Akureyringurinn Katrín Frímannsdóttir hefur verið búsett erlendis í hálfan fjórða áratug, fyrst þrjú ár í Noregi og síðan 32 vestur í Bandaríkjunum. Hún er einn fjölmargra dyggra lesenda Akureyri.net fjarri gamla heimabænum.

„Áður en þú byrjaðir með vefinn fór ég helst á heimasíðu bæjarins til að fylgjast með því sem var að gerast heima. Þar var reyndar aldrei neitt sem mig langaði mikið til að sjá en ég gat þó farið á vefmyndavélina til að sjá veðrið!“ segir Katrín. „Núna fer ég reglulega inn á Akureyri.net til að fylgjast með – og veit eiginlega um allt sem er um að vera. Það er svo þægilegt að hafa borðann með efnisflokkunum efst á síðunni; fréttum, menningu, íþróttum og fleira. “

  • Aldrei höfðu fleiri lesið Akureyri.net í einum mánuði en í nýliðnum september. Samkvæmt lestrartölum kemur gríðarlegur fjöldi fólks annars staðar á landinu og erlendis inn á vefinn eins og sjá má í þessari frétt: 53.255 gestir í september og 1,1 milljón flettinga. Um miðjan nóvember verða tvö ár síðan ofanritaður endurvakti Akureyri.net eftir töluvert hlé og eignaðist í kjölfarið vefinn.

Skiptir mig miklu máli

Katrín segist reyna að lesa allt sem birtist á Akureyri.net. „Ég kann síðuna eiginlega utan að! Allt skiptir mig máli; ég bý í litlum bæ í Ameríku, þar sem eru 100.000 íbúar og ég veit miklu betur hvað er að gerast á Akureyri en hér. Fyrir utan fréttir og annað þess háttar hef ég til dæmis ofsalega gaman af því að lesa pistla Ólafs Þórs Ævarssonar um lífið í Innbænum og pistla Arnórs Blika um húsin í bænum,“ segir hún.

„Ég skoða líka vel auglýsingar um alls kyns viðburði; veit af tónleikum og íþróttaviðburðum og jafnvel hvaða verslun er verið að opna. Mér finnst það gott þótt ég sé langt í burtu og geti ekki sótt viðburðina en margt kemur sér reyndar vel seinna; þegar ég var heima í nokkrar vikur í júní vissi ég til dæmis að Nespresso var búið að opna á Glerártorgi, svo ég nefni eitt dæmi!“ segir Katrín við Akureyri.net. „Við fórum líka út í Hrísey í sumar, bara af því ég var búin að lesa eitthvað um Hrísey hjá þér áður en við komum heim.“

Fylgist vel með íþróttum

Hjónin Katrín og Haraldur Bjarnason eiga hús og jörð á Svalbarðsströnd og hún segir það líka skipta sig miklu máli að vita um það helsta sem er að gerast í næsta nágrenni Akureyrar, „til dæmis um nýja stíginn sem var lagður í Vaðlaheiðinni og svo auðvitað um Skógarböðin,“ segir hún.

„Ég fylgist líka alltaf vel með íþróttunum og er mjög glöð hvað þú skrifar mikið um þær. Sjálfsagt er skrifað á mbl, RÚV og fleiri miðlum um íþróttir á Akureyri en meiri hætta er á að þær fréttir týnist þar innan um aðrar; það er svo gott að hafa allar lókal fréttirnar á einum stað. Það er gott að fylgjast með úr fjarlægð og vera komin á bragðið; þegar ég var heima í vor las ég auðvitað vefinn og vissi því að kvennalið KA í blaki var að keppa í úrslitakeppninni. Ég dreif mig á leikinn en hefði ekki vitað af honum ef þú hefðir ekki sagt frá honum.“

„Hélt til á vefnum!“

Katrín ólst upp á miklu íþróttaheimili. Móðir hennar, Karólína Guðmundsdóttir, var afrekskona á skíðum og síðar í golfi og faðir hennar, Frímann Gunnlaugsson, kunnur íþróttafrömuður. „Ég fylgist því eðlilega mjög mikið með bæði skíðum og golfi og hreinlega hélt til á Akureyri.net þegar Íslandsmótið í golfi fór fram á Akureyri á síðasta ári! Það var fjallað svo mikið og vel um mótið. Mér þótti ofboðslega vænt um að sjá allar myndirnar og fannst ég nánast vera á staðnum. Mér fannst enginn gera mótinu eins góð skil og Akureyri.net!“

Katrín segir það nokkuð fljótandi hvað er „heima“ í hennar tilfelli. „Ég á auðvitað heima í Ameríku en Heima með stóru H-i er samt alltaf Eyjafjörðurinn og fyrir mér er Akureyri.net opinn gluggi heim; þessi gluggi hjálpar mér við að hugsa heim, sem mér finnst gott. Það er ómetanlegt að fá allar þessar fréttir úr Eyjafirðinum og ég vil líka lesa sem mest á íslensku, það er mikilvægt eftir öll þessi ár úti.“