Akureyri.net
Akureyri.net auglýsir eftir blaðamanni
13.06.2024 kl. 13:00
Akureyri.net hefur auglýst eftir reyndum blaðamanni í fullt starf.
Núverandi eigendur endurvöktu miðilinn fyrir þremur og hálfu ári, umfangið hefur aukist jafnt og þétt og tímabært er að fjölga á ritstjórninni.
Skapti Hallgrímsson, annar eigenda og ritstjóri Akureyri.net, var lengi vel eini fastráðni starfsmaðurinn en snemma á þessu ári var Rakel Hinriksdóttir fastráðin í 50% starf og Haraldur Ingólfsson hefur verið lausráðinn blaðamaður í um það bil hálfu starfi. Vefurinn státar auk þess að afragðs góðum og vinsælum pistlahöfundum og nýtur liðsinnis nokkurra prýðilegra ljósmyndara.
Ráðgjafafyrirtækið Mögnum sér um málið fyrir Eigin herra ehf., útgáfufélag Akureyri.net. Auglýsing fyrirtækisins er svohljóðandi:
- Vefmiðillinn Akureyri.net leitar að reyndum, öflugum og hugmyndaríkum blaðamanni sem er tilbúinn að vera „oftast sólarmegin“ – óháð veðri og vindum.
- Við leitum að aðila sem er góður í samskiptum og með gott fréttanef, hefur auk þess brennandi áhuga á málefnum liðandi stundar og er tilbúinn að taka þátt í áframhaldandi uppbyggingu miðilsins.
- Helstu verkefni eru hefðbundin frétta- og greinaskrif auk mannlífsviðtala.
- Akureyri.net er spennandi fjölmiðill sem nýir eigendur endurvöktu í nóvember 2020 og fjallar alla daga ársins í máli og myndum um Akureyri og Akureyringa, hvar sem þeir eru niðurkomnir í heiminum.
- Miðillinn hefur náð góðri fótfestu, heimsóknir undanfarið eru um 10.000 á dag að meðaltali og einstakir gestir (IP tölur) allt að 90.000 á mánuði.
- Slagorð Akureyri.net er Oftast sólarmegin.
- Umsóknarfrestur er til og með 19. júní 2024
- Umsókn skal fylgja starfsferilskrá og kynningarbréf þar sem gerð er grein fyrir ástæðu umsóknar og rökstuðningur fyrir hæfni umsækjanda.
- Nánari upplýsingar veita Sigríður Ólafsdóttir sigga@mognum.is og Skapti Hallgrímsson skapti@akureyri.net
- Sótt er um á www.mognum.is