Akureyri.net: 15.647 heimsóknir í gær – 65.872 „einstakir gestir“ í maí
Akureyri.net hefur aldrei fengið fleiri heimsóknir á einum og sama deginum og í gær, miðvikudag, síðan núverandi eigendur endurreistu fjölmiðilinn í nóvember árið 2020. Heimsóknir í gær voru hvorki fleiri né færri en 15.647.
Aðsóknarmet var slegið í apríl, þegar 58.212 „einstakir gestir“ lásu Akureyri.net. Það er fjöldi IP talna, hver einungis talin einu sinni þótt lesandi fari margoft inn á vefinn í mánuðinum.
Það met var svo slegið hressilega í maí, þegar 65.872 „einstakir gestir“ komu inni á vefinn! Sumir lesendur eiga tvær IP tölur; sími hefur eina og tölva aðra, en tölfræðin sýnir þó – eins og undirritaður vissi mæta vel – að vefurinn er gríðarlega mikið lesinn af fólki annars staðar en á Akureyri og nágrenni.
Auglýsendur gera sér í vaxandi mæli grein fyrir því hve Akureyri.net er sterkur miðill og víðlesinn og fyrir það ber að þakka.
Þetta eru 12 „stærstu“ dagarnir síðan í nóvember 2020 – fjöldi heimsókna á dag. Feitletruðu dagarnir eru á þessu ári.
- 14. júní 2023 – 15.647
- 20. apríl 2022 – 15.546
- 23. febrúar 2023 – 14.736
- 14. janúar 2023 – 13.430
- 29. desember 2022 – 13.383
- 25. september 2022 – 13.294
- 5. maí 2023 – 12.997
- 7. apríl 2023 – 12.860
- 1. júní 2021 – 12.565
- 8. apríl 2023 – 12.243
- 25. maí 2023 – 12.225
- 30. desember 2022 – 12.182
Undirritaður er innilega þakklátur fyrir viðtökurnar. Haldið var af stað með það í huga að dropinn holar steininn, að sígandi lukka er best. Það reyndist farsælt. Markmið fjölmiðilsins er að fylgast vel með og segja frá öllu því helsta sem fréttnæmt er á Akureyri, og því sem Akureyringar eru að fást við, hvar sem þeir eru niðurkomnir í veröldinni. Að meðaltali hafa birst um átta fréttir eða greinar á hverjum degi síðan 13. nóvember 2020 og það kunna lesendur að meta.
Akureyri.net nýtur ekki opinberra styrkja annarra en þeirra sem ráðuneyti menningar- og viðskipta hefur veitt fjölmiðlum hér á landi. Almenningur hefur tekið vel í að styðja við bakið á Akureyri.net með mánaðarlegu framlagi og ástæða er til að minna á þann möguleika. Smellið HÉR til þess.
TAKK!
Skapti Hallgrímsson,
ritstjóri Akureyri.net