Fara í efni
Akureyrarvaka

Jólatónar á söfnunum í þessari viku

Viðburðaríku ári á Minjasafninu á Akureyri og tengdum söfnum lýkur með þrennum jólatónleikum í þessari viku, frá fimmtudegi til laugardags. Aðgangur er ókeypis, til að gefa öllum tækifæri til að njóta tónlistar á aðventunni, eins og segir í tilkynningu frá safninu.

Síðustu tónleikarnir verður 52. viðburður ársins sem Minjasafnið, Davíðshús, Iðnaðarsafnið, Nonnahús, Laufás, Leikfangahúsið og Smámunasafnið hafa staðið fyrir eða tekið þátt í samstarfi við aðra.

Í tilkynningunni segir:

Tónleikaröðin hefst á Minjasafninu á fimmtudagskvöldið kl. 20 með jasstónlist þar sem vel þekkt íslensk og erlend jólalög fá nýjan og léttan búning í meðferð Kristjáns Edelstein gítarleikara, Stefáns Ingólfssonar bassaleikara og söngkonunnar Eikar Haraldsdóttur.

Á föstudeginum, 20. desember kl. 17, hljóma jólalög úr ýmsum áttum í Davíðshúsi í flutningi Margrétar Hildar Egilsdóttur og Unu Haraldsdóttur, píanóleikara. Efnisskráin er fjölbreytt bæði gömul lög og ný en flutt í tímaröð. Ekkert tímaflakk í Davíðshúsi.

Lokatónleikarnir eru haldnir á Minjasafninu laugardaginn 21. desember, á vetrarsólstöðum, þegar sólargangur er stystur og myrkrið mest. Nú eins og forðum er því sannarlega tilefni til að fagna því að daginn að lengja og ljósið að ná yfirhöndinni.

Af þessu tilefni flytur Brasskvintett Norðurlands hátíðlega jólatónlist. Meðlimir hans eru Vilhjálmur Ingi Sigurðarson trompet, Sóley Björk Einarsdóttir trompet, Kjartan Ólafsson horn, Þorkell Ásgeir Jóhannsson básúna og Helgi Þ. Svavarsson túbu.

Aðgangur að öllum tónleikum er ókeypis sem fyrr segir, en tekið er við frjálsum framlögum.

  • 19. desember kl. 20 – Minjasafnið á Akureyri – Jólajass
  • 20 desember kl. 17 – Davíðshús – Jólatímaflakk
  • 21. desember kl. 14 – Minjasafnið á Akureyri – Hátíðartónleikar, Brasskvintett Norðurlands