Fara í efni
Akureyrarvaka

Akureyrarvaka – sjáðu dagskrána á morgun

Líf og fjör var á Rökkurró, setningarathöfn Akureyrar, í Lystigarðinum á síðasta ári. Hér er sungið hraustlega með rokkaranum Stefáni Jakobssyni. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Hin árlega Akureyrarvaka verður um helgina. Hún er jafnan haldin sem næst afmæli bæjarins sem er þann 29. ágúst, næsta þriðjudag; nú er liðið 161 ár síðan Akureyrarbær fékk kaupstaðarréttindi og verður því fagnað með ýmsu móti um helgina.

Lesendur hafa haft samband við Akureyri.net til að forvitnast um dagskrána. Margir vilja augljóslega búa sig vel undir hátíðina og skipuleggja dagana, enda fjölmargt í boði. Hér má sjá alla dagskrána á morgun.

FÖSTUDAGUR 25. ÁGÚST

  • 9.00 – 9.20 Fáni Akureyrarvöku dreginn að húni efst í Listagilinu

Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, og krakkar úr elstu deildum leikskólanna Hólmasólar og Iðavallar flagga Akureyrarvökufánanum og syngja afmælissönginn. Guðni, Ásthildur Sturludóttir bæjarstjóri og Heimir Örn Árnason forseti bæjarstjórnar spjalla við börnin og sungin verða nokkur lög í tilefni dagsins. Viðburðurinn á Facebook
_ _ _

  • 13.00 – 20.00 Snyrtistofan Heilbrigð húð í Kaupangi býður gestum og gangandi í heimsókn

Frá klukkan 13.00 til 17.00 verða fríar húðgreiningar í boði. Það þarf að bóka sig í þær með því að hringja í síma 454-4455 eða senda email á heilbrigdhud@heilbrigdhud.com

Milli 17.00 og 20.00 verður síðan aðal opnunin þar sem verður boðið uppá góð tilboð og léttar veitingar. Viðburðurinn á Facebook
_ _ _

  • 14.00 – 17.00 Á heimavelli, sýning í Deiglunni

Thomas Brewer, gestalistamaður Gilfélagsins, og Guðmundur Ármann Sigurjónsson, listamaður og kennari, munu koma saman og sýna lítil verk á pappír, vatnslitamyndir af Akureyri og Eyjafjarðarsvæðinu, vídeo verk og fjögur málverk í raunstærð af fjölskyldu og vinum. Enginn aðgangseyrir.

Opið sem hér segir:

Föstudag 25. ágúst kl. 14.00 - 17.00 (opnun)
Laugardag 26. ágúst kl. 14.00 - 17.00
Sunnudag 27. ágúst kl. 14.00 - 17.00

Sýningin verður einnig opin 1.-3. september.
_ _ _

  • 16.00 – 19.00 Listhópurinn Rösk býður upp á sýninguna Grímandi  í Rösk Rými í Listagilinu

Þarna er um að ræða listasýningu og þátttökugjörning í senn, sem hentar fólki á öllum aldri, segir í tilkynningu. Þar má máta sérhannaðar grímur í litskrúðugu umhverfi með listrænum bakgrunni, taka myndir á snjallsíma og leyfa þeim að flögra um netheima til að sýna sig og sjá aðra. Ekkert þáttökugjald. Leikurinn verður endurtekinn á laugardag kl. 14.00 - 17.00
_ _ _

  • 17.00 – 17.30 Sesselía Ólafs, bæjarlistamaður Akureyrar 2023, treður upp undir Reyniviðnum við Sigurhæðir

„Fjölbreytt og hnitmiðað prógramm í blöndu vænleika, kímni og skerpu,“ segir í kynningu. Enginn aðgangseyrir. Viðburðurinn á Facebook
_ _ _

Bryndís Fjóla, sjáandi og gærðyrkjufræðingur, segir frá huldufólki og álfum sem búa í Lystigarðinum. Ljósmynd: Snæfríður Ingadóttir.

  • 18.30 – 20.00 Huldustígur í Lystigarðinum á Akureyri

Gönguferð með leiðsögn Bryndísar Fjólu sjáanda og garðyrkjufræðings. „Í göngunni er gengið hægum skrefum um Lystigarðinn og Bryndís Fjóla segir frá huldufólkinu og álfunum sem búa í garðinum og fyrir hvað þau standa og hver þeirra saga er. Staldrað er við á búsvæðum þeirra og gestum gefin kostur á að finna fyrir nærveru þeirra,“ segir í tilkynningu.

„Bryndís Fjóla segir frá hlutverkum þeirra og boðskap í dag og til forna, og mun gefa sér góðan tíma til þess að svara öllum spurningum sem vakna um álfa og huldufólk.“

Enginn aðgangseyrir. Einnig verður boðið upp á tvær laugardaginn 26. ágúst, kl. 10.00 og 12.00. Viðburðurinn á Facebook
_ _ _

  • 19.00 – 21.00 – Opið hús í Brekkugötu 5

Snyrtistofan Liljan, Snyrtistofa Guðnýjar, Snyrtistofa Hörpu og Hið nýja líf verða með opið milli kl. 19.00 og 21.00 í Brekkgötu 5. Boðið verður uppá léttar veitingar og ýmis tilboð í tilefni Akureyrarvöku. Viðburðurinn á Facebook
_ _ _

  • 19.15 – 19.45 Barnasöngverk með Hnoðra í norðri

Sýning í Kvosinni í Menntaskólanum. „Ævintýralegt barnasöngverk úr smiðju sviðslistahópsins Hnoðra í norðri sem sniðinn er að börnum á 5-10 ára aldri, en ætti að koma öllum aldurshópum í gott skap,“ segir í tilkynningu. 

„Í sýningunni skarast skáldskapur, ópera, söngleikur og gamanleikhús á stórskemmtilegan hátt. Höfundur og tónskáld er Þórunn Guðmundsdóttir, en aðalsmerki hennar eru frábærlega fyndnir og hnittnir textar með orðaleikjum auk þess sem tónlist hennar er mjög aðgengileg og yndisleg áheyrnar.“

Verkið er stutt og laggott, eða um 30 mín að lengd, fyndið og efniviður sóttur í hinn undarlega íslenska jólasöguarf.

Leikstjóri verksins er Jenný Lára Arnórsdóttir, sem einnig hannar leikmynd eða ljós. Búningar eru úr smiðju Rósu Ásgeirsdóttur. Flytjendur eru Jón Þorsteinn Reynisson harmonikkuleikari og söngkonurnar Björk Níelsdóttir og Erla Dóra Vogler.

Enginn aðgangseyrir. Viðburðurinn á Facebook
_ _ _

  • 20.00 – 21.30 – Rökkurró í Lystigarðinum

Setningarhátíð Akureyrarvöku. Dagskráin hefst með ávarpi Guðna Th. Jóhannessonar, forseta Íslands kl. 20.00.

Í tilkynningu segir: „Á meðan fólk er að tínast í garðinn eða frá kl. 19.40, skapar Birna Eyfjörð, söngkona og píanóleikari, huggulega stemningu með jassskotinni popptónlist í Garðskálanum á flötinni við kaffihúsið LYST.

Að setningarávarpi forseta Íslands loknu stiklar Vilhjálmur B. Bragason kynnir kvöldsins á stóru í dagskrá Akureyrarvöku 2023. Gestir á Rökkurró eru Kammerkór Norðurlands sem flytur nokkur lög, dansararnir Yuliana Palacios og Arna Sif Þorgeirsdóttir sem deila orku, leyndarmálum og upplifunum með sellóleikaranum Auði Evu Jónsdóttur. Einnig leikur hljómsveitin 5 on the floor rómantísk og seiðandi lög sem eiga vel við á Rökkurró. Hljómsveitina skipa Soffía Meldal, Daníel Andri Eggertsson, Sigfús Jónsson, Bjarki Símonarson og Eyþór Alexander.“

Gert er ráð fyrir að dagskránni ljúki um kl. 21.30. Viðburðurinn á Facebook
_ _ _

  • 20.00 – 22.00 – SAMTÍMA. Myndlistarfélagið stendur fyrir sýningu í Mjólkurbúðinni, sal Myndlistarfélagsins

Sýningin ber yfirskriftina SAMTÍMA. Hún „er liður í að kynna félagsmenn og það sem þeir eru að fást við,“ segir í tilkynningu. „SAMTÍMA vísar í list samtímans og frelsi listamannsins til þess að beita ólíkum stíl og tæknibrögðum.“

Föstudagur 25. ágúst kl.  20.00 - 22.00 (opnun)
Laugardagur 26. ágúst kl.  14.00 - 17.00
Sunnudagur 27. ágúst kl. 14.00 - 17.00

Sýningin verður einnig opin 2.-3. september.

Enginn aðgangseyrir. Viðburðurinn á Facebook
_ _ _

Tríó Kristjáns Edelstein lék í LYST á Akureyrarvöku á síðasta ári og endurtekur leikinn annað kvöld. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

  • 21.30 – 22.30 –  Tríó Kristjáns Edelstein heldur tónleika í LYST

Strax eftir setningu Akureyrarvöku í Lystigarðinum mun tríó Kristjáns Edelstein, bæjarlistamanns Akureyrar 2022, spila lifandi tónlist í LYST. Tríóið skipa Kristján Edelstein á gítar, Stefán Ingólfsson á bassa og Halldór G Hauksson á trommur. Enginn aðgangseyrir. Viðburðurinn á Facebook
_ _ _

  • 21.30 – 22.30 – GDRN og Magnús Jóhann í Hofi

„Söngkonan GDRN og píanóleikarinn Magnús Jóhann hafa komið mikið fram undanfarin ár, bæði sem tvíeyki og með hljómsveit. Þann 16. september 2022 gáfu þau út hljómplötuna Tíu íslensk sönglög. Hún hefur að geyma tíu lög sungin af GDRN við meðleik Magnúsar í útsetningum tvíeykisins,“ segir í kynningu.

„Á efnisskrá plötunnar er fjöldi íslenskra tónlistarperlna eins og Rósin, Hvert örstutt spor, Vikivaki og eitt frumsamið lag, Morgunsól. Hljómplatan hefur notið mikilla vinsælda og var ein mest selda plata síðasta árs. Nú liggur leið þeirra norður en á tónleikum þeirra í Hofi hyggjast þau flytja lög plötunnar í bland við aðrar íslenskar tónlistarperlur sem og lög GDRN. Tónleikagestir geta átt von á huggulegum tónleikum og þeirri hugljúfu stemningu er svífur yfir vötnum plötunnar.“

Tónleikarnir verða í Hömrum í Hofi. Húið verður opnað kl. 21.00.  Takmarkaður sætafjöldi. Enginn aðgangseyrirViðburðurinn á Facebook
_ _ _

Draugar hafa hingað til verið á kreiki í Innbænum; myndin er tekin við Nonnahús í fyrra. Nú verður Draugaslóðin á Hamarkotstúni. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

  • 22.00 – 23.30 – Draugaslóð á Hamarkotstúni

„Ný staðsetning með gömlum og nýjum draugum og öðrum verum sem verða á sveimi um Hamarkotstún. Við getum ekki lofað að draugarnir séu allir leikarar en gerum okkar besta að upplifunin verði skemmtileg og jafnframt pínu drungaleg. Ein innganga verður fyrir alla og önnur útganga svo engin verði troðin undir,“ segir í tilkynningu.

„Gæsla verður á staðnum og biðjum við gesti okkar að sýna varkárni og tillitsemi við aðra gesti sem og draugana okkar. Sumir draugar geta verið óhugnalegri en aðrir og sumir mögulega hrekkjóttir en munum við einnig biðja þá að sýna kurteisi.“

Danskólinn Steps verður einnig með dansatriði. Enginn aðgangseyrir. Viðburðurinn á Facebook

Hamarkotstún er skammt norðan gatnamóta Þórunnarstrætis og Þingvallastrætis.
_ _ _

  • 22.00 – 23.00 – HLASkontraBAS oktett

„Oft er sagt um tónlistarverkefni að þau séu óvenjuleg, einstök og án hliðstæðu. Það má svo sannarlega segja um tékkneska oktettinn HLASkontraBAS, það er ólíklegt að það finnist samskonar hljómsveit nokkurs staðar í veröldinni. Oktettinn samanstendur af fjórum söngkonum og fjórum kontrabassaleikurum. Allt er þetta tónlistarfólk í fremsta flokki sem býr og starfar í Prag sem er hjarta tónlistarinnar í Tékklandi,“ segir í tilkynningu.

Tónleikarnir eru í Ketilhúsinu, sem er hluti Listasafnsins á Akureyri. Enginn aðgangseyrir. Nánar um viðburðinn
_ _

  • 22.30 – 23.30 – Deadline - Margmiðlunarverk

Andro Manzoni og Áki Frostason í Blackbox í Menningarhúsinu Hofi. „Deadline er margmiðlunar-sviðsverk eftir Andro Manzoni, flutt af honum sjálfum, og leikstýrt af Áka Frostasyni,“ segir í tilkynningu.  Enginn aðgangseyrir en tekið er við frjálsum framlögum til styrktar Geðhjálp.  

Tekið er fram í tilkynningu að viðburðurinn henti ekki börnum og viðkvæmum einstaklingum. Þá er nefnt að blikkljós í sýningunni geti valdið flogakasti hjá flogaveikum einstklingum.

Nánar um viðburðinn

Viðburðurinn á Facebook