Fara í efni
Akureyrarkirkja

Akureyrarkirkja formlega kennd við Matthías

Ljósmynd: Eyþór Ingi Jónsson

Akureyrarkirkja er nú formlega kennd við þjóðskáldið séra Matthías Jochumsson. Sóknarnefnd kirkjunnar samþykkti á fundi í dag að formlegt heiti sé frá þeirri stundu Akureyrarkirkja – kirkja Matthíasar Jochumssonar.

Ólafur Rúnar Ólafsson, formaður sóknarnefndar, greindi frá ákvörðuninni á Matthíasarvöku, samkomu sem haldin er í dag í kirkjunni og á Sigurhæðum, húsi hjónanna Matthíasar og Guðrúnar Runólfsdóttur, á fæðingardegi þjóðskáldsins. Hann var fæddur 11. nóvember árið 1835, í dag eru því 187 ár frá fæðingu hans.

Í máli Ólafs Rúnars kom fram að málið hefði á undanförnum árum oft komið óformlega til tals innan Akureyrarkirkju og að séra Svavar Alfreð Jónsson, sóknarprestur, hefði lengi ljáð máls á því að honum þætti vert að hefja minningu sr. Matthíasar á loft. Akureyrarkirkja hefði enda frá öndverðu verið tengd minningu skáldsins. Sagði formaðurinn að ákvörðun sóknarnefndar nú í dag hafi verið drifin áfram í virðingar- og þakklætisskyni við störf sr. Svavars fyrir söfnuðinn, en hann skiptir senn um starfsvettvang. Sóknarnefnd hafi viljað koma þessu á laggirnar meðan sr. Svavar væri enn sóknarprestur í Akureyrarkirkju.

Matthías Jochumsson var sóknarprestur á Akureyri frá 1887 til 1900. Hann er eitt þekktasta sálmaskáld þjóðarinnar og er höfundur þjóðsöngs Íslendinga, Lofsöngs. Matthías var fyrsti heiðursborgari Akureyrar, kjörinn 11. nóvember árið 1920, daginn sem hann varð 85 ára. Hann lést aðeins nokkrum dögum síðar, 18. nóvember.