Fara í efni
Akureyrarflugvöllur

Sól, borgarferðir og fótbolti í beinu flugi

Benidorm er vinsæll sólaráfangastaður en Heimsferðir bjóða upp á beint flug frá Akureyri til Alicante í september með gistimöguleikum á Benidorm og Calpe. Mynd: Snæfríður Ingadóttir

Nú þegar farið er að hausta leitar hugur margra út fyrir landsteinana og að þeim möguleikum sem í boði eru varðandi hvernig lengja megi í sumrinu og stytta veturinn. Akureyri.net kynnti sér framboðið næstu mánuðina á beinu flugi frá Akureyri.

 

Fast flug til London, Manchester og Zurich

Í vetur verður boðið upp á reglulegt millilandaflug til Manchester, London og Zurich.

Það er Easyjet sem flýgur til London og Manchester og verður flogið frá byrjun nóvember og út mars. Flogið er á þriðjudögum og laugardögum. 

Á tímabilinu 2. febrúar til 9. mars verður flogið á sunnudögum til og frá Zurich. Það er Verdi Travel sem selur miða í Zurich flugið. 

Þá býður Verdi Travel, sem og fleiri ferðaskrifstofur, upp á alls konar pakka í kringum Easyjet flugið. Aventura er t.d. að auglýsa dvöl í Brighton en 30 mínútna lestarferð er þangað frá Gatwick flugvelli. 

Þá er Verdi Travel t.d  með pakkaferðir fyrir knattspyrnuáhugafólk á Manchester United leik annars vegar og hins vegar á leik með Liverpool á Anfield Road.

Mögulega verður reglulegt flug í boði eftir áramótin til Amsterdam en samkvæmt upplýsingum frá Verdi Travel hefur það enn ekki verið staðfest.

Loks er þess að geta að Akureyri.net og Premierferðir/TA Sport bjóða í vetur upp á ferð í beinu flugi frá Akureyri á knattspyrnuleik með Liverpool á Anfield Road. Flogið verður með easyJet til Manchester. Smellið hér til að sjá nánari upplýsingar.

Þriðjudaga og laugardaga er flogið til London Gatwick í vetur frá Akureyri. Mynd: Unsplash/Charles Postiaux

Sérferðir á heitar slóðir

Fyrir utan áðurnefnd áætlunarflug eru ýmsar sérferðir í boði í vetur og hér fyrir neðan má sjá dæmi um þær:

        • 13. september - Alicante   Alicante þarf vart að kynna fyrir Íslendingum en flogið verður beint þangað þann 13. september og heim aftur þann 20. september. Heimsferðir eru með þetta flug og bjóða gististaði í Calpe og Benidorm.
        • 16. október - Skotland 5 daga fræðsluferð til Aberdeen með Tripical. 
        • 17. október - Marokkó  Ferðaskrifstofan Tripical verður með fimm daga ferð til Marrakech. 
        •  19. október - Tenerife Heimsferðir fljúga beint til Tenerife í október. Ferðin er 10 dagar en dagsetningarnar ættu að freista fjölskyldufólki því haustfrí er í öllum skólum á Akureyri, bæði grunn- og framhaldsskólum hluta af þessum tíma.
        • 23. október - Skotland 5 daga fræðsluferð til Aberdeen með Tripical. 
        • 25. október - Prag Ferðaskrifstofan Aventura býður upp á langa helgi í Prag. Farið út á fimmtudegi og komið heim á sunnudegi.  
        • 1. nóvember - Tenerife 10 daga ferð verður í boði til hinnar ástsælu Tenerife í nóvember á vegum Verdi Travel. Hægt er að velja milli níu gististaða í bókunarvél ferðaskrifstofunnar en starfsfólk ferðaskrifstofunnar getur líka aðstoðað ef aðrir gististaðir eru á óskalistanum.
        • 28. nóvember - Skotland Fjögurra daga aðventuferð til Aberdeen með Tripical. 
        • 27. desember - Egyptaland  Ferðaskrifstofan Kompaníferðir býður upp á 9 daga ferð til Egyptalands í beinu flugi.  Dvalið verður í Hurgada, strandbæ við Rauðahafið. Þetta er í fyrsta sinn sem boðið er upp á beint flug til Egyptalands frá Akureyri.
        • 24. apríl - Prag Í apríl er svo hægt að taka langa helgi í Prag með ferðaskrifstofunni Aventura. Farið er út á fimmtudeginum 24. apríl  og komið heim á sunnudegi. Sumardagurinn fyrsti er þann 24. apríl svo það gæti verið góð hugmynd að byrja sumarið í Prag.

 

  • Ath: Þessi listi er ekki tæmandi og fleiri ferðir gætu bæst við eftir áramótin.

Tenerife þekkja margir Íslendingar er þangað er hægt að sækja bæði sól, mat og skemmtun. Beint flug þangað er komið í sölu bæði í október og nóvember.  Mynd: Snæfríður Ingadóttir.