Lautin athvarf 20 ára (22 ára)
Loksins, loksins tókst okkur að halda upp á 20 ára afmæli Lautarinnar, sem hóf starfsemi 8. desember árið 2000. En vegna Covid þá höfum við ekki getað haldið almennilega upp á árin 20, sem eru nú orðin 22, fyrr en í gær, 8. desember.
Frá upphafi hefur Lautin verið mjög vel sótt og gegnt mikilvægu hlutverki hjá stórum hópi einstaklinga sem glíma við geðraskanir. Í Lautinni er boðið upp á heitan mat í hádeginu, kaffi og margvíslegt félagsstarf. Þarna koma einstaklingar í heimsókn á sínum eigin forsendum sama hvort það er í stutt spjall við vini eða til að taka þátt í þeirri dagskrá sem boðið er upp á hverju sinni. Það sem er í boði hjá okkur er ýmiskonar afþreying eins og spil, spjall, prjónaskapur, sundleikfimi, göngutúrar og að sjálfsögðu góður félagsskapur og góð samvera. Einnig höfum við farið í styttri dagsferðir sem og í ferðarlög til útlanda. Opið er í Lautinni alla virka daga frá 09:00 til 15:00 og svo sjá sjálfboðaliðar um opnum á laugardögum frá 13:00 til 15:00.
Þegar Lautin var opnuð var hún skilgreind sem athvarf fyrir fólk með geðraskanir og var samstarfsverkefni Rauða krossins, Geðverndafélag Akureyrar og Akureyrabæjar. Árið 2019 tók Akureyrarbær yfir rekstur Lautarinnar og hefur frá þeim tíma séð alfarið um reksturinn. En í dag lítum við fyrst og fremst á Lautina sem stað þar fólk getur komið til að rjúfa félagslega einangrun. Lautin er athvarf þar sem allir eru velkomnir til að taka þátt í okkar góða starfi.
Á undaförnum misserum hafa ýmis fyrirtæki í okkar nærumhverfi styrkt okkur og aðstoðað við að taka þátt í og vera meira sýnileg í okkar samfélagi. Þetta eru fyrirtæki eins og Skógarböðin, Baccalá Bar/Ektafiskur á Hauganesi, sem bauð okkur í hádegismat, Jón Sprettur sem hefur reglulega boðið okkur upp á pizzuveislur og Lemon, sem hefur reglulega boðið okkur upp á samlokur og djúsa. Axelsbakarí, Greifinn, Kjarnafæði og Kvikkí hafa einnig lagt okkur lið með matargjöfum. Árlega höfum við farið á jólahlaðborð hjá Hótel KEA/Múlaberg sem hefur alltaf farið framúr öllum vonum, en ekki nóg með það þá buðu þau okkur að vera með jólasmakk í húsnæði Lautarinnar fyrir þá gesti sem hafa ekki tök á því að fara á jólahlaðborðið sjálft. Jólasmakkið var alls ekki síðra en jólahlaðborðið og voru gestir okkur hæstánægðir með það.
Á afmælinu okkar í gær komu fulltrúar frá Lionsklúbbnum Hæng með peningagjöf til okkar sem mun koma að góðum notum við að niðurgreiða ýmsa uppákomur sem við sækjum. Einnig mætti tónlistamaðurinn Rúnar Eff og gladdi okkur með söng og spilamennsku. Þá færði Bakaríið við Brúna okkur frábæra afmælisköku sem sló heldur betur í gegn.
Við, sem komum að rekstri Lautarinnar, erum stolt af okkar starfi og vitum hve miklivæg hún er í daglegu lífi fjölmargra bæjarbúa. Það er virkilega leitt að sjá hvernig Reykjavíkurborg forgangsraðar í sínum sparnaði þar sem farin var sú leið að leggja niður Vin athvarf sem er sambærilegt og Lautin. Þarna er verið að ráðast á hóp sem getur illa varið sig og þetta mun leið til þess að þeir einstaklingar sem sótt hafa Vin muni einangrast sem eykur á þeirra vanlíðan og ýtir undir frekari veikindi.
Akureyrarbær getur verið stoltur af því að standa vörð um rekstur Lautarinnar og tryggja þannig velferð þeirra sem þurfa slíkt úrræði eins og Lautin býður upp á.
Ólafur Torfason er forstöðumaður Lautarinnar