Fara í efni
Umræðan

Eitt lítið Naustahverfi á Tjaldsvæðisreitinn?

Viljum við troða eins og einu litlu Naustahverfi á Tjaldsvæðisreitinn við Þórunnarstræti?

Nú fer hver að verða síðastur að láta heyra í sér því frestur til að koma á framfæri ábendingum við skipulagstillöguna er til 27. febrúar. Okkur er sýnd einhver glamúrmynd af þessu svæði en raunin er önnur. Þetta verður eins og ofvaxin gorkúla í annars gömlu grónu hverfi! Gamli húsmæðraskólinn verður eins og peð innan um þessi hús.

  • Byggðin vestan við túnið, sem er næstum tvöfalt stærri flötur upp að Mýrarvegi, ber um 105 íbúðir svo að í raun og rétti hefði aldrei átt að leyfa byggingu á fleiri en um 60 íbúðum á túninu!
  • Blönduð og lágreist byggð hvað? Þetta eru meira og minna 4 hæða blokkir sem þau leyfa sér að kalla 3 og hálfa hæð! Innan hverrar blokkar er svo auðvitað hægt að hrókera með fermetrafjölda og íbúðastærð (herbergi) og þarna er talað um ódýrar íbúðir og bíllausan lífstíl en svo á að sundurgrafa meira og minna allt svæðið fyrir bílakjallara. Eitthvað hlýtur það að bætast á fermetraverð íbúðar og hingað til hefur dugað að gera bílakjallara undir hverri húseiningu eins og heppnaðist í 5 hæða blokkunum (15 íbúðir í hverri blokk) að Mýrarvegi 111 - 117.

Fyrir hverja á þessi gígantíska stærð af bílakjöllurum að vera? Á vörulosun fyrir verslanir og þjónustu að fara fram þarna? Er verið að hugsa um umhverfið og hvert rennur þá yfirborðsvatn hverfisins? Það þarf að hugsa um hverfið ofan við Byggðaveg líka og eins þegar búið verður að rífa upp öll þau tré á svæðinu sem hjálpað hafa við vatnsupptöku jarðarinnar. Þetta svæði hefur líka verið notað til að létta á og koma fyrir snjómokstri úr hverfum ofan og sunnan við túnið þannig að þessi áætlaði byggingarfjöldi eykur bara á það vesen að moka göturnar í kring. Nokkuð ljóst líka að ekki verður hægt að planta miklum gróðri ofan á þau þök bílastæðakjallaranna sem verða þarna á milli blokkanna! Nokkrar „tjarnir“ eru áætlaðar þarna, á stærð við 1-2 parkeraða bíla, en samkvæmt fræðsluefni um slysavarnir barna undir 5 ára aldri er það óráðlegt í íbúðahverfi.

Í kynningu Akureyrarbæjar af deiliskipulaginu í Dagskránni stóð „nútímalegt“ hverfi sem „fellur vel að“ núverandi byggð og umhverfi! Þetta nútímalega byggingarlag sem stundað er í dag og við sjáum mikið í Naustahverfi hefur engin eðlileg lóðamörk og allar skipulagslínur núverandi byggðar eru þverbrotnar. Byggingar eru of nálægt götum, persónulegt rými íbúa lítið sem ekkert og allt of háar blokkir sem gnæfa yfir núverandi byggð. Sérstaklega áberandi þegar keyrt er upp Hrafnagilsstræti en þar er garðflötur meiri hjá húsunum norðan megin götunnar og Byggðavegsbúðin flúktir akkúrat við þá húsalínu og þar ættu nýbyggingar ekki að fara út fyrir þau mörk.

Áætlaðar byggingar við Þórunnarstræti fara líka út fyrir öll mörk og þrengja að ásýnd og svo er sérstaklega stutt á milli gamla Húsmæðraskólans í áætlaða byggingu þar suðaustan við! Sú áætlaða bygging krefst líka niðurrifs á gamla húsinu, Þórunnarstræti 97 sem verður 100 ára á næsta ári og sómir sér ágætlega þarna og hefur fallega starfsemi í dag. Það færi betur á að halda þessum reit grænum með gamla húsinu sem setur svip á hverfið og leyfa strætisvagnastoppistöðinni að vera þar áfram (sem er eitthvað að rokka til á skipulagsmyndum).

Allar götur umhverfis túnreitinn eru svo þrengdar og sýnu verst þó Þórunnarstræti! Gestabílastæði og gámasvæði eru áætluð þarna túnmegin og þá missa íbúar Byggðavegs og Hrafnagilsstrætis, þar að liggjandi hinu megin götu, þau aukastæði sem hafa verið mikið notuð!Við Þórunnarstræti á svo aukalega að breikka gangstétt eða gera hjólastíg þannig að gatan verður um helmingi þrengri á breiddina miðað við það sem hún er í dag. Þar er sérstaklega mikil umferð, aðalæðin út í Naustahverfi, umferð í sund og íþróttir, sérstaklega stórir vinnustaðir þarna í grend, strætivagnaleiðir og mikill sjúkrabílaakstur sem þarf svo eins og gefur að skilja stundum forgangsakstur sem er þá því erfiðaðri þegar búið er að þrengja götuna um helming!

Ég sé heldur ekki að aðgengi fatlaðra gesta hafi verið mikið tekið með í reikninginn því þar þarf oft að huga að stærri farartækjum líka.60+ fólkinu er svo áætlað að vera í blokkunum við þetta umferðarhorn Þórunnarstrætis og Hrafnagilstrætis! Þar færi betur á að hafa grænt horn heldur en háreistar byggingar alveg ofan í götu.

Fáum umhverfissálfræðing til að taka þetta út og er búið að ræða við „mannskap á plani“, sjúkraflutningamenn, slökkvilið eða lögreglu, sorphirðuna, ökumenn strætisvagna eða þau sem sjá um mokstur og þrif á götum? Þau sem virkilega nota þetta svæði alla daga ættu að láta heyra í sér. Þarna keyra margir framhjá og njóta þess líka (eins og er) og þarna er líka mikil útivist manna og almenn umferð gangandi vegfarenda. Þetta er gönguleiðin frá efri brekkum og ofan í bæ og alger vin í annars malbikuðum heimi bæjarins.

Eiga lóðagróðahagsmunir að sitja fyrir frekar en eðlileg vellíðan manna í rýminu!

Hrafnagilsstræti er líka kósý leið upp úr miðbænum og mikið um ferðamenn. Þar ætti ekki að raska við þá tengingu og ímynd Akureyrar því þetta kemur ekki bara okkur Akureyringum við heldur líka þeim sem sækja okkur heim og eins framtíðar ásjónu Akureyrar. Megi Akureyri vera áfram fallegur bær þar sem gott er að koma og vera og tilheyra.

Þórdís Björg Valdimarsdóttir er textíllistamaður

Alþjóðaflugvöllurinn á Akureyri: Hvar er Icelandair?

Birgir Orri Ásgrímsson skrifar
26. febrúar 2025 | kl. 11:45

Værum hluti af svari ESB innan þess

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
23. febrúar 2025 | kl. 11:00

Útvistun kjarasamninga

Björn Valur Gíslason skrifar
22. febrúar 2025 | kl. 14:30

Töfrar tónlistar

Þórarinn Stefánsson skrifar
21. febrúar 2025 | kl. 10:30

Verði stórveldi með eigin her

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar
20. febrúar 2025 | kl. 10:00

Yfirgripsmikið þekkingarleysi

Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson skrifar
18. febrúar 2025 | kl. 22:00