Fara í efni
Skip dagsins

Kuldatíð í kortunum – förum vel með vatnið

Norðurorka vekur athygli á þeirri kuldatíð sem virðist vera í kortunum á næstunni með miklu frosti sem spáð er eftir helgi. Kuldatíðin eykur álagið á hitaveitukerfið, en fyrirtækið hefur áður bent á að staða þess sé viðkvæm. Notendur eru því hvattir til að huga að hitaveitunni og gera það sem í þeirra valdi stendur til að fara vel með heita vatnið og veita nokkur hagnýt ráð í þeim tilgangi.

Það er ekki að ástæðulausu sem Norðurorka minnir á þetta því á næstu dögum er von á allt að 15 gráðu frosti eins og sjá má af skjáskotinu hér að neðans em sýnir sjálfvirka spá fyrir Akureyri eins og hún birtist á veðurvefnum blika.is.

Fram hefur komið að notkun á heitu vatni hefur aukist hratt á undanförnum árum og hefur það verið og er áskorun fyrir hitaveituna að anna aukinni eftirspurn. Í frétt Norðurorku um stöðu hitaveitunnar segir meðal annars:

„Jarðhitasvæðið á Hjalteyri sem verið hefur stærsta vinnslusvæði Norðurorku síðustu tuttugu ár er nú komið að þolmörkum og vinnslusvæðið á Laugalandi í Eyjafjarðarsveit er ekki í fullri virkni. Þar hefur ein af þremur holum, sem þjóna stóru svæði í austanverðum Eyjafirði, ekki verið nýtanleg síðustu misseri með tilheyrandi áhrif á afhendingaröryggi. Þannig að þó að hitaveita Norðurorku ráði við álagið sem stendur þá má ekki miklu út af bregða svo grípa þurfi til frekari aðgerða í samræmi við viðbragðsáætlun hitaveitunnar.“

Öll getum við eitthvað, en ekkert okkar allt

Norðurorka hefur nú þegar óskað eftir því beint við stórnotendur, eins og til dæmis íþróttamannvirki, að þar verði notkun á heitu vatni minnkuð eins og unnt er. Í þessum efnum geta þó allir notendur gert eitthvað þó enginn geti gert allt. „Ef allir bæta sig aðeins í að fara skynsamlega með heita vatnið, þá næst árangur og þess vegna hvetjum við viðskiptavini okkar til að huga að því hvernig, og í hvað, heita vatnið er notað,“ segir ennig í frétt Norðurorku. 

Þar eru einnig eftirfarandi ráð til notenda:

  • Höldum varmanum inni með því að hafa glugga ekki opna að óþörfu. Sérstaklega ekki þá glugga sem eru nálægt ofnum því þá sleppur varminn auðveldlega út. Ef lofta þarf út er hentugra að nota annan glugga og hafa hann aðeins opinn í skamma stund í einu.
  • Stillum ofna á óskhita hvers herbergis. Ofn ætti að vera heitastur efst og kólna eftir því sem neðar dregur. Neðst ætti ofninn ekki að vera heitari en líkamshiti þinn.
  • Hugum sérstaklega vel að stýringum á upphituðum stéttum og bílaplönum.
    Snjóbræðsla getur verið mjög orkufrek (og jafnvel notað meira en upphitun hússins). Fáum fagfólk til að yfirfara kerfið reglulega því með nákvæmari stýringu er hægt að draga úr notkun og lækka orkureikninginn í leiðinni.
  • Gefum heita pottinum frí á köldustu dögunum. Förum frekar í sturtu.

  • Nánari upplýsingar um ábyrga notkun á heitu vatni

„Höfum það huggulegt um hátíðirnar og njótum þeirra lífsgæða sem heita vatnið færir okkur á skynsaman máta þannig að ekki komi til alvarlegs heitavatnsskorts þegar kuldatíð ríkir,“ eru lokaorðin í frétt Norðuorku.