Fara í efni
Skip dagsins

Hermannsúr frá 1940 rataði í sögutíma í MA

Vasaúrið sem um ræðir. Upphaflega merkt með upphafsstöfum eigandands, breska hermannsins Edwards J. Palmer, en síðar með upphafsstöfum sonar sjómanns sem vann úrið af Palmer í spilum á bar í Reykjavík 1940. Myndin er fengin af Facebook-síðu MA.

Á Facebook-síðu Menntaskólans á Akureyri birtist skemmtileg saga í gærkvöld. Sagt er frá því að nemandi í 2. bekk hafi haft með sér skemmtilegan ættargrip í kennslustund og var hann hluti af kynningu nemandans í sögu. Ættargripurinn er „sérdeilis fínn og sagan á bak við hann er allrar athygli verð,“ eins og það er orðað í pistlinum. Úrið, sem er af tegundinni AeroWatch, vann langafi þessa nemanda í MA í spilum við breska hermenn á bar í Reykjavík 1940. Lítið er vitað um eiganda þess fyrir þetta spilakvöld annað en nafn hans, en meðal þeirra sem sátu við spilaborðið var yfirmaður alls herafla Bandamanna á Íslandi á þeim tíma.

Fagurlega skreytt gullúrið sem langafa nemandans í MA áskotnaðist í spilum 1940. Myndin er fengin af Facebook-síðu MA.

Nemandinn er ekki nafngreindur í frásögninni, aðeins nefndur Jón, en hann kom með fallega skreytt vasaúr úr gulli sem hann er eigandi að. Úrið fékk hann í fermingargjöf frá afa sínum og nafna. Grípum niður í frásögnina af ættargripnum og sögu hans:

Forsagan er sú að 25 ára gamall sjómaður norður í landi þurfti að landa afla sínum í Reykjavík í lok árs 1940. Hann og skipsfélagi hans notuðu tækifærið eitt kvöldið og röltu inn á bar í Borginni sem var gjarnan sóttur af breskum hermönnum. Áður en þeir vissu af voru þeir komnir í félagsskap með sex öðrum herramönnum við eitt borðið og farnir að spila upp á peninga og persónulegar eigur. Einn sexmenninganna var Íslendingur, hinir fimm voru setuliðsmenn. Einn þeirra var Edward J. Palmer.
 
Sjómaðurinn að norðan hafði heppnina með sér þetta tiltekna kvöld. Fór svo að hann vann forláta vasaúr af herra Palmer. Hinn heppni sem hér um ræðir var langafi Jóns. Upphafsstafir eiganda úrsins, EJP voru grafnir á úrið þegar kom að pókerspilinu örlagaríka en síðar lét lukkulegi sjómaðurinn fjarlægja stafina og grafa upphafsstafi sonar síns áður en sá fékk úrið að gjöf. Þaðan komst það í hendur núverandi eiganda eins og áður var getið.
 
Ekki verður sagt skilið við söguna af gullvasaúrinu sem fór úr einum vasa í annan í reykmettuðu bakherbergi á búllu í Reykjavík síðla árs 1940 án þess að minnast breska hershöfðingjans sem sat við borðið og spilaði með. Sá hét Henry Osborne Curtis. Hann var æðsti yfirmaður herliðs bandamanna á Íslandi frá upphafi hersetu vorið 1940 og fram á vor 1942 þegar bandaríski hershöfðinginn Charles H. Bonesteel leysti hann af. Henry O. Curtis barðist í Frakklandi í fyrri heimsstyrjöld og stýrði breskum hersveitum í Dunkirk áður en hann kom til Íslands.
 
Saga Henry O. Curtis er vel og kirfilega skráð. Hið sama á ekki við um Edward J. Palmer. Við vitum engin deili á honum önnur en þau að hann átti eitt sinn vasaúr sem nú er í eigu nemanda við Menntaskólann á Akureyri. Já tíminn er skrítinn fugl.
 


Á meðal þeirra sem sátu við spilaborðið á barnum í Reykjavík 1940 var Henry Osborne Curtis, þáverandi yfirhershöfðingi setuliðs Bandamanna á Íslandi. Á þessari blaðaljósmynd er hann (til vinstri) ásamt eftirmanni sínum, Charles H. Bonesteel þegar sá síðarnefndi tók við stjórnartaumunum hér á landi.