Hagræn áhrif allt að 100 milljónum á dag?
SKEMMTIFERÐASKIPIN - V
Í fyrri greinum hefur verið fjallað um umhverfismál í tengslum við komur skemmtiferðaskipa til landsins. Eins og fram kom fyrr í umfjölluninni er mikil áhersla lögð á að takmarka mengun og miklum fjármunum varið í að bæta umhverfisþáttinn og stór skref væntanleg í þeim málum með nýjum skipum á næstu árum. En hvað með efnahagslegu hliðina, ávinninginn, atvinnusköpunina og tækifærin sem verða til í landi?
Skilja ekkert eftir sig eða fara annað?
Því er iðulega haldið fram að skemmtiferðaskip og farþegar þeirra skilji ekkert eftir sig í landi, fólk gangi um, kaupi hvorki vörur né þjónustu, neyti allra máltíða um borð og því sé koma skipanna og heimsóknir fólks í land meira og minna átroðningur og óþægindi fyrir heimafólk – eða jafnvel innlent ferðafólk – sem vilji njóta þess til dæmis að sitja á kaffihúsi í miðbænum. Stundum heyrist að „ekki sé þverfótað fyrir ferðmönnum“. En er það ekki bara allt í lagi? Viljum við ekki fá fólk í bæinn? Viljum við ekki að fólk hafi atvinnu af því að þjónusta ferðamenn?
Annar angi af þessari gagnrýni er líka að farþegum sé smalað upp í rútur og ekið burt úr bænum og því sé enginn ávinningur fyrir þjónustufyrirtæki í bænum af komu þeirra. Rúturnar, bílstjórarnir og leiðsögumennirnir eru samt ekki ókeypis. Fólk vinnur við að fara með farþega skemmtiferðaskipa á vinsæla ferðamannastaði. Í nokkurra klukkustunda skoðunarferð með rútum þurfa gestirnir að nærast og eru þá heilu hóparnir bókaðir í mat á hótelum eða veitingastöðum á því svæði sem ferðast er um. Vikið verður að því síðar.
En varla getur hvort tveggja verið rétt í þessari gagnrýni. Ef farþegarnir eru meira og minna fluttir úr bænum eru þeir varla á sama tíma að troða á þolinmæði landans í miðbænum.
Norwegian Prima hefur komið nokkrum sinnum til Akureyrar í sumar og er reyndar hér við bryggju í dag. Myndin var tekin fyrr í sumar. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson
Þjóðhagslegur ávinningur
Niðurstöður könnunar GP Wild (International) and Business Research & Economics Advisors sem Cruise Iceland lét gera árið 2018 kom fram að meðalneysla hvers viðkomuferðamanns hafi verið um 145 evrur í hverri höfn og sögðust 92% farþega hafa farið í land á viðkomustöðum á Íslandi. Sömu sögu er að segja af um 40% áhafnarmeðlima. Miðað við þetta er um beinan ávinning upp á 8,8 milljarða króna árið 2018 og áætlað að með óbeinum áhrifum megi áætla þjóðhagslegan ávinning vera um 16,4 milljarða króna á verðlagi 2018.
Miðað við þessar tölulegu upplýsingar var áætlað að 920 heilsársstörf hafi skapast árið 2018 vegna skemmtiferðaskipa og að laun og launatengd gjöld hafi numið 4,5 milljörðum króna.
„Farsælt sumar hjá Akureyrarhöfn“
Það leikur enginn vafi á að fólk, fyrirtæki og stofnanir sem hafa af því atvinnu og tekjur að þjónusta skemmtiferðaskipin og farþega þeirra hafa verulegan fjárhagslegan ávinning af komum þeirra enda er Pétur hafnarstjóri ánægður með þróunina eins og fram kemur í áðurnefndum pistli.
„Þar sem hin fagra Akureyri laugar sig í dýrðinni af enn einu merkilegu sumri er þróun ferðaþjónustunnar á svæðinu jákvæð, ekki síst fyrir þær sakir að vel hefur gengið með komur skemmtiferðaskipa í sumar á sama tíma og jákvæð teikn eru á lofti í flugmálum þrátt fyrir að áform Niceair hafi því miður runnið út í sandinn.“ Hann segir Akureyringa og nærsveitamenn hafa orðið vitni að iðandi ferðamannatímabili sem færi margvíslegan efnahagslegan og menningarlegan ávinning.
100 milljónir á dag þegar best lætur?
Pétur bendir á að koma skemmtiferðaskipa til Akureyrar í sumar hafi án efa eflt atvinnulíf á staðnum. Heimsóknir ferðamanna hafi skapað fjölmörg tækifæri fyrir staðbundin fyrirtæki á borð við veitingastaði, ferðaskipuleggjendur, söfn, minjagripaverslanir og fleiri. Þessi fyrirtæki hafi blómstrað og skapi umtalsverðar tekjur og atvinnutækifæri fyrir samfélagið.
„Framlag skemmtiferðaskipaiðnaðarins til atvinnulífs á svæðinu verður ekki ofmetið því það hefur hjálpað til við að blása lífi í ýmsar greinar og styðja við afkomu ótal einstaklinga á Akureyri sem stunda rekstur sem annars ætti í vök að verjast. Að meðaltali er áætlað að hver ferðamaður af skemmtiferðaskipi eyði um 100 þúsund krónum í landi á venjulegri sjö daga siglingu. Við þetta bætist þjónusta við skipin og áhafnarmeðlimi sem einnig heimsækja áfangastaðina. Gróft áætlað má telja að hagræn áhrif af daglegum skipakomum, bara fyrir Akureyri og nágrenni, geti numið frá 100 milljónum króna á dag þegar best lætur. Öllum ætti að vera ljóst hversu miklu máli þetta skiptir fyrir bæjarfélagið því meirihluti þessara ferðamanna er ágætlega efnaður,“ skrifar Pétur.
- Á MÁNUDAG – Skipin: Ávinningur eða átroðningur
- Á ÞRIÐJUDAG – Ýta undir komur umhverfisvænni skipa
- Á MIÐVIKUDAG – Villandi umfjöllun um útblástur?
- Í GÆR – Einstakt tækifæri til umburðarlyndis?
- Á MORGUN – Fyrirtæki blómstra, fólkið með atvinnu