Fara í efni
Pistlar

Hagkaupssloppur

AKUREYRI ÆSKU MINNAR – 8

Ég þekki hana varla í öðrum fatnaði. Ekki hvunndags, svo ég muni eftir. En það er heldur ekki til að eyðileggja minninguna að múnderingin fór ömmu minni afskaplega vel. Og féll þétt að þybbnum líkamanum, lágvöxnum og lítið eitt keyrðum í öxlum, líkast því sem tíminn hefði togað hana niður.

En hún hafði sumsé eignast Hagkaupsslopp. Og varla farið úr honum upp frá því, nema eitthvað mikið stæði til í familíunni uppi á Syðri-Brekkunni.

Slopparnir höfðu komið eins og áhlaup inn í íslenska húsmæðramenningu á seinni hluta sjöunda áratugarins, áþekkt árás að utan sem felldi peysufötin af stalli og þaðan af mildari kjóla sem voru úr ull og besta falli draloni, en nú var nælon komið til sögunnar, slitsterkara og teygjanlegra en önnur tau í tilverunni, en líka langtum meðfærilegra í þrifum en minna móðins metravara úr vefnaðarvörubúðum bæjarins. Og þornaði undrafljótt, líkast galdri.

Ég man hvað hún sagði þetta vera þægilega spjör, en sloppurinn væri svo hentugur til heimilisstarfa, léttur og loftaði vel. Hann kæmi líka í staðinn fyrir svuntuna sem hún hefði borið utan á sér alla sína búskapartíð í Gilsbakkavegi, en sá væri munurinn á þessari notadrjúgu sunnanvöru og sveipunni gömlu að það væri sama hvað hún klíndi miklu af matseldinni í sloppinn, ef hann hrinti ekki bara óhreinindinum frá sér þá væri ekkert mál að strjúka þau af með votum klúti. Hún hefði aldrei kynnst öðrum eins skítfríum fatnaði.

Svo þetta er nú dælt, drengurinn minn.

Og þannig birtist hún mér alltaf í síðari tíma draumum, ef ekki í Hagkaupsflíkinni að hafa til mat og taka til eftir hann, þá að hvíla sig í hægindastólnum með krosslagðar hendur yfir köflóttan sloppinn.

Sigmundur Ernir er fæddur á Akureyri 1961. Á komandi misserum munu birtast vikulegir pistlar hans á akureyri.net um æskuárin í heimabænum á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar.

  • Í NÆSTU VIKU: FALSKAR TENNUR

Hús dagsins: Norðurgata 6

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
26. desember 2024 | kl. 14:00

Furðutré í eyðimörk eða risagulrót á hvolfi?

Sigurður Arnarson skrifar
25. desember 2024 | kl. 11:30

Hið góða

Pétur Halldórsson skrifar
24. desember 2024 | kl. 14:00

Danska

Sigmundur Ernir Rúnarsson skrifar
23. desember 2024 | kl. 11:30

Jól í Eyrarvegi 35

Jóhann Árelíuz skrifar
22. desember 2024 | kl. 16:00

Einmana

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
20. desember 2024 | kl. 10:00