Fara í efni
Menning

Allinn: „Allir leika á allt“ sjö daga í viku

Atlantic kvartettinn og söngvararnir tveir í Alþýðhúsinu sumarið 1959, ári eftir stofnun hljómsveitarinnar. Frá vinstri: Ingimar Eydal, Finnur Eydal, Edwin Kaaber, Sveinn Óli Jónsson, Óðinn Valdimarsson og Helena Eyjólfsdóttir.

TÓNDÆMI – 21

Tónlist hefur verið í hávegum höfð á Akureyri allt frá síðari hluta 19. aldar og stendur í miklum blóma nú sem endranær. Akureyri.net mun næstu misseri rifja upp eitt og annað úr tónlistarsögu bæjarins í vikulegum pistlum. Þeir birtast alla miðvikudaga._ _ _

Bræðurnir Ingimar og Finnur Eydal stofnuðu Atlantic kvartettinn árið 1958 ásamt Edwin Kaaber og Sveini Óla Jónssyni. Hljómsveitin var ráðin til þess að leika fyrir dansi um sumarið í Alþýðuhúsinu á Akureyri – Allanum við Gránufélagsgötu, húsi sem jafnað var við jörðu fyrir nokkrum misserum.

Áður en sumarvertíðin hófst voru ráðnir söngvarar í hljómsveitina; Óðinn Valdimarsson, sem þegar var farinn að vekja athygli sem dægurlagasöngvari, og Helena Eyjólfsdóttir, 16 ára mjög efnileg söngkona í Reykjavík. Finnur lék einkum á klarinettu og saxófón, Ingimar á hvers kyns hljómborðshljóðfæri, Edwin var gítarleikari og Sveinn Óli trommuleikari.

Leikur á aðra forstjóra

Atlantic kvartettinn starfaði fjögur sumur í Allanum en hin sögufræga Hljómsveit Ingimars Eydal var síðan stofnuð 1962. Meira um hana síðar. 

Sumarið 1960 lék Atlantic í Allanum öll kvöld vikunnar, eins og tíðkaðist árin á undan, en þá hafði Örn Ármannsson leist Edwin Kaaber af og Gunnar Reynir Sveinsson víbrafónleikari bæst í hópinn og því um kvintett að ræða. Óðinn var ekki með hljómsveitinni þetta sumar; hann söng þá með KK sextett í Reykjavík en sneri aftur í Atlantic sumarið eftir.

Svavar Gests hélt úti þættinum LÉTTIR TÓNAR í dagblaðinu Tímanum. Greinin um Atlantic birtist í blaðinu 30. júlí 1960.

Hljómsveitin þótti sérlega góð og Svavar Gests, tónlistarmaður og útgefandi hældi henni á hvert reipi í eftirminnilegri grein sem hann skrifaði í dagblaðið Tímann þar sem hann hélt úti þætti sem kallaðist Léttir tónar.

Greinina kallaði Svavar Allir leika á allt, og þar benti hann á að mannskapurinn skiptist á að leika á flest hljóðfærin. Finnur væri jafnvígur á klarinett, baritón saxófón, trommur og kontrabassa, Ingimar léki á píanó og harmoniku, Örn spilaði á gítar og bassa og Gunnar Reynir á víbrafón og gripi í trommurnar. Þá sagði hann söngkonuna Helena leika á hristu og ætti líka til að spila á trommur á meðan Sveinn Óli gripi í kontrabassann. Allir lékju sem sagt á (nánast) allt, „og forstjóri Alþýðuhússins hefur leikið á forstjóra allra annarra samkomu húsa, því hann einn hefur Atlantic-kvintettinn samningsbundinn, sem er orsökin fyrir því að Alþýðuhúsið á Akureyri er fullt sjö kvöld vikunnar.“

Svavar sagði einnig í greininni: „Ég hafði ekki hlustað nema á fáein lög þegar ég gerði mér grein fyrir, að þarna var á ferðinni hljómsveit, sem líklega mundi setja allt á annan endann ef hún léki í Reykjavík.“