Fara í efni
Fréttir

Vélfag smíðar búnað í nýjan togara DFFU

Ragnar Guðmundsson, sölustjóri Vélfags, og Baldvin Þorsteinsson, forstjóri DFFU, handsala samning um smíði búnaðar í nýjan togara DFFU, Berlin. Myndin er af Facebook-síðu Vélfags.

Vélfag ehf. mun framleiða hluta af vinnslubúnaði í nýjan togara, Berlin, sem er í smíðum fyrir dótturfyrirtæki Samherja, Deutsche Fischfang-Union GmbH & Co. (DFFU). Ragnar Guðmundsson, sölustjóri Vélfags, og Baldvin Þorsteinsson, forstjóri DFFU, handsöluðu samning þar að lútandi á alþjóðlegu sjávarútvegssýningunni sem haldin var í Barcelona á Spáni í lok apríl.

Samkvæmt samningnum mun Vélfag sjá um þann hluta búnaðarins sem snýr að hausun, flökun og roðdrætti um borð í skipinu. Búnaðurinn á að vera klár til afhendingar síðla sumars. Að sögn Ragnars er hér um afar hagstæðan samning fyrir báða aðila. „Þetta er enn ein viðurkenning á því hversu vel vélarnar frá Vélfagi reynast um borð í skipum. Sala á vélum frá Vélfagi hefur gengið afar vel það sem af er ári og er pöntunarbókin orðin þétt út árið,“ segir Ragnar. Hann nefnir einnig að um 70% af öllum bolfiski sem landað er af flakatogurum við Ísland séu unnin í vélum frá Vélfagi.

Vélfag er tæknifyrirtæki sem sérhæfir sig í framleiðslu búnaðar og tækja til fiskvinnslu og hefur þjónustað fyrirtæki um allan heim undanfarna tæpa þrjá áratugi. Félagið er með aðalskrifstofu á Akureyri, en framleiðslu- og þjónustustöð í Ólafsfirði. Fyrirtækið var upphaflega stofnað af hjónunum Bjarma Sigurgarðarssyni og Ólöfu Ýr Lárusdóttur í Ólafsfirði. Hjá fyrirtækinu starfa nú um 35 manns og hefur verið mikill vöxtur í starfseminni undanfarið, með fjárfestingum í tækjum sem hjálpa framleiðsluhlutanum, eflingu þjónustudeildar og fleiru sem eru hluti af góðum vexti félagsins.

Skipið hannað og smíðað í Noregi

Það er norska stórfyrirtækið VARD sem sér um hönnun og smíði skipsins samkvæmt samningi VARD og DFFU, en sá samningur er upp á 500 milljónir norskra króna, eða tæpa 6,4 milljarða íslenskra króna. Nýi togarinn fær nafnið Berlin og kemur í stað Baldvins NC. Hönnun og smíði togarans tekur mið af því að hann standist ýtrustu kröfur um gæði hráefnisins, skilvirkni og umhverfisvænar veiðar, að því er fram kemur í tilkynningu DFFU og VARD um smíði togarans. Vonast er til að nýja skipið verði klárt og komið í rekstur á fyrsta fjórðungi ársins 2024. Berlin verður 84 metrar að lengd. Vistarverur verða fyrir 34 manns um borð.

VARD er alþjóðlegt fyrirtæki í hönnun og smíði sérhæfðra skipa með starfsstöðvar í Evrópu, Norður- og Suður-Ameríku og Asíu. Hjá fyrirtækinu starfa yfir 8.000 manns um allan heim, en smíði skipanna fer fram á heimaslóðum í Noregi sem og í Rúmeníu, Brasilíu og Víetnam. Höfuðstöðvar fyrirtækisins eru í Álasundi í Noregi.