Ummælum Jónatans vísað til aganefndar HSÍ?
Ummæli sem Jónatan Þór Magnússon þjálfari KA lét sér um munn fara í samtali við RÚV eftir tap liðsins fyrir Aftureldingu í átta liða úrslitum bikarkeppninnar í handbolta í fyrrakvöld eru komin inn á borð framkvæmdastjóra HSÍ. þetta fékk handbolti.is staðfest í morgun. Metið verði hvort ástæða sé til að vísa þeim til aganefndar á þeim forsendum að þau séu óíþróttamannsleg og eða skaði ímynd íþróttarinnar.
Jónatan var ómyrkur í máli og gagnrýndi annan dómarann harðlega, án þess að nafngreina hann.
„Það eru menn sem dæma sem þurfa að vera í sviðsljósinu og stela bara þrumunni. Fyrir mér er þetta maður sem langar að eiga sviðið, þannig upplifi ég það. Í staðinn fyrir að leyfa leiknum að njóta sín, og láta leikmennina vera af því það eru þeir sem eru að spila,“ sagði Jónatan Þór m.a. en heyra má allt viðtalið á vef RÚV með því að smella hér.