Fara í efni
Fréttir

Um 200 milljónir í endurbætur

Kirkjutröppurnar þarfnast viðgerðar. Mynd: HarIngo
Áætlað er að kostnaður við endurbætur á kirkjutröppunum og tengd verkefni, sem eru áningarstaður í brekkunni, stígur að Sigurhæðum, handrið á brúninni við bílastæði í Kaupvangsstræti og fleira verði um 200 milljónir króna, að sögn Andra Teitssonar, formanns umhverfis- og mannvirkjaráðs Akureyrarbæjar. 
 

Umhverfis- og mannvirkjaráð ákvað á dögunum að ganga til samninga við Lækjarsel ehf. um viðgerð á kirkjutröppunum við Akureyrarkirkju. Útboðið var auglýst sameiginlega af umhverfis- og mannvirkjasviði Akureyrarbæjar og Regin atvinnuhúsnæði ehf., en Reginn er eigandi fasteignar Hótels KEA og gömlu náðhúsanna, sem félagið keypti í fyrravor eins og fram kom í frétt okkar þá - Gamla náðhúsið hluti fasteignasafns Regins | akureyri.net

Samkvæmt útboði á framkvæmdatími að vera frá 27. apríl til 15. október og felst framkvæmdin meðal annars í eftirtöldum verkþáttum:  

  • Endurnýjun á kirkjutröppunum
  • Lagfæring á þaki undir neðri hluta trappna (gamla náðhúsið)
  • Uppgröftur og fyllingar
  • Frárennslis-, snjóbræðslu- og raflagnir
  • Smíði og uppsetning grindverks
  • Jarðvegsfrágangur með þökulögn


Kostnaðartölur fyrir verkefnið taka til endurbóta á kirkjutröppunum og tengdra verkefna, þar á meðal er áningarstaður í brekkunni og stígur að Sigurhæðum. Mynd: HarIngo

Vegna bilunar var slökkt á snjóbræðslukerfinu í kirkjutröppunum í janúar 2021, en með framkvæmdunum sem nú eru fram undan verður snjóbræðslukerfið endurnýjað.

Við sögðum frá því í maí í fyrra að gamla náðhúsið við Hótel KEA og kirkjutröppurnar væri orðið hluti af fasteignasafni Regins. Í samtali við Akureyri.net sagði þáverandi forstjóri Regins, Helgi S. Gunnarsson: „Samkvæmt samningi við Akureyrarbæ tökum við að okkur að endurnýja kirkjutröppurnar fyrir ofan gömlu klósettin, því þær leka. Þarna eru þær inni á okkar lóð. Hugmyndin er svo að byggja aðeins við, bæði út á bílastæðið og inn í portið á bak við hótelið. Þetta er skemmtilegur staður, við sjáum mikil tækifæri þarna og ætlum að gera skemmtilega hluti."

Um það bil þriðjungur kostnaðarins fellur á Regin, sem eiganda rýmisins undir kirkjutröppunum og samkvæmt samkomulagi á milli Regins og Akureyrarbæjar. Sá hluti verksins sem á að fela Lækjarseli á grundvelli útboðs er innan við helmingur af heildarkostnaðinum, að sögn Andra, þar sem undanskilin sé jarðvinna og þar að auki leggi Akureyrarbær til verksins mikið af efni sem ekki fer í gegnum samninginn við Lækjarsel. „Akureyrarbær er með fjárveitingu til verksins til jafns á þessu ári og næsta en við munum þó reyna að komast sem lengst með verkið núna í haust og byrjun næsta vetrar, enda mikil eftirvænting að geta tekið nýuppgerðar kirkjutröppur í notkun og þetta er mikilvæg samgöngu- og ferðamannaleið,“ segir Andri í svari við fyrirspurn Akureyri.net.

Sigurhæðir. Mynd: Haringo

Kirkjutröppurnar ofan frá. Mynd: HarIngo.