Fara í efni
Fréttir

Fjölmenni gekk nýju kirkjutröppurnar

Myndir: Þorgeir Baldursson

Margmenni kom saman síðdegis þegar nýju kirkjutröppurnar 112 frá Kaupvangstorgi að Akureyrarkirkju voru formlega teknar í notkun við hátíðlega athöfn. Unnið hefur verið að miklum endurbótum á svæðinu og stundin var langþráð í dag þegar gestum og gangandi var loks heimilað að ganga þessa vinsælu leið á ný.

Gömlu tröppurnar voru brotnar niður um mitt síðasta ár og eftir mikla jarðvegsvinnu og alls kyns framkvæmdir var komið fyrir nýjum, steyptum tröppum sem lagðar eru granítflísum, með hita í öllum þrepum og stigapöllum og með nýrri lýsingu í handriði og hliðarpóstum.

Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, ávarpaði mannfjöldann og lýsti ánægju sinni með nýju tröppurnar. Barnakórar Akureyrarkirkju sungu tvö lög undir stjórn Sigrúnar Mögnu Þórsteinsdóttur, Ásthildur klippti á borða og síðan var boðið var til skrúðgöngu upp tröppurnar og að kirkjunni – Matthíasarkirkju. Fána- og kyndilberar úr Skátafélaginu Klakki fóru fyrir göngufólkinu undir fögrum orgeltónum sem bárust út í hátíðlega froststilluna úr opinni kirkju. Þar sat Eyþór Ingi Jónsson við orgelið og lék af mikilli list eins og hans er von og vísa.