Fara í efni
Íþróttir

Þórsstelpurnar sækja Njarðvíkinga heim

Maddie Sutton var mögnuð í heimaleik Þórs gegn Njarðvík fyrr í vetur, var þá með 50 framlagsstig! Hér er hún í leik gegn Tindastóli, sem nú leikur í neðri hlutanum. Mynd: Skapti Hallgrímsson.

Keppni í A-hluta Bónusdeildar kvenna í körfuknattleik hefst í kvöld. Svo skemmtilega vill til að Þórsliðið sækir Njarðvíkinga heim í kvöld, í öðrum leiknum í röð, en þessi lið mættust einmitt í lokaumferðinni fyrir tvískiptingu. Leikur Njarðvíkur og Þórs hefst kl. 19:15 og verður í beinni útsendingu á Stöð 2 sport.

Leikir Þórs í A-hlutanum

  • 26. febrúar: Njarðvík - Þór
  • 2. mars: Þór - Valur
  • 12. mars: Haukar - Þór
  • 26. mars: Þór - Keflavík

Þegar litið er yfir fyrri leiki Þórsliðsins gegn þessum fjórum liðum kemur í ljós að Þór fær heimaleiki gegn liðum sem það hefur nú þegar unnið á heimavelli og útileiki gegn liðum sem liðinu tókst ekki að vinna á útivelli.

Bikarævintýrið á næstu grösum

Inn í þessa leikjadagskrá kemur svo bikarvikan, en þar á eftir að koma í ljós hver mótherji Þórsliðsins verður í undanúrslitum. Úrslitakeppni VÍS-bikarsins fer fram í Smáranum í Kópavogi dagana 18.-23. mars. Undanúrslit hjá kvennaliðunum verða þriðjudaginn 18. mars og úrslitaleikir laugardaginn 22. mars.

Dregið verður í undanúrslitin mánudaginn 3. mars kl. 12:15. Í pottinum ásamt Þór eru Grindavík, Hamar/Þór og Njarðvík. Bikarmeistarar Keflavíkur eru dottnir úr leik, sem og efsta lið Bónusdeildarinnar, Haukar, sem máttu játa sig sigraðar þegar þær mættu Þór í Íþróttahöllinni á Akureyri í janúar.