Þórsstelpurnar afþökkuðu sópinn

Kvennalið Þórs í körfbolta vann sögulegan sigur á Val í þriðja leik liðanna í átta liða úrslitum Íslandsmótsins, Bónusdeildarinnar, í kvöld, 72-60. Þetta er fyrsti sigur liðsins i úrslitakeppni efstu deildar, en áður hafði liðið tapað þremur leikjum í viðureign gegn Grindavík í fyrravor og tveimur fyrstu leikjunum gegn Val nú. Liðið er aðeins á sínu öðru tímabili í efstu deild frá því á áttunda áratugnum og um leið í annað skipti í úrslitakeppni efstu deildar.
Esther Fokke hefur ekki tekið þátt í síðustu leikjum liðsins vegna meiðsla. Það munaði mikið um að fá hana inn í hópinn aftur í kvöld eins og tölfræðin sýnir glögglega. Þær tæpu 23 mínútur sem hún spilaði í leiknum vann Þór með 23 stigum! Mynd: Skapti Hallgrímsson.
Ef til vill bjuggust einhverjir sérfræðingar við því að Valur ynni þriðja leikinn í röð með meiðslavandræði Þórsliðsins og úrslit fyrri leikjanna í huga, að Valur myndi þannig sópa Þórsstelpunum út úr keppninni og senda þær í sumarfrí. En fregnir af sumarfríi Þórsara voru stórlega ýktar. Þórsstelpurnar mættu vel stemmdar til leiks og börðust eins og ljón. Breiddin var líka meiri en í fyrstu tveimur leikjunum því Esther Fokke og Hrefna Ottósdóttir komu nú aftur inn í hópinn. Hrefna rifjaði upp gamla takta og skoraði gríðarlega mikilvæga þriggja stiga körfu þegar rúmar tvær mínútur voru eftir og staðan þá orðin 69-60.
Baráttan kostaði sitt
Þór hafði forystuna lengst af fyrri hálfleiksins og náði mest 15 stiga forystu með mikilli baráttu, en báðum liðum gekk á köflum nokkuð brösuglega að skora, gestunum þó sínu verr, en Valur skoraði 12 stig í fyrsta leikhluta og 13 í öðrum. Baráttan í vörninni kostar auðvitað sitt og þegar leið á fyrri hálfleikinn var Maddie Sutton komin með þrjár villur, ekki endilega alveg allar augljósar, og hvíldi um tíma, en það kom ekki að sök því hin hávaxna Esther Fokke var komin aftur inn í Þórsliðið eins og áður sagði. Kona kemur í konu stað og þegar á þarf að halda stíga nýjar hetjur upp. Emma Karólína Snæbjarnardóttir var til dæmis öflug í leiknum og leiddi Þórsliðið í stigaskorun.
Best klæddi þjálfarinn í Bónusdeildinni? Daníel Andri Halldórsson, þjálfari Þórs, og Natalia Lalic á bekknum í kvöld, en hún hefur ekki tekið þátt í síðustu leikjum vegna meiðsla. Mynd: Skapti Hallgrímsson.
Þriggja stiga karfa frá Evu Wium Elíasdóttur í byrjun seinni hálfleiks gaf vonir um glæsilegt framhald, en Valsstelpurnar vildu ekki játa sig sigraðar strax enda nóg eftir af leiknum. Valur tók að saxa á forskotið og munurinn sjö stig þegar þriðja leikhluta lauk. Þá voru líka þrjár úr Þórsliðinu, þær Amandine Toi, Esther Fokke og Maddie Sutton, komnar með fjórar villur og mátti lítið út af bregða í lokafjórðungnum.
Vélinni snúið í gang úr stúkunni
Munurinn var kominn niður í fjögur stig og Þórsvélin hikstaði aðeins, en dyggir stuðningsmenn snéru hana aftur í gang og skytturnar þrjár náðu að forðast fimmtu villuna alveg til enda. Þegar á reyndi var það sigurviljinn og baráttan sem skilaði 12 stiga sigri, 72-60, eftir mikinn darraðadans, sjónvarpsathuganir dómara og tryllilng í stúkunni. Hrefna Ottósdóttir kom inn í hópinn aftur, spilaði rúmar fimm mínútur og skoraði þrjú stig, þriggja stiga körfuna sem áður var nefnd. Þá er vert að geta innkomu Katrínar Evu Óladóttur, sem spilaði tæpar þrjár mínútur, en skoraði á þeim tíma þrjú stig og tók þrjú fráköst. Eftir fyrstu innkomuna hafði hún spilað 55 sekúndur, skorað tvö stig og tekið tvö sóknarfráköst.
Esther Fokke og Maddie Sutton ráða ráðum sínum. Það munaði mikið um að fá Esther inn í liðið og skipti sköpum þegar Maddie hafði fengið þrjár villur strax í fyrri hálfleiknum að geta tekið hana út af um tíma. Mynd: Skapti Hallgrímsson.
Emma Karólína var stigahæst í Þórsliðinu með 18 stig og Maddie Sutton með flest fráköst að vanda, en hún tók 15 fráköst og var með 29 framlagspunkta. Þá vekur athygli þegar tölfræðin er skoruð að Esther Fokke er með 23 í plús/mínus dálknum, sem þýðir að þær tæpu 23 mínútur sem hún spilaði vann Þór með 23ja stiga mun. Hjá Val var það Dabjört Dögg Karlsdóttir sem skoraði mest, en hún gerði 18 stig.
- Þór - Valur (21-13) (18-12) 39-25 (14-20) (19-15) 72-60
Ítarleg tölfræði leiksins
Helstu tölur leikmanna Þórs, stig, fráköst og stoðsendingar:
- Emma Karólína Snæbjarnardóttir 18 - 6 - 0
- Maddie Sutton 15 - 15 - 3 - 29 framlagsstig
- Amandine Toi 12 - 3 - 9
- Eva Wium Elíasdóttir 11 - 4 - 3
- Esther Fokke 8 - 4 - 1
- Katrín Eva Óladóttir 3 - 3 - 0
- Hanna Gróa Halldórsdóttir 2 - 2 - 0
- Hrefna Ottósdóttir 3 - 0 - 0
- Karen Lind Helgadóttir náði ekki sð skora.
- María Sól Helgadóttir var varamaður en kom ekki við sögu í leiknum.
Fjórði leikur liðanna verður spilaður í Valsheimilinu að Hlíðarenda sunnudaginn 13. apríl og fimmti leikurinn, ef til kemur, á Akureyri miðvikudaginn 16. apríl.