Fara í efni
Íþróttir

Þórsarar töpuðu fyrir Njarðvíkingum – MYNDIR

Ljósmyndir: Skapti Hallgrímsson

Þórsarar töpuðu 3:0 fyrir Njarðvíkingum á heimavell í dag í Lengjudeildinni, næst efstu deild Íslandsmóts karla í knattspyrnu. Þórsliðið er því enn með 24 stig, nú eftir 19 leiki. Draumurinn um að komast í umspil um laust í efstu deild fer minnkandi, Þórsarar eiga þrjá leiki eftir í deildinni og eru enn í fallhættu.

ÞRUMUSKOT Í STÖNG
Þórsarar byrjuðu prýðilega og eftir stundarfjórðung átti Bjarni Guðjón Brynjólfsson þrumuskot sem small í stöng Njarðvíkurmarksins og út í teig þar sem varnarmenn bægðu hættunni frá.

_ _ _

GESTIRNIR NÁ FORYSTU
Njarðvíkingar náðu forystunni á 20. mín. Boltinn barst óvænt inn fyrir Þórsvörnina, Aron Birkir markvörður kom langt út fyrir teig og hugðist spyrna frá en hitti ekki boltann, Rafael Victor hafði betur í kapphlaupi við varnarmanninn Aleksi Matias Kalermo og skoraði í tómt markið.

_ _ _

NJARÐVÍKINGAR SKORA AFTUR
Gísli Martin Sigurðsson kom Njarðvíkingum í 2:0 á 27. mín. Rafael Victor fékk boltann við vítateigsbogann, sendi á Gísla sem var óvaldaður utarlega í teignum og skoraði með skoti undir Aron Birki.

_ _ _

HÖFUÐVERKUR Í HÁLFLEIK
Eftir ágæta byrjun í leiknum misstu Þórsarar móðinn eftir fyrra mark Njarðvíkinga. Eftir að flautað var til leikhlés velti Þorlákur Árnason þjálfari Þórs hlutunum fyrir sér áður en hann fór til búningsklefa; lausnin var að gera þrefalda skiptingu: Kristófer Kristjánsson, Hermann Ingi Rúnarsson og Birgir Ómar Hlynsson leystu af hólmi Ingimar Arnar Kristjánsson, Kristján Atla Marteinssdon og Bjarka Þór Viðarsson.

_ _ _

ÞÓRSARAR MINNA Á SIG
Strax í upphafi seinni hálfleiksins skallaði Hermann Helgi Rúnarsson yfir mark Njarðvíkinga eftir aukaspyrnu Marc Rochester Sörensen.

_ _ _

ÞRIÐJA OG SÍÐASTA MARKIÐ
Oliver Kelaart, sem nýlega var kominn inn á sem varamaður, gerði þriðja og síðasta mark gestanna á 79. mín. Var dauðafrír fyrir framan mark Þórs þegar fyrirgjöf kom frá vinstri kanti og skallaði boltann auðveldlega í netið.

_ _ _

FYRSTI LEIKUR EGILS ORRA
Vinstri bakvörðurinn Egill Orri Arnarsson kom inn á þegar 80 mín. voru liðnar, strax eftir að Njarðvíkingar gerðu þriðja markið. Egill Orri – enn einn bráðefnilegi uppaldi Þórsarinn sem kemur við sögu í sumar – er aðeins 15 ára og er enn í 3. aldursflokki. 

Smellið hér til að sjá leikskýrsluna.