Fara í efni
Íþróttir

Þórsarar komnir með bakið upp að vegg

Ekkert gefið eftir! Maddie Sutton, Lore Devos (35) og Grindvíkingurinn Dagný Lísa Davíðsdóttir berjast um boltann. Í þetta skipti var dæmd villa á Devos ... Mynd: Skapti Hallgrímsson

Þór tapaði 101:85 fyrir Grindavík í öðrum leik liðanna í úrslitakeppni Íslandsmóts kvenna í körfubolta á heimavelli í gærkvöldi. Grindvíkingar unnu einnig fyrsta leikinn og eru því með pálmann í höndunum. Þrjá sigra þar til að komast í undanúrslit og liðin mætast í þriðja sinn á þriðjudaginn fyrir sunnan.

  • Skorið eftir leikhlutum: 28:21 – 17:25 – 45:46 – 27:24 – 13:31 – 85:101

Þórsarar byrjuðu mjög vel eins sjá má á tölunum hér að ofan, gestirnir snéru leiknum sér í hag í öðru leikhluta en allt var í járnum. Stelpurnar okkar tóku síðan frumkvæðið á ný í þriðja leikhluta og staðan var vænleg fyrir þann fjórða og síðasta. Spennan í hámarki en lokakaflinn var ótrúlegur.

Grindvíkingar unnu svo síðasta fjórðunginn með 18 stiga mun; á sama tíma og Þórsarar misstu taktinn hittu gestirnar ótrúlega vel, meðal annars úr fimm skotum utan þriggja stiga línunnar, þar af Sarah Mortensen þrisvar á skömmum tíma. Grindvíkingar sigldu því hægt en örugglega fram úr, sigurinn var öruggur en munurinn meiri en tilefni var til.

Vert er að minnast þess að Grindvíkingar urðu í 2. sæti deildarinnar en nýliðar Þórs í 7. sæti, Suðurnesjaliðið er því sterkara á pappírnum og sigurstranglegra. Breiddin er líka meira á þeim bænum og óhætt að segja að staða Þórsara sé orðin erfið. Þórsstelpurnar eru hins vegar þekktar fyrir allt annað en að gefast upp þótt á móti blási; þær hafa sýnt að þegar sá gállinn er á þeim standa þær hvaða liði sem er snúning.

Smellið hér til að sjá tölfræðina.

Heiða Hlín Björnsdóttir og Daniella Rodriguez. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Sarah Sofie Mortensen, Þórsarinn Emma Karólína Snæbjörnsdóttir og Daniella Rodriguez. Mynd: Helgi Heiðar Jóhannesson

Þórsarinn Maddie Sutton og Daniella Rodriguez. Mynd: Helgi Heiðar Jóhannesson