Fara í efni
Fréttir

Þorrakjötsúpa fyrir kirkjuna á bóndadaginn

Miklar framkvæmdir hafa staðið yfir í Lögmannshlíðarkirkju. Safnað verður fyrir lokasprettinn með frjálsum framlögum í kjötsúpu í safnaðarheimili Glerárkirkju á bóndadag, föstudaginn 24. janúar. Mynd: Arnar Yngvason

Í hádeginu á föstudag verður boðið upp á kjötsúpu í safnaðarheimili Glerárkirkju. Gestir greiða það sem þeir vilja fyrir súpuna en peningarnir munu renna í framkvæmdir við Lögmannshlíðarkirkju.

Þar sem dagurinn er bóndadagur og markar upphaf þorra verður einnig hægt að fá smakk af sviðasultu, pungum og hákarli á staðnum, auk þess sem Snorri Guðvarðsson, tónlistarmaður og kirkjumálari, og séra Magnús Gunnarsson grípa í hljóðfæri og leika þorralög. Kjötsúpan verður í boði milli kl. 12 og 13 en þeir sem ekki eru á hraðferð geta í kjölfarið fengið stutta vískíkynningu hjá Snorra.

Lögmannshlíðarkirkja var vígð árið 1860 en þar stóð áður torfkirkja. Kirkjan hefur verið vinsæl fyrir minni athafnir eins og skírnir, fermingar og giftingar. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Yfirhalning á Lögmannshlíðarkirkju

Undanfarið eitt og hálft ár hafa staðið yfir miklar framkvæmdir í Lögmannshlíðarkirkju og er þeim ekki lokið. Af þessum sökum hafa engar athafnir verið haldnar í kirkjunni, en kirkjan er vinsæl fyrir giftingar, skírnir og fermingar. Að sögn Arnars Yngvasonar, umsjónarmanns Glerárkirkju og Lögmannshlíðarkirkju, var komið sig í norðausturhorn kirkjunnar. Nú þegar er búið að steypa undir hornið og styrkja gólfbita. Þá hafa gólfborð verið lögð aftur niður, þau slípuð og lökkuð. „Næsta vers er að fara aftur inn með bekki, mála veggi og svo er frágangur eftir utandyra. Og það er bara verið að safna upp í þetta,“ segir Arnar og bætir við að gaman væri ef um hálf milljón myndi safnast í kjötsúpunni á föstudag. Hann segir að styrkir hafi fengist frá Húsafriðunarsjóði upp í framkvæmdirnar, en enn vanti upp á fyrir lokasprettinn.

Snorri Guðvarðsson tónlistarmaður og kirkjumálari, til vinstri, og séra Magnús Gamalíel Gunnarsson. Myndir: Skapti Hallgrímsson

Hærri bekkir og prédikunarstóllinn færður

„Við vonumst til þess að ljúka þessu verki núna í sumar, ef þetta gengur vel hjá okkur. Kirkjubekkirnir sem eru svolítið lágir verða hækkaðir um 45 mm, það er búið að smíða nýja kubba undir þá,  svo það verður aðeins betra að sitja í þeim. Svo færum við prédikunarstólinn í leiðinni. Hann var svo framarlega og eiginlega svolítið fyrir annarri röðinni svo núna verður hann aftar og meira til hliðar við kórinn. Og þetta er náttúrlega allt saman gert í samráði við Minjavernd,“ segir Arnar og vonast til þess að sem flestir leggi leið sína í safnaðarheimilið á föstudag og styðji gott málefni með frjálsum framlögum.