Fara í efni
Íþróttir

Þór/KA í góðri stöðu eftir sigur á Val

Sonja Björg Sigurðardóttir skoraði fyrra mark Þórs/KA í gær. Hér kljást þær Sonja Björg og landsliðskonan Natasha Anasi. Mynd: Ármann Hinrik Kolbeinsson.

Þór/KA kom sér í góða stöðu í riðli 1 í A-deild Lengjubikars kvenna í gærkvöld með 2-0 sigri á Val í Boganum. Þór/KA er í 2. sæti riðilsins með níu stig úr fjórum leikjum og mætir Fylki í lokaleik sínum í riðlinum á þriðjudag. 

Markalaust var eftir fyrri hálfleikinn í leik Þórs/KA og Vals. Bæði lið fengu nokkur færi og á lokamínútum fyrri hálfleiks töldu leikmenn og stuðningsfólk Þórs/KA að Margrét Árnadóttir hefði skorað eftir mikinn darraðadans í teignum í framhaldi af hornspyrnu. Sonja Björg Sigurðardóttir skallaði þá að marki eftir hornspyrnu, varnarmenn komust fyrir, og eftir skemmtilega tilburði hjá Margréti Árnadóttur töldu leikmenn Þórs/KA að boltinn hefði farið yfir marklínuna og vallarþulurinn í Boganum keyrði tónlistina í gang til að fagna marki. Mögulega hefði markalínutækni hjálpað í þessu tilviki, en niðurstaðan var sú að markalaust var eftir fyrri hálfleikinn.

Ármann Hinrik Kolbeinsson mundaði myndavélina í Boganum í gær og tók meðal annars þessa skemmtilegu myndasyrpu af umræddu atviki í lok fyrri hálfleiksins.


Hornspyrna frá Karen Maríu Sigurgeirsdóttur, boltinn fer yfir Kolbrá Unu Kristinsdóttur og Huldu Björg Hannesdóttur. Mynd: Ármann Hinrik Kolbeinsson.

Sonja Björg Sigurðardóttir skallar að marki. Mynd: Ármann Hinrik Kolbeinsson.


Margrét Árnadóttir gerir tilraun til að skora en það er varið. Margrét náði svo aftur skoti að marki, eða náði öllu heldur að sópa boltanum, liggjandi eftir fyrri tilraunina og þá virtist boltinn fara inn í markið. Mynd: Ármann Hinrik Kolbeinsson.

Sonja Björg, Hulda Ósk, Kimberley Dóra, Agnes Birta og Hulda Björg eru allar alveg vissar um að hér hafi verið skorað mark. Mynd: Ármann Hinrik Kolbeinsson.


Leikurinn hélt áfram. Mynd: Ármann Hinrik Kolbeinsson.

Sonja Björg Sigurðardóttir og Sandra María Jessen skoruðu hins vegar báðar í seinni hálfleiknum og tryggðu Þór/KA sigurinn. Sonja Björg pressaði markvörð Vals og náði að koma fæti fyrir boltann og pota honum yfir marklínuna þegar um 20 mínútur voru til leiksloka. Nokkrum mínútum síðar skoraði Sandra María Jessen annað markið þegar hún nýtti sér misskilning milli varnarmanns og markmanns vel fyrir utan teiginn, náði að pota boltanum áfram, tók sprett, náði honum upp við endamörk og skoraði úr þröngu færi áður en Valskonur náðu að koma sér til baka.

Úrslitin í riðli 1 ráðast ekki fyrr en í lokaumferðinni í komandi viku. Þór/KA sækir Fylki heim á Würth-völlinn í Árbæ á þriðjudag, í leik sem átti að fara fram síðastliðinn sunnudag en var frestað. Daginn eftir mætast Þróttur og Valur. Tvö lið fara áfram í undanúrslit og getur Þór/KA tryggt sér sæti í undanúrslitunum með sigri á þriðjudaginn.