Gríðarleg spenna og KA bikarmeistari

Kvennalið KA varð bikarmeistari í blaki í dag eftir 3:2 sigur á liði HK í úrslitaleik Kjöríssbikarkeppninnar í íþróttahúsinu Digranesi í Kópavogi. Tvöfaldur sigur KA var þar með í höfn því karlalið félagsins varð bikarmeistari fyrr í dag, eins og Akureyri.net greindi frá.
KA komst í 2:0; vann fyrstu hrinuna 25:18 og þá næstu 25:17 eftir ótrúlega sveiflu; HK byrjaði mun betur í hrinunni, komst í 11:3 en þá hrukku KA-stelpurnar í gang og gerðu 12 stig í röð! Staðan þá orðin 15:11 þeim í hag og hrinan endaði 25:17.
Margir héldu að þar með væru möguleikar HK úr sögunni en svo var aldeilis ekki. Kópavogsliðið gerði sér lítið fyrir og vann tvær hrinur í röð, 25:22 og 26:24, staðan þar með orðin 2:2 þannig að grípa varð til oddahrinu. Í henni hafði KA betur, 15:12, og mikill fögnuður braust út í Digranesi þegar ljóst var að báðir bikararnir í meistaraflokki yrðu vistaðir í KA-heimilinu næsta árið.
Paula Del Olmo Gomez gerði 16 stig fyrir KA í dag og Julia Bonet Carreras 15.
- Rætt var við KA-konurnar Lovísu Rut Aðalsteinsdóttur og Paula Del Olmo Gomez í beinni útsendingu RÚV eftir sigurinn. Smellið hér til að sjá umfjöllunina og viðtölin.
Bikarmeistarar KA í blaki kvenna í dag ásamt stuðningsmönnum í Digranesi. Mynd af Facebook síðu KA: