Fara í efni
Íþróttir

Þór mætir Grindavík í úrslitakeppninni

Þórsarinn Maddie Sutton nær boltanum af Ástu Júlíu Gríms­dótt­ur eftir að Valsarinn náði frákasti í vörninni og andartaki síðar smaug boltinn niður um körfu gestanna. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Þór tapaði naumlega fyrir Val, 83:77, á heimavelli í kvöld í lokaumferð efstu deildar kvenna í körfubolta, Subway deildinni. Liðin voru jöfn að stigum fyrir leikinn í sjötta sæti (efsta sæti B-hluta deildarinnar) nú er ljóst að Þórsarar mæta Grindvíkingum í fyrstu umferð átta liða úrslitakeppni um Íslandsmeistaratitilinn.

  • Skorið eftir leikhlutum:  15:20 – 17:23 – 32:43 –  19:22 –26:18 – 77:83

Valsmenn voru betri í fyrri hálfleik í kvöld og Þórsarar óvenju ragir. Munurinn var 11 stig að loknum fyrri hálfleik, Valsmenn náðu mest hátt í 20 stiga forskoti í þriðja leikhluta en Þórsstelpur bitu í skjaldarrendur eftir að þær hrukku í gang og þegar skammt var eftir munaði aðeins fjórum stigum. Sigur var í sjónmáli en herslumuninn vantaði.

Maddie Sutton skoraði mest í Þórsliðinu – 24 stig. Hún tók að auki 17 fráköst og átti fjórar stoðsendingar. Lore Devos gerði 22 stig, tók 9 fráköst og gaf 7 stoðendingar.

Smellið hér til að sjá alla tölfræðina

Niðurröðun liðanna í 8-liða úrslitum úrslitakeppninnar um Íslandsmeistaratitilinn verður svona:

  • Keflavík (1. sæti) - Fjölnir (8)
  • Grindavík (2) - Þór Akureyri (7)
  • Njarðvík (3) - Valur (6)
  • Haukar (4) - Stjarnan (5)

Úrslitakeppnin hefst 8. apríl og vinna þarf þrjá leiki til þess að komast í undanúrslit.

Ljóst er að við ramman reip verður að draga í átta liða úrslitunum en Þórsstelpurnar komu skemmtilega á óvart í undanúrslitum bikarkeppninnar á dögunum og sigruðu Grindvíkinga; sýndu þar að allt er mögulegt í íþróttum.