Söguleg augnablik hjá kvennaliði Þórs
Kvennalið Þórs í körfubolta leikur í efstu deild Íslandsmótsins í körfubolta í vetur, í fyrsta skipti í 45 ár eins og Akureyri.net hefur fjallað um. Stelpurnar okkar sigruðu Stjörnuna í fyrsta heimaleiknum í síðustu viku og í kvöld er fyrsti útileikurinn á dagskrá; Þór sækir Fjölni heim í Grafarvoginn og hefst viðureignin kl. 19.15 í Dalhúsum.
Fyrsti leikurinn var gegn Stjörnunni í Íþróttahöllinni fyrir sléttri viku, þriðjudaginn 26. september. Þórsarar unnu leikinn 67:58 og til gamans eru hér rifjuð upp hér nokkur söguleg atriði.
_ _ _
FYRSTA BYRJUNARLIÐIÐ
Fyrsta byrjunarlið Þórs í efstu deild eftir 45 ára bið skipuðu Eva Wium Elíasdóttir, Heiða Hlín Björnsdóttir, Hrefna Ottósdóttir, Lore Devos og Maddie Sutton. Þjálfari er Daníel Andri Halldórsson.
_ _ _
FYRSTA SKOTIÐ
Hrefna Ottósdóttir átti fyrsta skot Þórs í leiknum; hún skaut fyrir utan þriggja stiga línuna en hitti ekki, en átti eftir að koma mikið við sögu! Hrefna skaut þegar 37 sekúndur voru liðnar af leiknum; klukkan sýnir að 9 mín. og 23 sek. voru eftir af þessum fyrsta 10 mínútna leikhluta af fjórum.
_ _ _
FYRSTA VARNARFRÁKASTIÐ
Hrefna Ottósdóttir var líka fyrsti Þórsarinn sem tók frákastið í vörn í efstu deild í 45 ár! Ísold Sævarsdóttir skaut að körfu Þórs en hitti ekki og Hrefna hrifsaði boltann til sín eins og sjá má á mynunum. Þá voru 54 sekúndur liðnar.
_ _ _
FYRSTU STIGIN OG FYRSTA STOÐSENDINGIN
Fyrstu stig Þórs í efstu deild kvenna í 45 ár skoraði nýliðinn Lore Devos frá Belgíu. Þetta var fyrsta karfa leiksins. Heiða Hlín Björnsdóttir (númer 4) náði frákasti í vörninni, á myndinni horfir hún fram völlinn og sendi augnabliki síðar á Devos sem tekið hafði á rás. Belgíska stúlkan skoraði með sniðskoti þegar 1 mínúta og 20 sekúndur voru liðnar og Heiða Hlín átti þar með fyrstu stoðsendinguna.
_ _ _
FYRSTA SÓKNARFRÁKASTIÐ
Ótrúlegt en satt, Hrefna Ottósdóttir kemur enn við sögu í þessari upptalningu. Þegar nákvæmlega 2 mínútur voru liðnar tók hún fyrsta sóknarfrákast Þórs í leiknum. Á myndinni til vinstri skýtur Madison Anne Sutton að körfunni, boltinn fór ekki ofan í og Hrefna – á myndinni til hægri – hafði betur í baráttu tvær Stjörnustúlkur og náði boltanum.
_ _ _
FYRSTI „STOLNI“ BOLTINN
Heiða Hlín Björnsdóttir var fyrsti Þórsarinn til að „stela“ boltanum. Þegar 2 mín. og 14 sek. voru liðnar af leiknum náði hún boltanum af Elísabetu Ólafsdóttur.
_ _ _
FYRSTA VILLAN
Eva Wium Elíasdóttir var fyrsti Þórsarinn sem fékk villu í leiknum. Hún braut á Ísold Sævarsdóttur þegar 4 mín. og 10 sekúndur voru liðnar.
_ _ _
FYRSTA ÞRIGGJA STIGA KARFAN
Hrefna Ottósdóttir var fyrst til að skora utan þriggja stiga línunnar. Hún hafði reynt tvisvar áður án árangurs en þegar 7 mín. og 13 voru búnar af leiknum skoraði hún með þriggja stiga skoti – sjá myndina að neðan – og breytti stöðunni í 11:4. Samherjar Hrefnu fögnuðu ákaft eins og sjá má. Með þessu varð Hrefna fyrst allra til að gera þriggja stiga körfu fyrir kvennalið Þórs í efstu deild. Þórskonur léku síðast í efstu deild 1978, löngu áður en þriggja stiga línan var dregin á körfuboltavelli hérlendis!
_ _ _
Smellið hér til að sjá alla tölfræðina úr þessum sögulega leik í síðustu viku.