Fara í efni
Íþróttir

Það verður engin bikarveisla í ár

Vonbrigði KA-manna voru eðlilega mikil í leikslok. Frá vinstri: Nicholas Satchwell, Bruno og Bernat og Ólafur Gústafsson. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

KA verður ekki með í fjögurra liða bikarúrslitahelgi í handbolta í ár. Liðið tapaði í kvöld fyrir Aftureldingu, 35:32, í átta liða úrslitum bikarkeppninnar í KA-heimilinu eftir mikla spennu og framlengdan leik.

KA lék til úrslita í keppninni í fyrra þar sem skapaðist aldeilis mögnuð stemning, marga dreymdi um að endurtaka leikinn en sá draumur er að engu orðinn.

Í raun var jafnræði var með liðunum allan tímann í gær, þótt stundum munaði fáeinum mörkum; hlutirnir gerast svo hratt í handbolta.

KA var til dæmis þremur mörkum yfir, 11:8, þegar fjórar mín. voru eftir af fyrri hálfleik. Jónatan þjálfari tók leikhlé en í kjölfarið misstu KA-strákarnir boltann í fjórum sóknum í röð, gestirnir gengu á lagið og gerðu þrjú mörk. Staðan 11:11 í hálfleik.

Afturelding gerði tvö fyrstu mörk seinni hálfleiksins, hafði þar með gert fimm í röð, og komst í 13:11. KA var ekki lengi að vinna þann mun upp og náði frumkvæðinu á ný. Þegar 10 mín. voru eftir var staðan 23:20 fyrir KA en eftir leikhlé Gunnars Magnússonar þjálfara gerðu gestirnir fjögur mörk í röð og komust yfir, 24:23.

Ólafur Gústafsson skorar 25. og síðasta mark KA í venjulegum leiktíma. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Ólafur Gústafsson gerði næstu tvö mörk og kom KA yfir enn á ný en Igor Kopishinsky jafnaði úr horninu. Eftir að leiktíminn var úti fékk KA aukakast í vonlitlu færi, Ólafur Gústafsson náði þó að skjóta yfir vegginn en Brynjar markvörður var vel á verði.

  • Að gefnu tilefni er rétt að nefna að sennilega ætti aldrei að tala um vonlítið færi þegar KA fær aukakast að leiktíma loknum – a.m.k. ekki gegn Aftureldingu, með ógleymanlegt mark Guðjóns Vals Sigurðssonar í apríl árið 2001 í huga! Hann var í vonlausu færi miðað við gærdaginn!
  • Smellið hér til að sjá upprifun um hið goðsagnakennda mark Guðjóns Vals.

Ólafur Gústafsson býr sig undir að taka aukastið að loknum venjulegum leiktíma. Einhverjir hugsuðu væntanlega til ævintýrisins árið 2001 . Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Afturelding var sterkara liðið í framlengingunni og munaði þar mestu um frábæra frammistöðu Árna Braga Eyjólfssonar sem reyndist sínum gömlu félögum óþægur ljár í þúfu. Hann gerði fjögur mörk í framlengingunni og alls níu.

Mörk KA: Ólafur Gústafsson 8, Einar Rafn Eiðsson 5, Gauti Gunnarsson 5, Skarphéðinn Ívar Einarsson 4, Jens Bragi Bergþórsson 3, Dagur Gautason 3, Dagur Árni Heimisson 2, Arnór Ísak Haddsson 1, Ragnar Snær Njálsson 1.

Varin skot: Nicholas Satchwell 12 (30%), Bruno Bernat 3 (30%)

Smellið hér til að sjá alla tölfræði úr leiknum