„Það er meistarabragur á liðinu“
Miguel Mateo, þjálfari kvennaliðs KA í blaki, sagði sitt lið hafa verið vel undirbúið fyrir að spila um Íslandsmeistaratitilinn því stelpurnar hafi reynslu af slíkri baráttu. Það ásamt frábærum stuðningi hafi skilað liðinu sigrinum í fimm hrinu leik gegn Aftureldingu í oddaleik um Íslandsmeistaratitilinn í blaki í gærkvöld.
„Við vorum stundum heppin í þessum fimm hrinum og til að vinna meistaratitil þarf stundum smá heppni, en mitt lið var mjög vel undirbúið fyrir svona stöðu. Við höfum lent í mörgum bardögum og unnið marga titla undanfarið ár svo þær voru undirbúnar. Byrjunin var ekki góð í fyrstu hrinunni, en þær voru ekki hræddar og það var undravert hvernig þær svöruðu, það er ekki auðvelt. Það er ekki auðvelt að spila um titilinn, við gerum mistök sem við vitum að við eigum ekki að gera. En þær kláruðu þetta af því að þær hafa reynslu af því að vinna titla,“ sagði Mateo eftir að lið hans hafði tekið við Íslandsbikarnum.
Þið tapið fyrstu hrinunni og eruð 5-0 undir í byrjun annarrar hrinu, fannst þér KA-stelpurnar vera stressaðar í byrjun leiks?
„Afturelding hefur spilað meiriháttar vel í þessum fimm leikjum. Ég verð að segja að þær hafa spilað sína fimm bestu leiki á leiktíðinni núna í þessari rimmu og þær vildu vinna titilinn. Þær spiluðu á fullu og ég myndi segja að þetta hafi snúist meira um þær en okkur. Það er rétt, stelpurnar voru dálítið stressaðar í byrjun, voru of bráðar og vildu klára of fljótt, gerðu mistök, og það er rétt stundum koma mistökin þegar það er pressa á liðinu.“
„Ég verð að gera þetta því fólkið er hérna“
Hvað finnst þér um stuðninginn sem liðið þitt fékk í kvöld, hversu miklu máli skiptir hann?
„Hann skiptir máli. Hann skiptir miklu máli. Eins og ég sagði, það er meistarabragur á því í fimmtu hrinunni að geta breytt stöðunni með stuðningi frá öllu þessu fólki. Þegar þú ert 8-6 undir í fimmtu hrinu og hefur stuðninginn, skorar stig, hefur stuðning, skorar annað stig og liðið fer upp á við, en hitt liðið niður á við. Það er gott að hafa fólkið því þú hugsar: Ég verð að gera þetta því fólkið er hérna.“
Með sigrinum í kvöld varð ljóst að KA-stelpurnar unnu fjórfalt annað árið í röð, meistarar meistaranna, bikarmeistarar, deildarmeistarar og núna Íslandsmeistarar, en titillinn í ár var erfiðari að hans mati.
„Þessar stelpur hafa unnið alla titlana, það hefur verið meiriháttar. Við gerðum það í fyrra líka og þetta hefur verið alveg ótrúlegt núna. Við höfum verið að fást við meiðsli og leikmenn ekki alltaf verið í sínu besta standi, en þetta lið hefur sigurandann,“ sagði Miguel Mateo, meistaraþjálfari í blaki.
Fjórfaldir meistarar ásamt Miguel Mateo þjálfara. Ljósmynd: Þórir Tryggva.
Hoppandi glaður þjálfari, meistarafögnuður og stuðningsmennirnir stokknir á fætur þegar fimmtánda stigið í fimmtu hrinunni kom. Ljósmynd: Þórir Tryggva.