Fara í efni
Pistlar

Temjum tæknina III: Uppfærð kortasjá og ný heimasíða

GERVIGREIND - 10

Góðan dag, kæru lesendur. Í dag er komið að tíunda pistlinum í röðinni um gervigreind og ég er spenntur að deila með ykkur nokkrum nýjungum og vangaveltum.

Kortasjáin í nýjum búningi

Þau ykkar sem hafa fylgst með þekkja kortasjána sem ég þróaði ásamt Arnóri Blika. Nú er komin ný og endurbætt útgáfa aðgengileg á https://magnussmari.github.io/opid_kort_v2/ Síðan er orðin mun notendavænni, sérstaklega á farsímum og spjaldtölvum. Ég hvet ykkur til að skoða hana og láta mig vita hvað ykkur finnst um breytingarnar.

Ný heimasíða

Það er mér ánægja að tilkynna opnun nýrrar heimasíðu minnar, www.smarason.is. Þessi vefsíða er afrakstur ítarlegrar rannsóknar- og þróunarvinnu, þar sem ég nýtti nýjustu tækni í gervigreind til að aðstoða við hönnun og uppbyggingu síðunnar.

Vefsíðan er byggð upp frá grunni með áherslu á notendavænt viðmót og skilvirka framsetningu upplýsinga. Þó að þetta sé fyrsta útgáfan og enn sé mikið svigrúm fyrir umbætur og viðbætur er ég ánægður með að geta deilt þessum nýju vettvangi með ykkur.

Síðan býður upp á ýmsa möguleika til samskipta og miðlunar upplýsinga og ég hlakka til að þróa hana áfram. Ég hvet ykkur til að skoða síðuna og láta mig vita ef þið hafið ábendingar eða athugasemdir.

Ný módel á toppnum!

OpenAI hefur enn og aftur náð forystu í gervigreindarkapphlaupinu með kynningu á nýjum módelum sem hafa vakið mikla athygli. Módelin sem kallast o1 og o1-mini hafa þann eiginleika að þau „hugsa“ lengur um þau verkefni sem þeim eru falin. Þetta leiðir oft til nákvæmari niðurstaðna en við sjáum í hefðbundnum módelum.

Við gætum líkt þessari breytingu við mismuninn á því að eiga samtal við mjög hvatvísan einstakling sem svarar strax því fyrsta sem honum dettur í hug og einhvern sem tekur sér smá umhugsunartíma áður en hann svarar. Þessi nýju módel eru enn að sanna sig en fyrstu prófanir mínar lofa góðu. Þó er vert að nefna að þau stóðust ekki alveg prófið með einlendu tegundirnar á Íslandi – hálf svekkjandi að svarið var húmorslaust og ekki tilnefni til nýs tónlistarmyndbands sambærilegt Tröllamúsinni sem eldra módel fann upp á!

Blendin viðbrögð við byltingarkenndum framförum

Í heimi gervigreindar er stöðugt verið að þróa nýjar aðferðir til að meta gæði módelanna. Margar þessara aðferða úreldast þó jafn hratt og módelin sjálf.

Kyle Kabasares, doktor í eðlisfræði hefur verið að gera afar áhugaverðar og hreinskilnar tilraunir með þessi nýju módel. Hann hefur látið þau glíma við eðlisfræðidæmi á doktorsstigi - þau sömu og hann sjálfur vann með í sínu doktorsverkefni. Ég mæli eindregið með að þið skoðið myndböndin hans á YouTube þau veita góða innsýn í getu þessarar nýju tækni.

Kyle lýsir upplifun sinni af niðurstöðunum af mikilli hreinskilni. Hann rifjar upp eigin reynslu af því að glíma við þessi flóknu verkefni. Minnist þess hvernig hann lá yfir þeim og upplifði ánægju og stolt þegar hann loksins leysti þau. Að sjá gervigreindina leysa sömu verkefni á örskömmum tíma vekur hjá honum blendnar tilfinningar – ótta, sorg og spennu. Hann viðurkennir að upplifunin sé yfirþyrmandi og erfitt sé að setja þau í orð.

Hlekkur á myndband frá Kyle: https://youtu.be/scOb0XCkWho?si=yawxu6Eo4677pqO5

Ég skil Kyle vel og deili mörgum af þeim tilfinningum sem hann lýsir. Það er óhjákvæmilegt að velta fyrir sér afleiðingum þess að tæknin geti leyst á augabragði verkefni sem áður kröfðust margra ára skólagöngu og mikla þjálfun. En um leið er spennandi að sjá hvernig þessi tækni gæti opnað nýjar víddir í rannsóknum og þekkingarleit.

Stutt könnun

Til að hjálpa mér að skilja betur hvernig þið eruð að upplifa og nýta þessa tækni, hef ég sett saman stutta könnun með sex spurningum. Ég væri mjög þakklátur ef þið gætuð gefið ykkur nokkrar mínútur til að svara henni. Niðurstöðurnar munu hjálpa mér að móta efni komandi pistla þannig að þeir séu sem gagnlegastir fyrir ykkur.

Könnunin er algerlega nafnlaus og svörin eru ópersónugreinanleg. Engin innskráning er nauðsynleg til að taka þátt.

Þið getið nálgast könnunina hér: https://forms.gle/1yybM1BJQAMPwFYe7

Takk fyrir þátttökuna!

Hægt er að senda ábendingar í gegn um heimasíðuna eða á netfangið magnus@smarason.is

Magnús Smári Smárason er leiðsögumaður um gervigreind

Hangið aftan í

Jóhann Árelíuz skrifar
24. nóvember 2024 | kl. 06:00

Hús dagsins: Lundargata 11

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
23. nóvember 2024 | kl. 06:00

Get ég gert eitthvað fyrir þig?

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 12:00

Sköpun og flæði

Hrund Hlöðversdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 06:00

Broddgreni

Sigurður Arnarson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 11:30

Stafræn ragnarök: Opinberun nýrra tíma

Magnús Smári Smárason skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 17:30