Starfsmenn sparisjóða nema í Símenntun HA

Símenntun Háskólans á Akureyri (SMHA) og Samband Íslenskra Sparisjóða (SÍSP) hafa gert með sér samstarfssamning um endurmenntun og símenntun fyrir starfsfólk sparisjóða um allt land. „Markmið samstarfsins er að bjóða upp á sérsniðna fræðslu sem styrkir faglega færni, eykur hæfni í fjármálaþjónustu og styður við persónulegan og faglegan vöxt starfsmanna,“ segir í tilkynningu frá SÍSP.
Samstarfið felur í sér fjölbreytt námskeið og vinnustofur, bæði í fjarnámi og staðnámi, sem taka mið af þörfum sparisjóðanna og starfsfólks þeirra. Áhersla verður lögð á hagnýta þekkingu á sviðum eins og t.d. fjármálastjórnun, þjónustu, hagnýtri gervigreind, reglugerðum í fjármálageiranum og leiðtogahæfni.
„Við erum afar ánægð með þetta samstarf við SÍSP, sem gerir okkur kleift að styðja við faglega þróun starfsfólks sparisjóða. Með sveigjanlegu námsfyrirkomulagi og sérsniðinni fræðslu getum við tryggt að starfsmenn fái það nám sem nýtist þeim best í starfi“, segir Stefán Guðnason, forstöðumaður SMHA í tilkynningunni.
Guðmundur Tómas Axelsson, framkvæmdastjóri Sambands Íslenskra Sparisjóða, tekur í sama streng: „Endurmenntun er lykillinn að áframhaldandi vexti og gæðum þjónustu. Með samstarfinu við SMHA tryggjum við að starfsfólk okkar fái hágæða fræðslu sem eykur bæði hæfni þess og þjónustugæði sparisjóðanna.“
Námskeiðin verða kynnt nánar á næstu vikum og geta starfsmenn sparisjóðanna skráð sig í gegnum vefsíðu SMHA eða í samráði við sína vinnustaði.
Sparisjóðirnir eru fjórir talsins: Sparisjóður Austurlands, Sparisjóður Höfðhverfinga, Sparisjóður Suður-Þingeyinga og Sparisjóður Strandamanna.