Mega bjóða doktorsnám í sálfræði og kennslufræði

Nú má Háskólinn á Akureyri bjóða upp á doktorsnám í sálfræði og menntavísindum, en heimild þess efnis barst frá ráðuneyti háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunar í vikunni. Fyrir hefur skólinn heimild til að bjóða upp á doktorsnám á sex fræðasviðum.
Áslaug Ásgeirsdóttir rektor fagnar þessum áfanga. „Þessar viðurkenningar eru frábærar fréttir fyrir Háskólann á Akureyri og staðfesting á því góða starfi sem unnið hefur verið í uppbyggingu doktorsnáms við háskólann. Einnig er þetta staðfesting á að mikil vinna starfsfólks við að búa sig undir viðurkenningarferlið skilaði árangri,“ segir hún í frétt á vef HA.
Það er mikil vinna sem liggur að baki þessu leyfi, en Kennaradeild og Sálfræðideild ásamt Miðstöð doktorsnáms báru þungann af vinnunni, segir í fréttinni. Háskólinn á Akureyri er nú með viðurkenningu til doktorsnáms á átta fræðasviðum, auk þeirra nýju var fyrir heimild til doktorsnáms í félagsfræði, hjúkrunarfræði, líftækni, lögfræði, sjávarútvegs- og fiskeldisfræði og viðskiptafræði.
Hér má lesa fréttina á vef Háskólans á Akureyri.