Sörensen bestur hjá Þór, Aron Ingi efnilegastur
Danski miðjumaðurinn Marc Rochester Sörensen var kjörinn besti leikmaður Þórsliðsins í knattspyrnu í sumar og Aron Ingi Magnússon þótti sá efnilegasti. Þetta var tilkynnt á lokahófi knattspyrnudeildar sem haldið var á laugardagskvöldið, eftir að Þór vann Grindavík 3:0 á heimavelli í síðustu umferð deildarinnar.
Þá var Bjarni Guðjón Brynjólfsson kvaddur sérstaklega með viðurkenningu, en hann kveður nú Þór og gengur til liðs við Val eins og áður hefur komið fram.
Á heimasíðu Þórs segir um þremenningana:
Marc Rochester Sörensen (1992) spilaði alls 24 leiki með Þórsliðinu á árinu og skoraði í þeim leikjum fimm mörk, 17/2 í Lengjudeildinni, 3/2 í Mjólkurbikarkeppninni og 4/1 í Lengjubikarnum. Þetta var fyrsta tímabil hans með Þór.
Aron Ingi Magnússon (2004) spilaði 26 leiki með Þórsliðinu á árinu og skoraði í þeim leikjum sjö mörk, 20/5 í Lengjudeildinni, 5/2 í Mjólkurbikarkeppninni og 1/0 í Lengjubikarnum. Þá tók hann einnig þátt í nokkrum leikjum með 2. flokki. Aron Ingi á samtals að baki 51 meistaraflokksleik með Þór, þann fyrsta á árinu 2021.
Bjarni Guðjón Brynjólfsson (2004) spilaði 31 leik með Þórsliðinu á árinu og skoraði í þeim leikjum sex mörk, 22/5 í Lengjudeildinni, 5/0 í Mjólkurbikarkeppninni og 4/1 í Lengjubikar. Hann á samtals að baki 79 meistaraflokksleiki með Þór, þann fyrsta á árinu 2020.
Sveinn Leó Bogason, aðstoðarþjálfari Þórs, Bjarni Guðjón Brynjólfsson sem kveður Þór og er á leið til Vals og Sveinn Elías Jónsson, formaður knattspyrnudeildar Þórs.