Fara í efni
Íþróttir

Slá kött úr tunnu og ÍBV vonandi út af laginu

Dagur Árni Heimisson, Nicolai Horntvedt Kristensen og Einar Rafn Eiðsson. Mynd af Facebook síðu KA í dag.

Næst síðasti heimaleikur KA-strákanna í Olísdeildinni í handbolta er á dagskrá í kvöld þegar Vestmannaeyingar koma í heimsókn. Þar er við stjórnvölinn gamall KA-maður, Magnús Stefánsson frá Fagraskógi.

Fjórar umferðir eru eftir af hefðbundinni deildarkeppni og KA er í harðri baráttu um sæti í átta liða úrslitakeppni um Íslandsmeistaratitilinn.

Flautað verður til leiks í KA-heimilinu kl. 19.00 í kvöld en húsið verður opnað snemma og börnum gefst tækifæri að hita upp fyrir morgundaginn. „Það verður alvöru öskudagsstemning á svæðinu en við hefjum upphitun kl. 17:30. Kötturinn verður sleginn úr tunnunni og kl. 18:30 verður skotmælingakeppni. Flottasti búningurinn fær svo verðlaun. Hlökkum til að sjá ykkur og áfram KA!“ segir í tilkynningu.

Fyrir fjórar síðustu umferðirnar er KA í níunda sæti með 12 stig, HK er með 16 stig í áttunda sæti og Stjarnan með 18 stig í sjöunda sæti. Með sigri í öllum fjórum leikjunum færi KA í 20 stig.

Mótherji dagsins, ÍBV, er í sjötta sæti deildarinnar með 19 stig.

Leikirnir sem KA á eftir:

KA - ÍBV, í kvöld kl. 19.00

Stjarnan - KA, sunnudag 9. mars

KA - FH, miðvikudag 19. mars

Fjölnir - KA, miðvikudag 26. mars

Staðan í Olísdeildinni