Blikar unnu KA og eru Meistarar meistaranna

KA tapaði fyrir Breiðabliki, 3:1, í Meistarakeppni Knattspyrnusambands Íslands í dag á Kópavogsvelli. Þessi árlegi leikur, þar sem mætast Íslandsmeistarar og bikarmeistarar keppnistímabilsins á undan, markar í raun endi hins geysilanga undirbúningstímabil hérlendis og upphaf knattsyrnusumarsins – þótt sannarlega hafi ekki verið sumarlegt á höfuðborgarsvæðinu í dag.
Að fylgjast með leik dagsins í sjónvarpinu var á köflum eins og að horfa á dramatískan veðurfréttatíma; nokkrum mínútum áður en leikurinn hófst buðu veðurguðirnir upp á eldingar, bálhvasst var og kalt, sólin gladdi leikmenn og áhorfendur um tíma þótt vind lægði lítið, og undir lokin breyttist veðrið enn eins og hendi væri veifað; þá var boðið upp á enn meira rok en áður og úrhellisrigningu!
Blikarnir voru mun meira með boltann frá byrjun, eins og gera mátti ráð fyrir; KA-menn stilltu upp fimm manna vörn, þremur miðjumönnum og tveimur í fremstu víglínu, hugðust augljóslega beita skyndisóknum en það ekki vel í fyrri hálfleiknum. Reyndar fékk KA dauðafæri eftir aðeins nokkrar mínútur og það sannarlega eftir mjög snögga sókn: Steinþór markvörður var með boltann í vítateignum, þrumaði fram og skyndilega var Viðar Örn Kjartansson á auðum sjó, komst inn í vítateig en Anton Ari varði frá honum.
Segja má að úrslit leiksins hafi ráðist á um 10 mínútna kafla seint í fyrri hálfleik. Breiðablik komst þá í 3:0 og eftir það var nánast útilokað að KA næði að ógna sigrinum.
- 1:0 – Breiðablik fékk horn hægra megin, boltinn var sendur inn á markteig þar sem Hans Viktor Guðmundsson, varnarmaður KA, stökk manna hæst en varð fyrir því óláni að skalla boltann í eigið mark. Þetta var á 31. mín.
- 2:0 – Blikar fengu víti á 34. mín. og Höskuldur Gunnlaugsson skoraði örugglega. Eftir klafs í vítateignum barst boltinn til eins Blikans, sem var fyrir innan vörnina, Ívar Örn fyrirliði KA lyfti hendi til merkis um að hann vildi að dæmd yrði rangstaða, reyndi þó að stöðva leikmanninn en braut á honum. Sannleikurinn var sá að boltinn kom til Blikans af KA-manni svo ekki var um rangstöðu að ræða.
- 3:0 – Tobias Thomsen skallaði boltann í mark KA á 41. mín. eftir fyrirgjöf af vinstri kanti.
Breiðablik var áfram betra liðið í seinni hálfleik, fékk nokkur góð færi til að skora en tókst ekki. KA-menn hresstust þegar leið á leikinn, ekki síst eftir að Hallgrímur Mar Steingrímsson kom inn á þegar um 25 mín. voru eftir. Hann hefur glímt við meiðsli en virkaði ferskur. Enn meira líf færðist svo í sóknarleikinn eftir að Jakob Snær Árnason kom inn af varamannabekknum þegar korter lifði leiks.
- 3:1 – Það var Ásgeir Sigurgeirsson sem gerði mark KA á 83. mín. Skallaði þá að marki Blika af stuttu færi eftir mjög góða fyrirgjöf Jakos Snæs frá hægri, Anton Ari varði en hélt ekki boltanum og Ásgeir þrumaði í netið.
Sigur Blika var sanngjarn en ekki er hægt að fella dóm um lið KA af þessari viðureign einni. Í fyrsta lagi mættu KA-menn óvenju seint til leiks vegna seinkunar á flugi, í öðru lagi var veðrið ömurlegt og í þriðja lagi gátu þeir hvorki stillt þeim mikilvægu leikmönnum, Hallgrími Mar né Færeyingnum Jóan Símon Edmundsson, upp í byrjunarliðið. Hallgrímur byrjaði á bekknum sem fyrr segir og Jóan meiddist gegn Þór í úrslitaleik Kjarnafæðismótsins. Hann verður vonandi ekki lengi frá.
Efsta deild Íslandsmótsins, Besta deildin, hefst um næstu helgi. Meistarar Breiðabliks taka á móti nýliðum Aftureldingar laugardaginn 5. apríl og daginn eftir mætast KA og KR á Greifavellinum við KA-heimilið. Þar verður flautað til leiks kl. 16.15.