Fara í efni
Menning

Rannsaka dagbækur Sveins, föður Nonna

Minjasafnið á Akureyri fékk í sumar styrk frá Nýsköpunarsjóði námsmanna til að rannsaka dagbækur Sveins Þórarinssonar (1821 - 1869), föður rithöfundarins Jóns Sveinssonar, Nonna. Dagbækur Sveins eru elstu dagbækur ungmennis á Íslandi og þykja því með merkilegri heimildum 19. aldar. Þær eru aldarspegill skrifaðar frá því að Sveinn var 15 ára og fylgja þroskaskeiði höfundar til dánardags.

  • Orðið hefur að samkomulagi að rannsókninni verði miðlað með greinarskrifum á Akureyri.net 
  • Fyrsta grein um dagbók Sveins Þórarinsson verður birt á Akureyri.net á morgun
  • „Við ákváðum að byrja á síðustu færslunni sem er 29. júní 1869 og fara þaðan aftur í tímann,“ segir Una Haraldsdóttir, ungur sagnfræðinemi sem mun sjá um þetta spennandi verkefni
  • Á morgun fá lesendur Akureyri.net því að skyggnast nákvæmlega 154 ár aftur í tímann!

Verkefnið er unnið í samvinnu við dr. Davíð Ólafsson, dósent við íslensku- og menningardeild Háskóla Íslands og Sólborgu Unu Pálsdóttur héraðsskjalavörð Skagfirðinga. Ungur sagnfræðinemi, Akureyringurinn Una Haraldsdóttir, mun sjá um þetta spennandi verkefni, en hún lauk nýlega öðru ári sínu í sagnfræði við Háskóla Íslands. „Hugmyndin kviknaði í samtali okkar á milli um þessar merkilegu dagbækur og hvernig væri hægt að gera þær aðgengilegri,“ segir Una við Akureyri.net. „Þær höfðu verið til á Minjasafninu í innbundnum ljósritum sem er erfitt er að rýna í,“ segir hún. „Við byrjuðum að skoða þetta um síðustu jól og fundum skemmtilegar færslur sem tengdust jólum og áramótum. Upp úr því fór hugmyndin að mótast,“ segir Una.

Héraðsskjalasafn Skagfirðinga hefur reynslu af því að nota handritaforritið Transkribus og því var leitað til starfsfólks safnsins um samvinnu. Davíð hefur áratuga reynslu af vinnu með dagbækur sem heimildir og þekkti vel til dagbóka Sveins. Miðstöð stafrænna hugvísinda og lista veitti verkefninu ómetanlega aðstoð, að sögn Haraldar Þór Egilssonar, safnstjóra Minjasafnsins á Akureyri, með því að veita aðgang að íslenskum gagnagrunni í Transkribus sem er í vinnslu þar á bæ.

Skemmtileg sýn á lífið á 19. öld

Dagbækur Sveins hafa verið skannaðar og eru aðgengilegar á handrit.is. Markmið verkefnisins er hins vegar að lesa þær inn í handritaforritið Transkribus. Það umbreytir handskrifuðum texta fyrri alda í tölvutexta sem auðveldar rannsóknir á textanum. Með því að gera textann stafrænan má t.d. bera saman þróun persónunnar Sveins, hugmyndaheim hans, fjölskyldulíf og bernskuár Nonna. „Þær gefa líka mjög skemmtilega sýn á lífið á Akureyri og Eyjafirði á 19. öld,“ segir Una.

Rannsókninni verður miðlað á Akureyri.net sem fyrr greinir en einnig á samfélagsmiðlum Nonnahúss. Þá er fyrirhugað að gera hlaðvarp um verkefnið. Afrakstur verkefnisins verður ekki síst nýttur í sýningu á völdum dagbókarfærslum á heimili Sveins, Nonnahúsi.