Ræða vélbúnað fram og til baka í jólaboðum!
Halldór Gunnarsson á Dalvík hefur verið vélstjóri á Björgúlfi EA 312 svo að segja allan sinn starfsaldur, lengst af sem yfirvélstjóri eða aldarþriðjung. Fyrst á „gamla“ Björgúlfi sem kom nýr til landsins árið 1977 og síðustu fimm árin á „nýja“ Björgúlfi sem kom nýr til heimahafnar í júní 2017.
Segja má með sanni að vélstjórn sé Halldóri og ættfólki hans í blóð borin og það sem meira er, flestir eru vélstjórar á skipum Samherja. Halldór og eiginkona hans, Magnea Kristín Helgadóttir kennari, eiga þrjá syni og tveir þeirra eru vélstjórar. Bráðskemmtilegt spjall við Halldór birtist á vef Samherja á Þorláksmessu og fer hér á eftir.
Halldór naut aðventunnar heima á Dalvík.
„Já, það má sannarlega segja að vélstjórarnir séu nokkrir í fjölskyldunni. Fyrstan skal nefna föður minn, Gunnar Magna Friðriksson sem var meðal annars vélstjóri á Oddeyrinni EA sem Samherji gerði út. Elsti sonur okkar, Daníel, er vélstjóri á Björgvin EA og Helgi sem er yngstur bræðranna er svo vélstjóri á Snæfelli EA sem Samherji keypti nýverið. Þriðji sonurinn, Dagur, er hins vegar rafmagnstæknifræðingur en hann starfar hjá fyrirtæki sem tengist sjávarútvegi. Tveir bræður mínir, Rúnar Júlíus og Viðar Örn eru sömuleiðis vélstjórar, Rúnar Júlís er á Björgvin EA og Viðar Örn á Frosta ÞH en hann hefur einnig verið á togurum Samherja. Til að telja upp alla vélstjórana í minni nánustu fjölskyldu, ber að nefna að tveir synir Rúnars Júlíusar eru vélstjórar og starfar annar þeirra í fiskvinnsluhúsi Samherja hérna á Dalvík. Það er því varla hægt að halda öðru fram en að vélstjórn sé í ættinni enda er vélstjórnarnámið um margt hentugt og opnar á ýmsa möguleika varðandi starfsvettvang. Flestir erum við vélstjórarnir hjá sama fyrirtækinu,“ segir Halldór Gunnarsson.
Annað stig vélstjórnar átti að duga
„Ég var að mestu alinn upp í sveit hjá ömmu og afa á Steinsstöðum í Öxnadal og í huga drengsins kom fátt annað til greina en að verða bóndi. Það breyttist hins vegar á unglingsárunum og stefnan var sett á vélstjórn enda tekjumöguleikarnir almennt taldir betri á sjónum en í sveitinni. Í upphafi stóð aðeins til að klára annað stig vélstjórnar og drífa sig í kjölfarið á sjóinn til afla tekna en fyrir hvatningu foreldra minna og annars góðs fólks kláraði ég námið og útskrifaðist sem vélstjóri í lok ársins 1987. Þá tók við nám í smiðju hjá Heklu í Reykjavík en á þessum árum vorum við Magnea farin að stinga saman nefjum og hún að klára sitt kennaranám. Við fluttum svo norður til Dalvíkur og ég kláraði smiðjuna hjá Bifreiðaverkstæði Dalvíkur.“
Aðalvélin í gamla Björgúlfi, frá vinstri: Bræðurnir Viðar Örn og Halldór, ásamt Sveini V. Ríkharðssyni vélstjóra.
Hálfdrættingur aðeins 13 ára
„Fyrsta plássið mitt var á Haraldi EA 62, sem var 30 tonna eikarbátur. Þá réði ég mig sem hálfdrætting á móti Jóhannesi Antonssyni en feður okkar og fleiri gerðu út bátinn. Þarna var ég aðeins 13 ára og auðvitað var þetta heilmikil upplifun fyrir okkur strákana. Ég barðist við sjóveiki og aðbúnaðurinn um borð var ekki upp á marga fiska miðað við það sem nú tíðkast, til dæmis þótti ekkert tiltökumál að sofa í fötunum. Síðan tóku við fleiri bátar auk starfa í sveitinni.“
Væri gaman að slá met Sigurðar skipstjóra
„Ég réði mig sem vélstjóra á gamla Björgúlf í júlí árið 1989 og síðan þá hef ég verið á tveimur Björgúlfum. Þetta er auðvitað orðinn dágóður tími en mér reiknast til að Sigurður Haraldsson skiptstjóri hafi verið manna lengst á Björgúlfi eða í 36 ár. Það væri nú gaman að slá það met og stundum segi ég að það sé markmiðið en við skulum sjá til og bíða með miklar og digrar yfirlýsingar í þeim efnum. Sigurður hugsaði afskaplega vel um skipið og sá til þess að viðhaldið væri gott og sömuleiðis umgengnin. Sigurður var góður skipstjóri sem gott var að starfa með.“
Eins gott að vera með allt á hreinu
„Góður vélstjóri þarf að hafa bæði augu og eyru opin, hlusta á tónlist vélbúnaðarins um borð og beygja sig eftir rusli og drasli og ganga á undan með góðu fordæmi. Eftirlit er stór þáttur starfsins og hlutverk vélstjórans er að koma í veg fyrir bilanir, enda ekki hægt að stöðva vélarnar í miðjum túr. Vöktunarkerfi hafa þróast gríðarlega á undanförnum árum, stundum segi ég að þessi kerfi séu yfirvélstjórar. En svona í alvöru, þá er lykilatriði að vera vel tengdur, þekkja alla hluti og síðast en ekki síst að röð og regla sé á öllum hlutum. Gott skipulag auðveldar alla vinnu, enda er það vélstjórinn sem er venjulega skammaður ef allt fer til andskotans í vélbúnaðinum á óheppilegum tíma. Þess vegna er eins gott að vera með allt sitt á hreinu. Sumir segja að þessi afstaða mín sé hálfgerð þráhyggja en fyrir mér snýst þetta um skynsamlegt vinnulag.“
Nýr Björgúlfur við bryggju á Dalvík. Fyrir aftan er gamli Björgúlfur.
Allir þurfa að róa í sömu átt
„Það er náttúrulega lykilatriði að öll áhöfnin sé samhent, hvert tannhjól er mikilvægt í öllu gangverkinu. Það er hins vegar yfirvélstjórinn sem mótar reglurnar í vélarrúminu en er síður en svo yfir aðra hafinn. Ég hef verið heppinn með samstarfsmenn í gegnum tíðina og lít alls ekki á mig sem allsráðanda í vélarrúminu. En það þurfa allir að róa í sömu átt og sú hefur verið raunin á mínum ferli og fyrir það er ég þakklátur.“
Himinn og haf á milli skipanna
„Munurinn á gamla Björgúlfi og þeim nýja er gríðarlegur. Kannski mætti líkja muninum við að fara úr tjaldvagni í hjólhýsi svo gripið sé til einhverrar samlíkingar. Það er himinn og haf á milli skipanna, það er ábyggilegt.
Vélin í nýja skipinu er ekki mjög öflug en á móti kemur að skrúfan er stór og að mínu viti kemur það vel út. Stefnið er áberandi og stór peran er til mikilla bóta á allan hátt.
Nýi Björgúlfur er fanta gott sjóskip og fer vel með mannskapinn auk þess sem allur tækjakostur er mun nútímalegri en í þeim gamla og starfsumhverfi betra á allan hátt og sjálfvirknin meiri. Ég get ekki sagt annað en að mér líði ljómandi vel um borð.“
Halldór á verkstæðinu í nýja Björgúlfi.
Væri annars löngu hættur
„Jú eðlilega er gjarnan rætt fram og til baka um tannhjól, stimpla, skrúfur, smurningu og fleira tengt vélum og vélbúnaði í jólaboðum stórfjölskyldunnar, það segir sig nokkuð sjálft þegar vélstjórarnir eru svona margir í ættinni. Samskiptin við stjórnendur Samherja hafa verið farsæl í gegnum tíðina, annars væri ég sjálfsagt löngu hættur. Allt hefur staðist eins og stafur á bók og það met ég mikils, þó ég hafi ekki alltaf verið sammála öllu sem gert hefur verið. Ég fer í næsta túr á milli jóla og nýárs eftir gott frí með fjölskyldu og vinum. Ég get ekki annað en verið þakklátur þegar þessi aldarþriðjungur á sjónum er gerður upp,“ segir Halldór Gunnarsson yfirvélstjóri á Björgúlfi, einn margra vélstjóra í stórfjölskyldu sinni.