Fara í efni
Íþróttir

Perello á förum – Bjarni líklega áfram með Þór

Ion Perello með boltann í deildarleik gegn Ægi fyrr í sumar. Bjarni Guðjón Brynjólfsson í baksýn. Ljósmynd: Skapti Hallgrímsson

Ion Perello, sem leikið hefur með Þórsliðinu síðan um mitt sumar í fyrra hefur leikið sinn síðasta leik fyrir Þór og er á förum frá félaginu. Þorlákur Árnason, þjálfari liðsins staðfesti þetta í samtali við akureyri.net í dag.

Ástæðan er sögð vera ágreiningur um túlkun á samningi leikmannsins. Aðspurður um þetta sagði Þorlákur:

„Ion er að fara. Hans skilningur á samningnum sínum og skilningur félagsins á honum hefur ekki verið sá sami í mjög langan tíma. Á endanum þá hefur félagið gefið honum leyfi til að að finna sér annað félag.“

„Kannski ekki deilur en þetta er búið að standa yfir í töluverðan tíma og hann hefur leikið sinn síðasta leik fyrir Þór.“

Ion kom til Þórsliðsins sumarið 2022 frá Hetti/Hugin og gerði samning út það tímabil. Hann framlengdi svo samning sinn við liðið út sumarið 2023. Ekki er víst hvert Ion fer, en Keflavík, sem er á botni Bestu deildar karla, hefur verið nefnt sem mögulegur áfangastaður.

_ _ _

ÓVÍST MEÐ STYRKINGAR

Valdimar Daði Sævarsson og Ómar Castaldo Einarsson, varamarkmaður liðsins eru báðir á leið til Bandaríkjanna í nám í ágúst og klára því tímabilið ekki með liðinu. Aðspurður hvort liðið væri að skoða styrkingar sagði Þorlákur.

„Ég á ekki von á því. Eins og staðan er þá erum við að missa þrjá leikmenn. Kannski skoðum við einhvern einn leikmann, en við erum ekki að leita að leikmanni á miðjunna fyrir Ion. Við erum búnir að færa Marc [Sörensen] aðeins aftar og hann hefur spilað undanfarna leiki gríðarlega vel djúpur á miðju.“

_ _ _

BJARNI GUÐJÓN VEKUR ÁHUGA ANNARA LIÐA

Bjarni Guðjón Brynjólfsson, leikmaður liðsins hefur vakið athygli annara liða. Hrafnkell Freyr Ágústsson greindi frá því í hlaðvarpsþættinum Dr. Football á dögunum að áhugi væri á Bjarna frá bæði Val og Breiðabliki. Þorlákur reiknar þó með því að Bjarni Guðjón klári tímabilið með Þór.

„Bjarni Guðjón er í Þór og hans einbeiting ætti að vera spila sem best fyrir Þór. Hann er með samning og ég á ekki á von á öðru en að hann klári tímabilið. Svo verður bara að koma í ljós í haust hvort hann flytji sig um set.“