Óvissuferðin á leik með Albert fór á 5,1 milljón!
Óvissuferð á leik með knattspyrnumanninum Albert Guðmundssyni næsta vetur seldist á 5,1 milljón króna á uppboði á herrakvöldi Þórs á laugardagskvöldið!
Uppboð á samkomum sem þessum eiga það til að fara úr böndunum þegar góðglaðir karlar eða vel það eiga í hlut og mörgum kann að þykja svo í þessu tilfelli í ljósi upphæðarinnar. Þess skal því getið að ekki var um að ræða ofurölvi, bjartsýnismann sem gat svo ekki borgað, heldur var áhuginn mikill á ferðinni og kaupandinn staðgreiddi. Fara má í smiðju Akureyrarblaðsins Dags sáluga og fá lánaða gullvæga setningu sem gjarnan var notuð á þeim bænum þegar birt var frétt um afbrotamann af einhverju tagi: Um utanbæjarmann var að ræða – sem var einmitt raunin í þessu tilfelli.
Ferðin sem um ræðir verður farin til þess að fylgjast með knattspyrnukappanum Albert Guðmundssyni í leik. Faðir hans, Guðmundur Benediktsson – Gummi Ben – er grjótharður Þórsari eins og margir vita og verður með í för. Ferðin er fyrir tvo; innifalið er flug, hótel, miðar á fínasta stað á vellinum og síðan verður farið út að borða með þeim feðgum, Albert og Gumma.
Óvissan er fólgin í því að ekki er vitað með félagi Albert leikur næsta vetur. Hann er nú á mála hjá Genoa og hefur farið á kostum í ítölsku deildarkeppninni, svo mjög að nýkrýndir Ítalíumeistarar Inter Milan og stórveldið Juventus hafa bæði sýnt honum mikinn áhuga. Albert hefur einnig verið orðaður við Tottenham og fleiri lið á Englandi. Talið er næsta víst að Albert rói á önnur mið í sumar og spennandi verður að sjá hvaða félag klófestir leikmanninn.