Fara í efni
Umræðan

Óþægileg umræða

Síðustu sólarhringar hafa verið þungir á samfélagsmiðlum. Gríðarlega margir þolendur kynferðisofbeldis hafa stigið fram og sagt frá sinni reynslu. Það er átakanlegt að lesa sum „tístin“ á twitter. Ein setning er nóg til að ramma inn hryllilegt ofbeldi sem viðkomandi hefur orðið fyrir. Svipaðar bylgjur hafa riðið yfir með tilvísun í #metoo og #timesup. Það sem vekur athygli núna er að gerendur eru einnig að stíga fram í ljósið. Viðurkenna eigin framkomu og mistök og kveðast vilja breytast og breyta samfélaginu.

Eins óþægilegt og í raun sársaukafullt það er að lesa þessi tíst, verandi móðir og þolandi, þá er samt eitthvað sem fær mann til að fletta niður listann og lesa. Að hlusta, trúa og standa með öðrum þolendum.

Forvarnir og fræðsla

Það er greinilega mikil þörf á umræðu um kynfræðslu. Það er ekki hægt að hrista hausinn yfir því að unga fólkið vilji ræða onlyfans og kynlífsvinnu (e. sexworkers). Það þarf að taka umræðuna og eiga hreinskilið samtal við unga fólkið án fordóma.

Aðgengi barna að óæskilegu efni í gegnum snjalltækin er bara einn angi af umræðunni. Við þurfum líka að ræða kynfrelsi, kynvitund, klám, samskipti kynjanna og svo lengi mætti telja.

Kynfræðsla þarf að verða markvissari og umfangsmeiri í skólakerfinu. Það má færa fyrir því rök að kynfræðsla eigi að vera fastur liður í lífsleikni, sem á að sjálfsögðu að vera áfangi á grunnskólastiginu.

Réttarvörslukerfið

Þolendur eru orðnir þreyttir á því að líða eins og á þá sé ekki hlustað. Þolendur eru ennþá á þeim stað að þurfa að safna kjarki til að tilkynna ofbeldi til lögreglu. Kerfið er þunglamalegt og seinvirkt. Jafnvel þó að á undanförnum árum hafa verið tekin stór skref til að bæta stöðu brotaþola í réttavörslukerfinu hefur traust ekki aukist til þess. Þolendur eiga rétt á því að á þessum málum sé tekið með festu.

Löggjafinn hefur hér tækifæri til að grípa til aðgerða til stuðnings þolenda. Jafnvel gerendur eiga það skilið að málin gangi hraðar fyrir sig svo þeir geti hafið ferli til betrunar sem fyrst.

Látum þetta ekki verða að enn einni herferðinni sem minnst verður þegar næsta ríður yfir. Gerum raunverulega eitthvað í málinu. Núna.

Berglind Ósk Guðmundsdóttir er lögfræðingur og þolandi.

Gagnsæi, ábyrgð og sameiginleg markmið

Anna Júlíusdóttir skrifar
26. nóvember 2024 | kl. 10:45

Betra veður fyrir íþróttakrakkana okkar!

Skúli Bragi Geirdal skrifar
25. nóvember 2024 | kl. 06:00

Lífæð landsbyggðarinnar

Stefán Þór Eysteinsson skrifar
24. nóvember 2024 | kl. 14:30

Nýja stjórnarskráin — Alþingi rjúfi stöðnunina með stjórnlagaþingi

Stjórn Stjórnarskrárfélagsins skrifar
23. nóvember 2024 | kl. 12:00

Útrýming sjóbleikjunnar í Eyjafirði í boði Kleifa fiskeldis

Bessi Skírnisson og Sigmundur E. Ófeigsson skrifa
22. nóvember 2024 | kl. 16:30

Orkumál

Jóna Björg Hlöðversdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 16:00