Norðmaður og Eisti í stað Færeyinganna
Handknattleiksdeild KA hefur samið við reyndan, eistneskan hornamann og ungan norskan markvörð. Þetta var tilkynnt á heimasíðu KA í dag.
Ott Varik er 33 ára gamall landsliðsmaður frá Eistlandi sem leikur í hægra horni en hann gengur í raðir KA frá liði Viljandi HC í Eistlandi þar sem hann hefur leikið undanfarin tvö tímabil, að því er segir í tilkynningunni. Þar áður lék hann með finnska liðinu SIF. „Þess má til gamans geta að Ott skoraði alls fimm mörk gegn íslenska landsliðinu í undankeppni EM sem fór fram í byrjun árs.“
Nicolai Horntvedt Kristensen er tvítugur markvörður frá Noregi sem gengur í raðir KA frá liði Nøtterøy en Nicolai hefur verið fastamaður í yngri landsliðum Noregs, að því er segir á vef KA.
Eins og Akureyri.net hefur áður greint frá yfirgáfu Færeyingarnir Allan Norðberg og Nicholas Satchwell herbúðir KA í vor og er þeim Varik og Kristensen ætlað að fylla skörð þeirra.