Nauðsynlegt fyrir nýbúa að læra íslensku
Bethsaida Rún Arnarson fluttist til Akureyrar frá Filippseyjum fyrir nærri þremur áratugum. Hún vissi lítið um fiskvinnslu en ákvað að sækja um vinnu hjá Útgerðarfélagi Akureyringa og hefur starfað þar öll árin sín á Íslandi, fyrir utan tvö. Skemmtilegt viðtal við Bethsaida var birt á heimasíðu Samherja í morgun.
Réði sig annað en sneri til baka
„Frænka mín vann hjá ÚA og það var hún sem benti mér á að sækja um starf hérna og ég var sem sagt ráðin. Líklega eru um tuttugu Filippseyingar sem starfa hérna og við erum meira að segja þrjár systur í þeim hópi, auk þess sem tveir synir mínir vinna líka hérna,“ segir Bethsaida í viðtalinu. „Það segir okkur að ÚA telst örugglega vera góður vinnustaður, fyrst svona margir úr fjölskyldunni hafa ráðið sig hingað. Á ákveðnum tímapunkti vildi ég skipta um starfsvettvang og réði mig annað en eftir tvö ár var ég komin til baka, sem segir okkur líka að hérna er gott að vera.“
Tæknivæðing léttir störfin
„Já vinnustaðurinn hefur tekið mikilum breytingum á þessum nærri þrjátíu árum, það er ábyggilegt. Þegar ég byrjaði var vinnan nokkuð líkamlega erfið en með árunum hefur sjálfvirknin aukist mikið og tækjabúnaður gerir flest störf líkamlega auðveldari. Tæknin hérna er rosalega flott og Íslendingar eru örugglega ansi framarlega á þessu sviði. Öryggismálin eru líka allt önnur en í byrjun, breytingarnar í þeim efnum eru mjög til betri vegar og velferð starfsfólksins alltaf í fyrirrúmi.“
Bethsaida Rún í mötuneyti ÚA. Mynd af heimsíðu Samherja.
Íslenskukunnáttan nauðsynleg
Bethsaida hefur mjög gott vald á íslensku, segir á vef Samherja, en fyrirtækið hvetur einmitt nýbúa til að sækja íslenskunámskeið og greiðir félagið námskostnaðinn.
„Maðurinn minn er íslenskur og þess vegna fór ég svo að segja strax á íslenskunámskeið fyrir nýbúa eftir komuna til landsins. Ég mæli hiklaust með slíkum námskeiðum, enda nauðsynlegt að tala og skilja mál innfæddra, sama hvar maður býr í heiminum ef út í það er farið. Ég les auk þess töluvert, bæði dagblöð og bækur. Síðan er ég í félagsstörfum og vegna þeirra þarf ég að lesa nokkuð og það efni er yfirleitt á íslensku. Íslenskan er vissulega svolítið erfið en mér gekk alveg ágætlega að ná tökum á málinu og fyrir það er ég þakklát.“
Sækist eftir endurkjöri
Bethsaida er í stjórn Einingar og hefur verið trúnaðarmaður félagsins í ÚA í tvö ár. Hún segist sækjast eftir endurkjöri sem trúnaðarmaður er skipunartími hennar rennur út.
„Það er mikil ábyrgð sem fylgir því að vera trúnaðarmaður á sínum vinnustað. Hlutverk trúnaðarmanns felst fyrst og fremst í því að gæta þess að lög og samningar séu haldnir og vera tengiliður við félagið. Þetta hefur gengið ágætlega, enda hef ég fengið góðan stuðning frá Einingu ef mig vantar einhverja aðstoð. Samskiptin við mína yfirmenn eru góð og öll mál er reynt að leysa í sátt og samlyndi. Bráðum verður kosið í þetta embætti og ég ætla mér að sækjast eftir áframhaldandi störfum. Ég kynnist líka ansi mörgum sem trúnaðarmaður, þannig að þetta gefur mér mikið og þess vegna vil ég gjarnan halda áfram.“
Ekkert að spá í aðra vinnustaði
„Nei, nei, ég er ekkert að spá í að hætta hérna, síður en svo. Mér líður afskaplega vel hjá ÚA og er sem sagt ekkert að spá í aðra vinnustaði,“ segir Bethsaida Rún Arnarson brosandi, segir á vef Samherja.