Vegagerðin hefur boðað mikla hækkun á gjaldskrá Hríseyjarferjunnar Sævars frá og með 1. maí. Ingólfur Sigfússon, sem sæti á í hverfisráði Hríseyjar, og Ásrún Ýr Gestsdóttir, varabæjarfulltrúi á Akureyri, vöktu bæði athygli á málinu á Facebook í gærkvöldi.
Eyjarskeggjar eru afar ósáttir við hækkunina, en það sem virðist slá þá mest er mikil hækkun á upphringiferðum, sem svo eru kallaðar. Það eru ferðir sem mögulegar eru á ákveðnum tímum, en skipið siglir þá ekki ema sérstaklega hafi verið beðið um það.
Allt að 362,5% hækkun
Ingólfur segir um að ræða ferð kl. 23:00 á hverju kvöldi frá september og fram í maí, ferð klukkan 9:00 á sunnudagsmorgnum á sama tímabili og loks ferð kl. 7:00 að morgni laugardags, allt árið.
Fullt upphringigjald er nú 1.700 krónur en fer upp í 3.700 krónur fyrir alla farþega, 12 ára og eldri.
Ingólfur segir:
- Fram að þessu hafa 12-15 ára og örorku- og ellilífeyrisþegar greitt hálft gjald fyrir þessa þjónustu, 850 kr.
- Er þetta verðhækkun um 117,6% miðað við almenna fargjaldið og 362,5% miðað við gjald barna, aldraðra og öryrkja, takk fyrir pent!
„Það er algjörlega óþolandi að ríkisstofnun skuli boða slíka verðhækkun og skerða þar með búsetuskilyrði okkar sem búum í Hrísey á svipuðum tíma og styrkir hafa fengist frá ríkinu til að styðja við byggð í eyjunni. Önnur höndin gefur en hin tekur,“ skrifar Ingólfur og heldur áfram:
„Fólksfjölgun og uppbygging hefur átt sér stað undanfarin ár, ungu fólki fjölgað og bjartsýni aukist. Við sem hér búum gerum okkur grein fyrir þeim samgöngutakmörkunum sem við búum við en höfum sætt okkur við að þurfa að greiða aukalega fyrir þessar ferðir. Verðhækkun sem nú er boðuð bitnar að langmestu leyti á íbúum eyjarinnar og skerðir verulega möguleika fólks að stunda félagsstarf, íþróttastarf, sækja menningarviðburði eða bara vera lengur í heimsókn hjá vinum eða ættingjum svo eitthvað sé nefnt. Sama má segja ef gestir eyjarinnar myndu vilja vera lengur en til kl. 21 að kvöldi, þá þarf fólk sem greiðir farmiða fram og til baka við komu í eyjuna og greiða aftur fyrir að fara „seint“ til baka. Það á enginn að þurfa að útskýra eða réttlæta hvers vegna það þurfi lengri „útivistartíma“ eða af hverju það þarf að vera á ferðinni snemma á laugardags- eða sunnudagsmorgni. Þetta er bara þjónusta sem við viljum geta stólað á og það á ekki bara að vera á höndum efnaðra að notfæra sér slíka ríkisrekna þjónustu. Fyrir mína fjölskyldu mun ein upphringiferð fara úr 5.100 kr. í 14.800 kr. sem er líklega álagning sem fæstir myndu sætta sig við fyrir t.d. tónleika sem standa lengur en til kl. 21 að kvöldi í desember sem dæmi.“
Allir komu af fjöllum
Ásrún Ýr Gestsdóttir varabæjarfulltrúi segist sýna því fullan skilning að hækka þyrfti gjöld „eins og staðan er í dag í samfélaginu“, en innan skynsamlegra marka.
„Við sem búum í Hrísey vitum þegar við flytjum hingað að við höfum takmarkaðri möguleiki á að sækja ýmsa viðburði, böll eða gleði sem er fram á kvöld. Með nýrri gjaldskrá er enn frekar verið að takmarka þá möguleika, sérstaklega fyrir fjölskyldufólk og fólk með lægri tekjur.“
Ásrún nefnir dæmi: „Ef okkur Klas dytti í hug að bjóða öllum þremur börnunum okkar á tónleika í Hofi sem hefjast klukkan 20:00, þá myndum við greiða aukalega 18.500 krónur til þess að komast heim sama kvöld. Aðeins minna ef Heimir heldur sig á Akureyri, þá væri það bara 14.800 krónur fyrir heimferðina. Fyrir hækkun hefðum við greitt 5.100 krónur, 6.800 ef Heimir kæmi með heim.“
Ásrún skrifar:
„Barn í Hrísey stundar tómstundir eins og dans eða fótbolta. Það eru stundum leikir eða sýningar um helgar og oft að börnin þurfa að vera mætt snemma. Það kostar þá barnið og eitt foreldri 7.400 krónur að fara úr Hrísey á laugardags eða sunnudagsmorgni með upphringiferð. Vonandi byrjar sýningin/leikurinn seinna svo restin af fjölskyldunni geti komið yfir á fastri áætlunarferð...
Það er takmarkað í boði, menningarlega og íþróttalega séð í Hrísey. Skiljanlega. Við sækum því í land þá tónleika og viðburði sem við getum og höfum áhuga á. Núna er verið að takmarka þann aðgang sem við þó höfðum. Fyrir utan svo þá staðreynd að möguleikar okkar á að sækja síðdegis- og kvöldveislur til fjölskyldu og vina lengra frá en Akureyri og Dalvík er allt í einu orðinn algjör lúxus.
Þá hef ég ekki komið inn á áhrifin sem þessi hækkun getur haft á ferðamannaiðnaðinn yfir vetrartímann hérna í Hrísey.
Enda var ekkert rætt við neinn hérna í eyjunni. Ekki heyrt í hverfisráði, ferðamálafélagi eða þróunarfélagi Hríseyjar. Þetta er ákvörðun tekin við skrifborð, líklegast á höfuðborgarsvæðinu, eftir excelreikninga sem eru svo langt frá því að vera mannlegir. Ætli þau sem þessa ákvörðun taka hafi yfirhöfuð komið til Hríseyjar? Óþolandi að ókunnugt fólk geta leikið sér svona með lífsgæði okkar...
Ég mun aldrei hætta að berjast fyrir samfélaginu okkar hér í Hrísey. Ekki frekar en nágrannar mínir og vinir hér í eyjunni. Við tökum þessu ekki þegjandi og hljóðalaust!“ segir Ásrún Ýr.