- Vikulega birtist pistillinn Tré vikunnar á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga. Akureyri.net birtir hluta hvers pistils í því skyni að vekja athygli á skrifunum.
Lífsins tré: Kanadalífviður
TRÉ VIKUNNAR - LXI
Leiðangursstjórinn, Jacques Cartier, leit yfir hópinn og leist ekki á blikuna. Eftir nær tveggja ára dvöl í þessu fjarlæga landi leyndi sér ekki að nánast allur hópurinn var verulega veikur og vannærður. Skipin og bátarnir voru frosin föst á ánni og Frakkarnir komust ekki neitt. Einn af þessum bronslituðu frumbyggjum virtist þekkja sjúkdómseinkennin og ef Carteir skyldi hann rétt sagðist hann geta hjálpað. Átti Carteir að treysta þessum síðhærða, skegglausa manni?
Frumbygginn gekk undir nafninu Donacona (Einnig nefndur Domagaya) og var höfðingi hjá Iroquoian þjóðinni. Hvað annað gat Cartier gert? Voru einhverjar líkur á að Frakkarnir gætu lifað af veturinn 1536 án hjálpar fyrst þeir voru allir svona veikir?
Franski leiðangursstjórinn Jacques Cartier hittir höfðingjann Donacona sumarið áður en skyrbjúgur hrjáði hópinn. Myndin gerð árið 1908 og fengin héðan.
Þeim sígrænu runnum og trjám, sem ræktuð eru á Íslandi, hefur fjölgað hin sìðari ár. Ein af þeim tegundum sem vaxa nú í görðum er kanadalífviður eða Thuja occidentalis L. Tegundin er mikið ræktuð úti í hinum stóra heimi og til eru fjölmörg yrki sem ræktuð eru. Sum af þeim hafa reynst prýðilega á Íslandi og er full ástæða til að segja aðeins frá þessari tegund og helstu yrkjum. Í þeirri sögu kemur leiðangur Jacques Cartier til Norður-Ameríku árin 1535-1536 við sögu. Þetta var annar leiðangur hans af þremur til þess svæðis sem nú kallast Kanada.
Kanadalífviður. Myndina tók Betty Honeycutt og birti á Facebooksíðunni Unique Trees.
Lífsins tré
Gamla nornatréð á klettinum við Superiorvatn. Það er snúið, skælt og kræklótt enda hefur það mátt þola ýmislegt. Sagt er að þetta sé elsta lífvera í Minnesota. Fransk-kanadíski landkönnuðurinn Sieur de la Verendrye lýsti þessu tré árið 1791 og var það þá þegar orðið gamalt, að hans sögn. Frumbyggjar svæðisins af ætt Ojibwe kalla tréð Manidoo-giizhikens. Lesa má meira um þetta tré hér og þaðan er fyrsta myndin. Næsta mynd er héðan og lokamyndin héðan.
Ömmulífviður
1100 ára gamall kanadalífviður við landamæri Kanada og Bandaríkjanna við Basswood vatn. Myndina tók Michael Welp og birti á Facebooksíðunni Unique Trees
Franski leiðangurinn
Kort sem sýnir leið Cartiers í 2. leiðangri hans um Kanada. Skip hans voru frosin í St. Lawrence ánni þegar hann komst í kynni við lífviðinn sem bjargaði honum. Það gerir þessa sögu dálítið einkennilega að samkvæmt Cartier létust 50 frumbyggjar úr skyrbjúg áður en heimamenn læknuðu alla með C-vítamínríku seyði af berki og barri lífviðarins. Mynd og upplýsingar: Wikipedia.
Kort sem sýnir helstu uppgötvanir Carteiers sem fór þrjár ferðir til Kanada á sínum tíma. Neðst til vinstri er Flórídaskagi og Bahamaeyjar en eftst til hægri er Nýfundnaland. Myndin fengin úr þessari Wikipediugrein um kappann.
Lækningamáttur
Kanadalífviður við ána Diff í Butepark i Cardiff í Veils ásamt ýmsum öðrum fallegum trjám. Mynd: Sig.A.
Áður en við segjum skilið við andaheim í tengslum við kanadalífvið er gott að geta þess að lífviðurinn sem vex á vesturströnd Norður-Ameríku og kallast risalífviður, T. plicata, hafði líka mikilvægt hlutverk í menningu þeirra þjóða sem þar bjuggu áður en þjóðarmorð Evrópubúa í Ameríku hófust og reyndar lengi síðan. Margir frumbyggjar á þeim slóðum litu einnig á lífvið sem lífsins tré. Því er þetta heiti; lífviður, ákaflega vel heppnað og viðeigandi.
Því má einnig bæta við að í pistli okkar um risalífvið sögðum við frá því hversu algengt er að nota tegundina í tótemsúlur. Sá siður þekktist ekki á slóðum kanadalífviðarins.
Kanadalífviður í grasagarðinum í Kaupmannahöfn. Mynd: Sig.A.
Fræðiheitið
Þess finnast dæmi að T. occidentalis hafi verið beinþýtt yfir á íslensku og kanadalífviður því stundum nefndur vesturlífviður. Það er ákaflega óheppilegt því þótt tegundin vaxi vissulega vestan Atlantshafsins þá vex hún í austurhluta álfunnar. Risalífviðurinn vex um álfuna vestanverða. Occidentalis vísar ekki í það hvar í Vesturheimi tréð vex.
Kanadalífviður á bökkum Superior vatns. Myndirnar tók Jesse Jacques og birti á Facebooksíðunni Unique Trees.
Könglar
Tegundin getur myndað frjótt fræ á Íslandi.
Könglar á kanadalífvið í Lystigarðinum. Grænu, uppréttu könglarnir eru yngri og minna þroskaðir. Gömlu könglarnir hanga niður, eru brúnir og hafa opnast. Myndina tók Björgvin Steindórsson og birti hana á heimasíðu Lystigarðsins.
Villt tré
Planta með fullt af litlum könglum í Maine. Myndin fengin héðan.
Á sínum heimaslóðum verður kanadalífviður með elstu trjám. Hann nær að minnsta kosti 800 ára aldri. Samkvæmt þessari síðu er elsta þekkta tréð 1100 ára gamalt. Hæstum aldri ná trén á óaðgengilegum stöðum þar sem skógareldar og hjartardýr ná ekki til þeirra. Þekkt er að hjá sumum dádýrum geta greinar þessara trjáa verið allt upp í fjórðungur af fóðri þeirra á veturna. Hérar sækja einnig mikið í neðri greinarnar á þessum trjám og geta valdið trjánum miklum skaða. Sambærilegt vandamál þekkist í Kjarnaskógi þar sem kanínur sækja í þessi tré á veturna og geta gengið af ungum trjám dauðum.
Krónan er keilulaga og neðstu greinarnar nær láréttar út frá stofni. Efri greinarnar sveigjast aðeins upp á við.
Eins og aðrir lífviðir er kanadalífviður skuggþolinn og hann þolir margs konar jarðveg þótt hann kjósi töluverðan raka.
Barrið liggur þétt að greinunum, skarast og þekur alveg smágreinarnar. Það er sígrænt en á það til að verða dálítið brúnleitt á veturna.
Gamall kanadalífviður myndar hreina lundi í mýrum við Onodaka vatn í New York. Myndin fengin héðan þar sem fjallað er um fyrirbærið.
Ræktun
Glæsilegur kanadalífviður í garði Vignis Sveinssonar, fyrrum formanns SE og Valdísar Gunnlaugsdóttur, konu hans. Þegar lífviður er gróðursettur á góðum stað vex hann vel eins og sjá má. Á myndinni má greina fullt af litlum, brúnum könglum frá góða sumrinu 2022. Mynd: Helgi Þórsson.
Betra er að gróðursetja trén og runnana í jörðu ef hægt er. Veldur það minna álagi á rótarkerfið en lífið í litlum pottum. Þannig geta lífviðir lifað góðu lífi í mörg ár, jafnvel margar aldir, ef allt fer vel.
Þar sem hægt er að velja yrki af mismunandi gerð er hægt að mæla með kanadalífvið jafnt í stóra sem litla garða. Við viljum þó benda á einn vaxtarstað sem gott er að hafa í huga fyrir mörg yrki af kanadalífvið.
Eins og kunnugt er hefur lengi tíðkast að byggja skjólveggi úr timbri við svokallaða sólpalla. Þar er hægt að njóta sólarinnar í skjóli fyrir vindum og augum forvitna nágranna. Hlémegin við þessa skjólveggi er oftast skuggi næst vegnum en samt ágætur hiti. Þar er alveg gráupplagt að rækta ýmiss yrki af kanadalífvið. Þar er sæmilega hlýtt og gott skjól en ekki mjög mikil sól. Allt eru þetta atriði sem henta lífviðnum vel. Ef þetta er haft í huga, þegar sólpallurinn og skjólgirðingin er á hönnunarstigi, má gera ráð fyrir að hafa beð innan við sólpallinn þar sem plönturnar geta fært okkur grænan lit á pallinn allt árið. Ef engin beð eru innan við skjólgirðinguna má gjarnan planta í sæmilega stór ker. Því stærri sem kerin eru, þeim mun munna stress fyrir ræturnar.
Annar staður í görðum sem getur hentað einstaklega vel fyrir lífviði er framan við útidyrnar. Það á reyndar við um flesta sígræna runna. Flest okkar koma heim til sín nær daglega og þá er gott að hafa eitthvað sígrænt nálægt útidyrum. Restina af garðinum notum við ekki nema fáa mánuði á ári. Ef gott skjól er framan við íbúðarhús er tilvalið að búa þar til beð með sígrænum plöntum þar sem planta má nokkrum yrkjum af kanadalífvið og fleiri sígrænum krúttrunnum.
Aðrar tegundir af lífviðum koma einnig til greina í garðrækt en kanadalífviðurinn hefur það fram yfir aðrar tegundir ættkvíslarinnar að af honum eru þekkt mjög mörg mismunandi yrki.
Blandað beð í skoska smábænum Glen Farg. Þarna má greina að minnsta kosti fjögur yrki af lífvið. Eitt frekar lágvaxið og gulleitt rétt við ruslatunnuna. Þar fyrir aftan er súlulaga yrki. Til hægri er breiðvaxið yrki og framan við það er kúlulaga, grænt yrki. Aftan við breiða yrkið sér í stóran sýprus. Þarna eru líka fleiri tegundir sem þrífast á Íslandi. Þarna er meðal annars dverghvítgreni á milli hávöxnu lífviðayrkjanna og efst til vinstri sér í hengibjörk. Mynd: Sig.A.
Limgerði
Hægt er að mynda gott skjól með kanadalífvið. Myndin fengin héðan.
Önnur notkun
Rétt eins og með systurtegundina um vestanverða álfuna þótti þessi tegund mjög heppileg til að smíða úr henni eintrjáninga. Hún var einnig notuð til að smíða grind í húðkeipa enda er viðurinn sterkur, endingargóður, léttur og þolir vel að vera lengi í vatni. Einnig mátti nota kanadalífvið til húsasmíða hjá þeim frumbyggjum sem smíðuðu sér varanleg hús. Helst voru það heimamenn af ætt Ojibwe og Maniwaki sem smíðuðu úr þeim hús eins og sjá má á meðfylgjandi mynd. Á þeirra slóðum þurftu byggingar að standa af sér rigningar á sumrin og mikla snjókomu á vetrum. Þá dugðu ekki tjöld eins og frumbyggjarnir á sléttunum miklu gerðu sér. Viðurinn stenst einnig fúasveppi og árás skordýra betur en flestur annar viður á þessum slóðum. Því er hann gjarnan nýttur í alls konar staura sem grafnir eru að hluta í jörð. Þar endist hann vel. Sjá nánar hér. Iroquois þjóðin lærði að nota börkinn til margvíslegra hluta og ýmsir frumbyggjar bjuggu til spjót, örvar, sleða og fleira úr kanadalífvið.
Hefðbundið frumbyggjahús úr kanadalífvið. Myndin fengin héðan.
Samanburður
Hægt er að þekkja í sundur risalífvið, T. plicata og kanadalífvið, T. occidentalis á neðra borði greinanna. Eins og sjá má er líka munur á könglum. Myndin fengin héðan.