Fara í efni
Pistlar

Lífsins tré: Kanadalífviður

TRÉ VIKUNNAR - LXI

Leiðangursstjórinn, Jacques Cartier, leit yfir hópinn og leist ekki á blikuna. Eftir nær tveggja ára dvöl í þessu fjarlæga landi leyndi sér ekki að nánast allur hópurinn var verulega veikur og vannærður. Skipin og bátarnir voru frosin föst á ánni og Frakkarnir komust ekki neitt. Einn af þessum bronslituðu frumbyggjum virtist þekkja sjúkdómseinkennin og ef Carteir skyldi hann rétt sagðist hann geta hjálpað. Átti Carteir að treysta þessum síðhærða, skegglausa manni?

Frumbygginn gekk undir nafninu Donacona (Einnig nefndur Domagaya) og var höfðingi hjá Iroquoian þjóðinni. Hvað annað gat Cartier gert? Voru einhverjar líkur á að Frakkarnir gætu lifað af veturinn 1536 án hjálpar fyrst þeir voru allir svona veikir?

 

Franski leiðangursstjórinn Jacques Cartier hittir höfðingjann Donacona sumarið áður en skyrbjúgur hrjáði hópinn. Myndin gerð árið 1908 og fengin héðan.

Þeim sígrænu runnum og trjám, sem ræktuð eru á Íslandi, hefur fjölgað hin sìðari ár. Ein af þeim tegundum sem vaxa nú í görðum er kanadalífviður eða Thuja occidentalis L. Tegundin er mikið ræktuð úti í hinum stóra heimi og til eru fjölmörg yrki sem ræktuð eru. Sum af þeim hafa reynst prýðilega á Íslandi og er full ástæða til að segja aðeins frá þessari tegund og helstu yrkjum. Í þeirri sögu kemur leiðangur Jacques Cartier til Norður-Ameríku árin 1535-1536 við sögu. Þetta var annar leiðangur hans af þremur til þess svæðis sem nú kallast Kanada.

 

Kanadalífviður. Myndina tók Betty Honeycutt og birti á Facebooksíðunni Unique Trees.

Lífsins tré

Á meðal þeirra frumbyggjaþjóða sem búa á slóðum kanadalífviðar hefur þessi tegund lengi notið ákveðnar helgi. Hjá sumum þjóðum á það við um tegundina í heild en hjá öðrum teljast einstök tré vera heilög. Sennilega er tréð, sem sjá má hér að neðan á meðfylgjandi myndum þeirra frægast. Það stendur við strendur Lake Superior, þar sem það hefur staðið á kletti í mörg hundruð ár.
 
Sumir segja að í trénu búi andi eða jafnvel norn sem geti refsað þeim sem ferðast um vatnið. Andi þessi getur birst í líki fálka. Hann mun vera hrifinn af tóbaki, svona eins og áður var troðið í friðarpípur. Því þykir mörgum tryggara að gefa þessu tré örlítið tóbak áður en siglt er út á vatnið. Þá lætur andinn ferðalanga í friði og getur jafnvel verndað þá ef í harðbakkann slær. Sumir telja að hægt sé að fá góða strauma frá trénu, einkum ef andanum í því er gefið tóbak. Frá vatninu að sjá er þetta tré auðþekkt kennileiti og auðveldar ferðalöngum að átta sig á hvar þeir eru staddir. (Spade 2023, Ella Andra-Warner 2019). 
 

Gamla nornatréð á klettinum við Superiorvatn. Það er snúið, skælt og kræklótt enda hefur það mátt þola ýmislegt. Sagt er að þetta sé elsta lífvera í Minnesota. Fransk-kanadíski landkönnuðurinn Sieur de la Verendrye lýsti þessu tré árið 1791 og var það þá þegar orðið gamalt, að hans sögn. Frumbyggjar svæðisins af ætt Ojibwe kalla tréð Manidoo-giizhikens. Lesa má meira um þetta tré hér og þaðan er fyrsta myndin. Næsta mynd er héðan og lokamyndin héðan. 

Ömmulífviður

Sagt er að meðal sumra frumbyggja Norður-Ameríku sé kanadalífviður fulltrúi hins gamla á meðal alls sem lifir. Þeir eru öldungarnir í öldungaráðinu og stundum nefndir eða lífviðarömmur eða ömmulífviðir eins og heimamenn af þjóð Ojibwe kalla trén. Á þeirra máli segja þeir Nookomis Giizhik. Þessir öldungaráðsfulltrúar í hópi trjáa hugsa um mannkynið og færa því þau lyf sem það þarf á að halda til að takast á við sjúkdóma og erfiðleika. Börkur og barr trjánna er stundum notað í seyði eða te sem á að vera ákaflega heilsusamlegt. Það kann að vera sitthvað til í því. Nútíma vísindi hafa sýnt fram á að barrið er ríkt af C-vítamíni. En þetta er ekki allt. Ojibwe þjóðin lítur á tréð sem sérstaka gjöf til mannkyns. Sagt er að með því að setja greinar eða börk í skóinn þá verði þér allir vegir færir. Með því að blanda saman barri og tóbaki og henda í varðeldinn má vænta velvildar andans Manidoog sem mun hrekja í burtu illa anda. Með greinum lífviðarins má líka hreinsa heimili manna af öllu slæmu og í leiðinni fá inn góða lykt (Ella Andra-Warner 2019, Spade 2023). 
 
 

1100 ára gamall kanadalífviður við landamæri Kanada og Bandaríkjanna við Basswood vatn. Myndina tók Michael Welp og birti á Facebooksíðunni Unique Trees

Franski leiðangurinn

Árið 1536 var hópur franskra leiðangursmanna í Kanada eins og áður greinir. Þjáðust þeir flestir af skyrbjúg sem fyrst og fremst stafar af C-vítamínskorti. Leiðangursstjórinn, Jacques Cartier, hitti heimamann að nafni Donacona sem áttaði sig á hvað var að. Cartier átti ekki um annað að velja en treysta frumbyggjanum. Donacona leitaði til lífviðarömmu og bjó til seyði handa hinum illa höldnu Frökkum. Er skemmst frá því að segja að seyðið læknaði allan hópinn af sjúkdómnum. Frakkarnir voru himinsælir yfir lækningunni eins og vænta mátti. Þeir fluttu með sér eintak af kanadalífvið til Frakklands og nefndu það „lífsins tré“ eða Arbre de vie vegna björgunarinnar. Það má heita merkilegt að í Orðabanka Íslenskrar málstöðvar er þetta franska heiti ekki gefið upp. 
 
 

Kort sem sýnir leið Cartiers í 2. leiðangri hans um Kanada. Skip hans voru frosin í St. Lawrence ánni þegar hann komst í kynni við lífviðinn sem bjargaði honum. Það gerir þessa sögu dálítið einkennilega að samkvæmt Cartier létust 50 frumbyggjar úr skyrbjúg áður en heimamenn læknuðu alla með C-vítamínríku seyði af berki og barri lífviðarins. Mynd og upplýsingar: Wikipedia. 

Heitið hefur skilað sér inn í ensku og er öll ættkvíslin af sumum kölluð Arborvitae æ síðan, en framburðurinn er misjafn eftir málsvæðum (Spade 2023). Verður það heiti að teljast prýðisdæmi um svokallaða golfrönsku. Þjóðverjar hafa þýtt franska heitið og kalla tréð Lebensbaum. Íslenska heitið, lífviður, er vitanlega vaxið af sömu rót.
 
 

Kort sem sýnir helstu uppgötvanir Carteiers sem fór þrjár ferðir til Kanada á sínum tíma. Neðst til vinstri er Flórídaskagi og Bahamaeyjar en eftst til hægri er Nýfundnaland. Myndin fengin úr þessari Wikipediugrein um kappann.

Lækningamáttur

Þrátt fyrir hátt hlutfall af C-vítamíni í grænu barri þessara trjáa er ekki talið sérstaklega heilsusamlegt að drekka seyði af því í hvert mál. Í því eru fleiri efni og sum þeirra geta verið skaðleg heilsu manna sé þeirra neytt í miklu magni. Hæst ber þar efni sem kallast thujone eftir ættkvíslinni. Því er ekki ráðlegt að drekka seyði af lífviðarbarri í stórum stíl. Hér er grein þar sem lesa má um gagnsemina og hætturnar. Rétt er að geta þess að talið er að læknavísindi frumbyggjanna á þessum slóðum hafi byggst á ákveðnum athöfnum ásamt blöndu af náttúrulyfjum. Sú þekking er að mestu glötuð og ekki alltaf auðvelt að átta sig á hvað kann að vera satt og rétt. Það sem ein þjóð nýtti sér hentaði ekki endilega þeirri næstu. Hér eru upplýsingar um lækningamátt samkvæmt sögum Ojibwe fólksins. Aðrir hópar notuðu tegundina til að kljást við hausverk, hálsbólgu, hita, lungnabólgu, gigt, tognanir, marbletti og sár, ef marka má þessa heimild. Þar kemur líka fram að Algonquin þjóðin, sem hingað til er ónefnd í þessum pistli, notaði tréð til að lækna útbrot og húðsjúkdóma. Fólk af þeirri þjóð notuðu gjarnan greinar af trjánum í gufubað við hita, kvefi og tannpínu og brugguðu seyði til að lækna magakrampa í börnum. Nútíma læknavísindi hafa ekki staðfest þessa virkni.
 
 

Kanadalífviður við ána Diff í Butepark i Cardiff í Veils ásamt ýmsum öðrum fallegum trjám. Mynd: Sig.A.

Áður en við segjum skilið við andaheim í tengslum við kanadalífvið er gott að geta þess að lífviðurinn sem vex á vesturströnd Norður-Ameríku og kallast risalífviður, T. plicata, hafði líka mikilvægt hlutverk í menningu þeirra þjóða sem þar bjuggu áður en þjóðarmorð Evrópubúa í Ameríku hófust og reyndar lengi síðan. Margir frumbyggjar á þeim slóðum litu einnig á lífvið sem lífsins tré. Því er þetta heiti; lífviður, ákaflega vel heppnað og viðeigandi.

Því má einnig bæta við að í pistli okkar um risalífvið sögðum við frá því hversu algengt er að nota tegundina í tótemsúlur. Sá siður þekktist ekki á slóðum kanadalífviðarins.

 

Kanadalífviður í grasagarðinum í Kaupmannahöfn. Mynd: Sig.A.

Fræðiheitið

Um fræðiheiti ættkvíslarinnar, Thuja L., verður fjallað í pistli um ættkvíslina í heild sem mun birtast á næstu vikum. Viðurnefnið occidentalis vísar í að tegundin vex í Vesturheimi. Þetta er því andheiti við orientalis sem stundum er notað yfir tegundur sem eru austrænar. Einu sinni var til latínuheitið Thuja orientalis og var það notað á tegund sem kallast kínalífviður. Nánari rannsóknir hafa fært kínalífvið úr lífviðarættkvíslinni og því er þetta heiti ekki lengur í brúki. Kínalífviður kallast núna Platyclasus orientalis.
 

Þess finnast dæmi að T. occidentalis hafi verið beinþýtt yfir á íslensku og kanadalífviður því stundum nefndur vesturlífviður. Það er ákaflega óheppilegt því þótt tegundin vaxi vissulega vestan Atlantshafsins þá vex hún í austurhluta álfunnar. Risalífviðurinn vex um álfuna vestanverða. Occidentalis vísar ekki í það hvar í Vesturheimi tréð vex.

Kanadalífviður á bökkum Superior vatns. Myndirnar tók Jesse Jacques og birti á Facebooksíðunni Unique Trees.

Könglar

Karlblóm og kvenblóm birtast á sömu einstaklingum. Karlblómin eru einskonar reklar sem verða um 1mm að stærð, dökkrauðir að lit. Fullþroska könglar eru egglaga og um 1 cm að stærð. Fyrst eru þeir uppréttir en hanga svo þegar þeir opnast. Köngulhreistur er mjög útrétt þannig að gamlir könglar eru eins og litlar, útskornar rósir.
 

Tegundin getur myndað frjótt fræ á Íslandi.

 

Könglar á kanadalífvið í Lystigarðinum. Grænu, uppréttu könglarnir eru yngri og minna þroskaðir. Gömlu könglarnir hanga niður, eru brúnir og hafa opnast. Myndina tók Björgvin Steindórsson og birti hana á heimasíðu Lystigarðsins.

Villt tré

Kanadalífviður vex villtur í austurhluta Norður-Ameríku. Hann vex í suðausturhluta Kanada og norðausturhluta Bandaríkjanna. Einnig má finna stöku lundi sunnar í Bandaríkjunum. Þá er að finna í Appalachian fjöllum þar sem loftslagi svipar til þess sem er við vötnin miklu. Þrátt fyrir að vaxa fremur hægt getur kanadalífviður náð að jafnaði 15 til rúmlega 18 metra hæð á sínum heimaslóðum. Það er aðeins um helmingur þeirrar hæðar sem risarnir í ættkvíslinni ná í skógunum í vesturhluta Norður-Ameríku. Hinn hægvaxta stofn getur orðið um 30 til rúmlega 60 cm í þvermál. Tegundin kýs sér fremur rakan jarðveg og ræður jafnvel við að vaxa í votlendi þar sem fá önnur tré geta þrifist. Þar myndar kanadalífviður stundum samfellda lundi. 
 
 

Planta með fullt af litlum könglum í Maine. Myndin fengin héðan.

Á sínum heimaslóðum verður kanadalífviður með elstu trjám. Hann nær að minnsta kosti 800 ára aldri. Samkvæmt þessari síðu er elsta þekkta tréð 1100 ára gamalt. Hæstum aldri ná trén á óaðgengilegum stöðum þar sem skógareldar og hjartardýr ná ekki til þeirra. Þekkt er að hjá sumum dádýrum geta greinar þessara trjáa verið allt upp í fjórðungur af fóðri þeirra á veturna. Hérar sækja einnig mikið í neðri greinarnar á þessum trjám og geta valdið trjánum miklum skaða. Sambærilegt vandamál þekkist í Kjarnaskógi þar sem kanínur sækja í þessi tré á veturna og geta gengið af ungum trjám dauðum.

Krónan er keilulaga og neðstu greinarnar nær láréttar út frá stofni. Efri greinarnar sveigjast aðeins upp á við.

Eins og aðrir lífviðir er kanadalífviður skuggþolinn og hann þolir margs konar jarðveg þótt hann kjósi töluverðan raka.

Barrið liggur þétt að greinunum, skarast og þekur alveg smágreinarnar. Það er sígrænt en á það til að verða dálítið brúnleitt á veturna.

 

Gamall kanadalífviður myndar hreina lundi í mýrum við Onodaka vatn í New York. Myndin fengin héðan þar sem fjallað er um fyrirbærið.

Ræktun

Best er að bjóða kanadalífvið upp á skjólgóðan og hlýjan vaxtarstað með góðu aðgengi að vatni. Stundum eru hin ýmsu yrki ræktuð í pottum og getur það vel virkað ef pottarnir eru nægilega stórir. Þegar sígrænar plöntur eru ræktaðar í pottum, sérstaklega í of litlum pottum, á frost oft og tíðum greiða leið að rótunum allan veturinn og vatnsskortur getur verið viðvarandi. Á vorin getur svo sólin skinið á pottana og þá geta þeir hitnað um of. Allt veldur þetta rótunum miklu stressi sem drepið getur þær og þar með plönturnar. Þessi fjöldamorð á lífviðum og öðrum sígrænum trjám má sjá nær árlega í apríl um nær allt landið. 
 
 

Glæsilegur kanadalífviður í garði Vignis Sveinssonar, fyrrum formanns SE og Valdísar Gunnlaugsdóttur, konu hans. Þegar lífviður er gróðursettur á góðum stað vex hann vel eins og sjá má. Á myndinni má greina fullt af litlum, brúnum könglum frá góða sumrinu 2022. Mynd: Helgi Þórsson.

Betra er að gróðursetja trén og runnana í jörðu ef hægt er. Veldur það minna álagi á rótarkerfið en lífið í litlum pottum. Þannig geta lífviðir lifað góðu lífi í mörg ár, jafnvel margar aldir, ef allt fer vel.

Þar sem hægt er að velja yrki af mismunandi gerð er hægt að mæla með kanadalífvið jafnt í stóra sem litla garða. Við viljum þó benda á einn vaxtarstað sem gott er að hafa í huga fyrir mörg yrki af kanadalífvið.

Eins og kunnugt er hefur lengi tíðkast að byggja skjólveggi úr timbri við svokallaða sólpalla. Þar er hægt að njóta sólarinnar í skjóli fyrir vindum og augum forvitna nágranna. Hlémegin við þessa skjólveggi er oftast skuggi næst vegnum en samt ágætur hiti. Þar er alveg gráupplagt að rækta ýmiss yrki af kanadalífvið. Þar er sæmilega hlýtt og gott skjól en ekki mjög mikil sól. Allt eru þetta atriði sem henta lífviðnum vel. Ef þetta er haft í huga, þegar sólpallurinn og skjólgirðingin er á hönnunarstigi, má gera ráð fyrir að hafa beð innan við sólpallinn þar sem plönturnar geta fært okkur grænan lit á pallinn allt árið. Ef engin beð eru innan við skjólgirðinguna má gjarnan planta í sæmilega stór ker. Því stærri sem kerin eru, þeim mun munna stress fyrir ræturnar.

Annar staður í görðum sem getur hentað einstaklega vel fyrir lífviði er framan við útidyrnar. Það á reyndar við um flesta sígræna runna. Flest okkar koma heim til sín nær daglega og þá er gott að hafa eitthvað sígrænt nálægt útidyrum. Restina af garðinum notum við ekki nema fáa mánuði á ári. Ef gott skjól er framan við íbúðarhús er tilvalið að búa þar til beð með sígrænum plöntum þar sem planta má nokkrum yrkjum af kanadalífvið og fleiri sígrænum krúttrunnum.

Aðrar tegundir af lífviðum koma einnig til greina í garðrækt en kanadalífviðurinn hefur það fram yfir aðrar tegundir ættkvíslarinnar að af honum eru þekkt mjög mörg mismunandi yrki.

 

Blandað beð í skoska smábænum Glen Farg. Þarna má greina að minnsta kosti fjögur yrki af lífvið. Eitt frekar lágvaxið og gulleitt rétt við ruslatunnuna. Þar fyrir aftan er súlulaga yrki. Til hægri er breiðvaxið yrki og framan við það er kúlulaga, grænt yrki. Aftan við breiða yrkið sér í stóran sýprus. Þarna eru líka fleiri tegundir sem þrífast á Íslandi. Þarna er meðal annars dverghvítgreni á milli hávöxnu lífviðayrkjanna og efst til vinstri sér í hengibjörk. Mynd: Sig.A.

Limgerði

Kanadalífviður er mest ræktaða tegund ættkvíslarinnar. Víða um hnöttinn norðanverðan má sjá hann ræktaðan í ákaflega þéttum limgerðum. Óvíst er að þannig sé hægt að nýta tegundina á Íslandi því hér á landi vill allur lífviður einmitt hafa það skjól sem honum er ætlað að búa til í útlöndum. Þó má vel vera að hægt sé að rækta slík limgerði á skjólsælum stöðum ef ástæða er til.
 
 

Hægt er að mynda gott skjól með kanadalífvið. Myndin fengin héðan.

Önnur notkun

Frumbyggjar Norður-Ameríku nýttu þessa tegund á margvíslegan hátt. Hér að ofan er sagt frá lækningamætti tegundarinnar og tengslum hennar við allskonar anda. Verður það ekki endurtekið en önnur notkun frumbyggja skoðuð.
 

Rétt eins og með systurtegundina um vestanverða álfuna þótti þessi tegund mjög heppileg til að smíða úr henni eintrjáninga. Hún var einnig notuð til að smíða grind í húðkeipa enda er viðurinn sterkur, endingargóður, léttur og þolir vel að vera lengi í vatni. Einnig mátti nota kanadalífvið til húsasmíða hjá þeim frumbyggjum sem smíðuðu sér varanleg hús. Helst voru það heimamenn af ætt Ojibwe og Maniwaki sem smíðuðu úr þeim hús eins og sjá má á meðfylgjandi mynd. Á þeirra slóðum þurftu byggingar að standa af sér rigningar á sumrin og mikla snjókomu á vetrum. Þá dugðu ekki tjöld eins og frumbyggjarnir á sléttunum miklu gerðu sér. Viðurinn stenst einnig fúasveppi og árás skordýra betur en flestur annar viður á þessum slóðum. Því er hann gjarnan nýttur í alls konar staura sem grafnir eru að hluta í jörð. Þar endist hann vel. Sjá nánar hér. Iroquois þjóðin lærði að nota börkinn til margvíslegra hluta og ýmsir frumbyggjar bjuggu til spjót, örvar, sleða og fleira úr kanadalífvið.

 

Hefðbundið frumbyggjahús úr kanadalífvið. Myndin fengin héðan.

Samanburður

Ekki er alltaf bráðauðvelt að greina í sundur hinar tvær amerísku tegundir, risalífvið og kanadalífvið. Þó eru nokkur atriði sem gott er að hafa í huga. 1. Báðar tegundir hafa rauðleitan börk þegar trén eru ung en á eldri trjám verður kanadalífviðurinn miklu ljósari. Gallinn er sá að tegundirnar hafa ekki verið nægilega lengi í ræktun á Íslandi til að þetta hjálpi. Nær öll trén eru frekar ung. 2. Risalífviðurinn verður miklu hærri en kanadalífviður. Sami galli er á þessu og hér ofar. Flest trén á Íslandi eru enn mjög lítil. 3. Könglarnir eru ekki alveg eins. Þeir eru meira kúlulaga á kanadalífvið. Gallinn er sá að ung tré bera sjaldan köngla en um leið og þeir fara að myndast má greina tegundirnar í sundur. 3. Hægt er að bera saman neðra borð greinana. Þá sést munur, jafnvel á ungum trjám. Risalífviðurinn hefur hvíta bletti á neðra borði sem vantar alveg hjá kanadalífvið. 
 
 

Hægt er að þekkja í sundur risalífvið, T. plicata og kanadalífvið, T. occidentalis á neðra borði greinanna. Eins og sjá má er líka munur á könglum. Myndin fengin héðan. 

Smellið hér til að sjá allan pistil Sigurðar
 
Sigurður Arnarson er í stjórn Skógræktarfélags Eyfirðinga
 
  • Vikulega birtist pistillinn Tré vikunnar á vef Skógræktarfélags Eyfirðinga. Akureyri.net birtir hluta hvers pistils í því skyni að vekja athygli á skrifunum.

Hangið aftan í

Jóhann Árelíuz skrifar
24. nóvember 2024 | kl. 06:00

Hús dagsins: Lundargata 11

Arnór Bliki Hallmundsson skrifar
23. nóvember 2024 | kl. 06:00

Get ég gert eitthvað fyrir þig?

Kristín Aðalsteinsdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 12:00

Sköpun og flæði

Hrund Hlöðversdóttir skrifar
22. nóvember 2024 | kl. 06:00

Broddgreni

Sigurður Arnarson skrifar
20. nóvember 2024 | kl. 11:30

Stafræn ragnarök: Opinberun nýrra tíma

Magnús Smári Smárason skrifar
19. nóvember 2024 | kl. 17:30