Kveðjuleikur Brynjars og Þórsarar á Selfossi
Knattspyrnumaðurinn Brynjar Ingi Bjarnason spilar í kvöld síðasta leikinn með KA áður en hann heldur til Ítalíu, þar sem hann hefur samið við B-deildarlið Lecce til þriggja ára. KA-menn taka á móti KR-ingum í kvöld í Pepsi Max deildinni, efstu deild Íslandsmótsins, og fer leikurinn fram á Dalvík eins og fyrri heimaleikir KA í sumar. Flautað verður til leiks klukkan 19.15.
KA er í fjórða sæti deildarinnar með 17 stig eftir 9 leiki en KR hefur 15 stig að loknum 10 leikjum. KA vann fyrri leik liðanna, í 2. umferð Íslandsmótsins, 3:1 á KR-vellinum. Áðurnefndur Brynjar gerði þá eitt marka liðsins með skalla eftir aukaspyrnu.
Þórsarar verða einnig í eldlínunni í kvöld. Þeir mæta Selfyssingum á útivelli í Lengjudeildinni, næst efstu deild Íslandsmótsins. Leikurinn hefst klukkan 18.00.
Lið Þórs er í áttunda sæti með 11 stig eftir níu leiki en Selfyssingar eru í 10. sæti, hafa átta stig eftir níu leiki.