Fara í efni
Íþróttir

Kristjana kom heim með Evrópugull

Kristjana Ómarsdóttir alsæl með gullpeninginn á heimili sínu á Akureyri í dag. Mynd: Skapti Hallgrímsson

Kristjana Ómarsdóttir, 15 ára Akureyringur, varð um helgina Evrópumeistari unglinga í hópfimleikum með landsliði Íslands.

Íslendingar hlutu tvenn gullverðlaun á Evrópumótinu sem fram fór í Bakú í Aserbaísjan. Annars vegar varð kvennalandsliðið Evrópumeistari í fullorðinsflokki, hins vegar Kristjana og félagar í blönduðu liði í unglingaflokki, þar sem stúlkur og drengir eru saman í liði. Þetta var í fyrsta skipti sem Ísland verður Evrópumeistari í blönduðum flokki unglinga.

Blandaða unglingalandsliðið sem varð Evrópumeistari. Kristjana er lengst til hægri í fremri röð. 

Andrea fyrirmynd

Vert er að geta þess að einn Evrópumeistara Íslands í fullorðinsflokki er sérstök fyrirmynd Kristjönu: Akureyringurinn Andrea Hansen sem æfði fimleika í heimabænum lengi vel en flutti suður á borgarhornið fyrir nokkrum árum og hefur keppt fyrir Gerplu síðan. „Hún hefur alltaf hvatt mig mikið og er mér mikil fyrirmynd. Ég er eiginlega að fara í sporin hennar núna,“ segir Kristjana.

Evrópumeistaratitill er toppurinn í heimi hópfimleikafólks þar sem ekki er haldið heimsmeistaramót og ekki keppt í greininni á Ólympíuleikum. Kristjana var því að vonum himinlifandi með árangurinn.

Kristjana Ómarsdóttir í stökkkeppninni í Bakú.

Erfiðið gleymdist fljótt!

„Þetta var ótrúlega gaman,“ sagði Kristjana í samtali við Akureyri.net í gær, þreytt en alsæl með gullpeninginn. Hún kom heim til Akureyrar í fyrrinótt eftir 28 tíma ferðalag frá Bakú til Keflavíkur og síðan bílferð norður.

Kristjana er nemandi í 10. bekk Síðuskóla og hefur að mestu verið í fjarnámi í allt haust vegna æfinga á höfuðborgarsvæðinu. Segist hún mjög þakklát skólanum fyrir að gera sér það kleift.

Foreldrar Kristjönu, Ómar Árnason og Drífa Þórarinsdóttir, voru með í för í Bakú. „Það hefur verið mikil vinna í langan tíma að keyra með hana fram og til baka á æfingar fyrir sunnan,“ segir Ómar, en er snöggur að bæta við: „Þetta var gríðarlega skemmtileg upplifun í Bakú. Maður var klökkur þegar keppninni lauk og þær fengu gullið – þá gleymdist allt erfiðið fljótt!“

Kristjana, til vinstri, og Hildur Lilja Arnarsdóttir úr Stjörnunni, sem einnig var í blandaða unglingaliðinu sem varð Evrópumeistari. Þær eru einungis 15 ára en liðið er skipað 18 ára og yngri.

Ekkert stress

„Ég hélt að þetta yrði miklu meira stress,“ segir Kristjana um keppnina, „en þegar maður var kominn út á gólfið hvarf allt stress. Maður var ekkert að pæla í því heldur upplifði bara hvað þetta var gaman.“

Kristjana segir að samheldni Íslendinganna hafi verið mjög mikil og það skipti einmitt gríðarlegu máli í hópfimleikum. „Mér fannst liðsheildin mjög góð og það hjálpaði okkur mikið í keppninni.“ Ómar bætir því við að fulltrúar annarra þjóða í Bakú hafi haft orð á því hve Íslendingarnir hafi virst samstilltir.

„Okkur gekk mjög vel í undanúrslitunum og vorum í fyrsta sæti eftir þau. Öllum hinum liðunum gekk hræðilega illa þá þannig að við vorum dálítið stressuð; héldum að þau ættu mjög mikið inni en svo gekk okkur líka rosalega vel í úrslitunum og fengum meira að segja hærri einkunn þá en í undanúrslitunum.“

Samkvæmt reglum fara sex lið áfram í úrslit „en það voru fimm lið í keppninni núna svo allir komust áfram,“ segir Kristjana.

Endastaðan í dansinum. Kristjana, til vinstri, og Lilja Karítas Sigurðardóttir.

Kristjana og dansþjálfari íslenska landsliðsins, Michal Rissky.

Mjótt á munum

Svíar fengu silfurverðlaun í keppninni og Bretland brons, eftir mjög harða baráttu. „Norðurlöndin hafa verið með bestu liðin í hópfimleikum en Bretland er líka að koma sterkt inn,“ segir Kristjana.

„Við náðum góðri lendingu í öllum stökkum okkar á mótinu, bæði í undanúrslitum og úrslitum, og dansinn var líka fullkominn,“ segir hún. Bætir svo við, til að útskýra hve keppnin var jöfn: „Okkur var sagt að ef einverjir tveir hjá okkur hefðu ekki verið með beinar ristar í dansinum í úrslitunum, þá hefðum við orðið í öðru sæti.“

Í hverju liði eru 12 keppendur. Sex keppa í einu í stökkunum þannig að krakkarnir skiptust á en Kristjana stökk í fimm umferðum af sex. 10 taka þátt í dansinum og hún var í þeim hópi.

Keppendur í unglingaflokki eru 18 ára og yngri. Kristjana er aðeins 15 ára sem fyrr segir þannig að hún verður gjaldgeng í liðið á ný eftir tvö ár þegar næsta Evrópumót fer fram í Finnlandi.

Kristjana, fyrir miðri mynd, undirbýr sig fyrir stökk á Evrópumótinu.

Langt og strangt ferli

Kristjana segir að ferlið að Evrópugullinu hafi verið langt og strangt. Hún var fyrst valin á úrvalsæfingar hjá Fimleikasambandinu árið 2022. Þá kom hópurinn saman til æfinga á þriggja til fjögurra mánaða fresti.

Í júní á þessu ári var Kristjana fyrst valin í stúlknalandsliðið sem æfði saman í fjórar vikur. Eftir þá törn var ákveðið hverjir færu á EM og Kristjana þá valin í blandaða liðið. Frá þeim tíma æfði landsliðið fjóra daga í viku þar til haldið var utan í síðustu viku svo Kristjana hefur verið meira og minna fyrir sunnan síðan í júní.

Kristjana hóf að stunda fimleika þriggja ára, og hefur því æft í 12 ár. Síðustu ár hefur hún einbeitt sér að hópfimleikum þar sem keppt er í stökkum og gólfæfingum og sprengikrafturinn skiptir miklu máli, en í áhaldafimleikum er meiri nákvæmni krafist.

  • Sjá má góða útskýringu á hópfimleikum neðst í greininni

Kristjana æfði í gegnum árin með Fimleikafélagi Akureyrar en er nú skráð í Gerplu. „Ég æfi samt líka hér en fer stundum suður um helgar því þar get ég æft með stelpum sem eru á sama getustigi og ég. Á Akureyri eru bara þrjár stelpur á mínum aldri að æfa fimleika og nokkrar sem eru einu eða tveimur árum yngri.“

Kristjana er staðráðin í að halda sínu strik og hlakkar til framhaldsins. Hún er þegar farin að hugsa um EM í Finnlandi að tveimur árum liðnum!

Keppnishöllin í Bakú.

HÓPFIMLEIKAR

Á vef íþróttafélagsins Gerplu er útskýrt um hvað áhaldafimleikar snúast.

Íþróttin er samblanda af líkamlega krefjandi æfingum og sterkri liðsheild, en þessir tveir þættir eru lykillinn að góðum árangri.

Tenging hugar og líkamsvitundar þarf að vera sterk til að einstaklingurinn geti byggt upp og sett saman flóknar æfingar sem framkvæmdar eru á nokkrum sekúndum.

Fimleikar eru mikil nákvæmis íþrótt þar sem æfingar eru framkvæmdar í krefjandi aðstæðum og því mikilvægt að iðkandinn tileinki sér einbeitingu og aga í vinnubrögðum sínum.

Keppt er á þremur mismunandi áhöldum, trampólíni, dýnustökki og gólfæfingum en hvert áhald hefur sýna sérstöðu.

Trampólín

  • Á trampólíni gerir hvert lið þrjár umferðir og þarf ein af þeim að vera með stökki yfir hest. Hér reynir á snerpu, styrk og samhæfingu fimleikamannsins, er hann þarf að ná hraða úr tilhlaupi sínu til að ná sem mestum sprengikrafti úr trampólíninu og inn í fimleikastökkið. Í loftinu framkvæmir fimleikamaðurinn svo mismunandi útfærslur af heljarstökkum með skrúfum sem stigmagnast eftir því sem færni fimleikamannsins eykst.

Dýnustökk

  • Á dýnustökki líkt og trampólíninu gerir hvert lið þrjár umferðir en fimleikamennirnir þurfa að framkvæma bæði stökk fram á við og aftur á bak. Hver umferð saman stendur af tengingu nokkurra fimleikaæfinga sem verða flóknari með aukinni færni fimleikamannsins. Samhæfing, sprengikraftur og styrkur eru lykilþættir í árangri í dýnustökkum.

Gólfæfingar

  • Oft er talað um að gólfæfingar séu ákveðið mótvægi á móti kraftinum og styrknum sem hin tvö áhöldin krefjast af fimleikamanninum. Mjúkar hreyfingar, fallegar línur, liðleiki, jafnvægi og hopp einkenna gólfæfingarnar þar sem allir liðsmenn framkvæma æfingarnar í takt líkt og í raun aðeins einn maður væri úti á gólfinu. Liðið þarf að færast um gólfflötinn og mynda mismunandi mynstur á meðan það framkvæmir æfinguna sem krefst mikillar samvinnu allra fimleikamannanna.